FIGUREIGHT GEFUR ÚT TVÆR PLÖTUR ÍSLENSKRA LISTAMANNA

0

Útgáfufyrirtækið figureight gefur út á næstunni tvær plötur íslenskra listamanna: Epicycle eftir Gyðu Valtýsdóttur og Arborescence eftir Úlf.

Plata Gyðu, Epicycle, kom út á geisladisk á vegum Smekkleysu á Íslandi eingöngu á síðasta ári og hlaut mikið lof gagnrýnenda en hún hlaut meðal annars verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum og Kraumsverðlaun. Nú gefur figureight plötuna út á heimsvísu og á 180g vinyl, sem hægt er að forpanta hér en verður jafnframt fáanleg á Íslandi í kringum útgáfudag, 13. október.

Vefsíðan Tiny Mix Tapes birti nýverið tvö lög af plötunni, Ancient Modes I & II sem eru byggð á „Two Studies of Ancient Greek Scale“ eftir Harry Partch (1946), sem þau segja framkalla gæsahúð. Einnig má sjá myndband frá tónleikum Gyðu í Dómkirkjunni fyrr á árinu þar sem verkin eru spiluð. Áhugasamir geta farið að láta sig hlakka til að sjá herlegheitin á tónleikum þar sem Gyða kemur fram í Fríkirkjunni á Iceland Airwaves hátíðinni í nóvember, nánar tiltekið fimmtudaginn 2. nóvember.

Plata Úlfs, Arborescence, kemur út þann 3. nóvember næstkomandi. Þetta er fyrsta plata Úlfs síðan 2013 og á henni kemur fram einvalalið tónlistarmanna á borð við Zeenu Parkins, Skúla Sverrisson, Greg Fox og Shahzad Ismaily.

Brooklyn Vegan frumfluttu í vikunni lagið „Vakandi.” Áður birtu Stereogum lagið „Fovea,” fyrsta singúl plötunnar. Lög þessi eru forsmekkur Arborescence og að miklu leiti þau auðmeltustu. Á plötunni kennir ýmissa grasa – ljúfar melódíur og söngur Úlfs blandast tilraunakenndum hljóðum sem gætu best átt heima í harðkjarnabakgrunni tónlistarmannsins. Raftónlist blandast strengjum á einstakan hátt, en um upptökustjórn sá Randall Dunn.

Nú má forpanta Arborescence á 180g gatefold vinyl sem og rafrænt, en hún verður einnig fáanleg í plötuverslunum í kringum útgáfudag.

Úlfur var nýverið í viðtali í Lestinni og The Reykjavík Grapevine þar sem hann lýsti bakgrunni sínum, hljóðfærasmíði, gerð plötunnar ofl.

Skrifaðu ummæli