FIGUREIGHT LEGGUR MIKIÐ UPP ÚR AÐ VINNA NÁIÐ MEÐ LISTAMÖNNUNUM

0

Stofnað hefur verið nýtt útgáfufyrirtæki sem ber nafnið Figureight. Að baki fyrirtækisins standa Shahzad Ismaily og Hildur Maral Hamíðsdóttir. Shahzad er tónlistarmaður og sannkallaður Íslandsvinur sem hefur spilað með fjölmörgum íslenskum listamönnum undanfarin ár, en jafnframt getið sér gott orð með listamönnum á borð við Bonnie ‘Prince’ Billy, Lou Reed, Tom Waits og John Zorn. Hildur hefur starfað við tónlist í 13 ár, til að mynda innan plötufyrirtækja, sem umboðsmaður, við kynningarstörf og tónlistarhátíðir.

Figureight leggur mikið upp úr að vinna náið með listamönnum útgáfunnar og þeirra listrænu sýn. Þó að listamennirnir séu á víð og dreif í landafræðilegum skilningi sem og í hljóðheiminum sem þeir skapa þá á tónlistin það sameiginlegt að vera einlæg, einstök og einkar áhugaverð. Listamennirnir vinna jafnframt mikið saman sín á milli. Útgáfan gerir út frá því að hjálpa listamönnum að þróa hljóðheim sinn, til að mynda með því að gefa út fyrstu eiginlegu plötur sóló-verkefna listamanna sem áður hafa mest sést innan hljómsveita. Tónlist figureight fer yfirleitt að einhverju leiti í gegnum New York-hljóðverið Figure 8 sem Shahzad setti á laggirnar fyrir nokkrum árum og ýmsir íslenskir listamenn hafa unnið í.

Útgáfan er þegar með átta listamenn á sínum snærum og deilist þjóðerni þeirra jafnt á Ísland og Bandaríkin. Á hennar vegum hafa þegar komið út platan Makríl eftir Indriða auk þess sem plata JFDR frá því í mars, Brazil, kom út í samstarfi við fyrirtækið. Fleiri plötur eru væntanlegar á næstu mánuðum og verður tilkynnt um þær síðar.

Indriði.

Indriði Ingólfsson hefur getið sér gott orð innan listasenunnar á Íslandi. Hann er útskrifaður úr listnámi við LHÍ auk þess að hafa verið virkur í íslensku tónlistarlífi í fjölmörg ár sem forsprakki harðkjarnasveitarinnar Muck. Hann flutti nýverið til Berlínar þar sem hann aðstoðaði Jóhann Jóhannsson um skeið en hefur brallað ýmislegt undanfarin misseri, til að mynda kom hann fram á opnun litháenska verksins á Feneyjartvíæringnum.

Figureight gaf út plötu Indriða, Makríl, síðasta haust og nú hefur tónlistarvefurinn The Line Of Best Fit birt nýtt lag auk nýs myndbands við eitt laga Makríls og segir þau “frábær“. Sjá hér.

Lagið kallast “Turbone“ og fær Indriði þar liðsauka frá listakonunni Eartheater en það er hávaðadrifið og teknó-skotið. Hlustið hér, en lagið er einnig komið á Spotify og aðrar tónlistarveitur.

Myndbandið er við lagið “Undiraldan” og var tekið í Berlín af Sindra Steinarssyni og í því sést Fjóla Gautadóttir auk Indriða. Sjá hér að neðan.

Aaron Roche.

Næsta útgáfa figureight kallast HaHa HuHu eftir listamanninn Aaron Roche. Aaron hefur komið víða við og hefur til að mynda samið tónlist fyrir American Ballet Theatre og unnið með listamönnum á borð við Lower Dens, Sufjan Stevens og ANOHNI. Platan kemur út í september en fyrsta tóndæmi af henni birtist á vefnum Stereogum fyrir nokkru, sem sögðu það “spellbinding….magical”.

Lagið heitir “Like Why I” og má sjá myndband við það hér að neðan, en það er gert af Rebekku B. Björnsdóttur.

Næsta tóndæmi verður fáanlegt innan skamms.

Figureightrecords.com

Twitter

Skrifaðu ummæli