Ferðalag inn í hljóðheim Muted: Náttúra, tækni og vísindi

0

Empire er önnur breiðskífa austfirska tónlistarmannsins Muted, á eftir „Muted World“ sem kom út árið 2014. Breiðskífan er gefin út af listamanninum sjálfum á eigin útgáfufyrirtæki og kemur út á stafrænu formi en einnig í mjög takmörkuðu upplagi á vínyl.

Nafnið á plötunni er tilvísun í náttúru Íslands og endurspeglast það vel í umslagi plötunnar sem málað var af Steinunni Harðardóttur eða Dj. flugvél og geimskip eins og margir þekkja ana. Steinunn er þar að auki ein af fjórum söngkonum sem ljá plötunni rödd sína.

Öll lögin eru samin af Muted og spiluð á ýmsa hljóðgervla sem í sambland við upptökur úr Zoom H4n upptökutæki ásamt ýmsum öðrum hljóðbútum eru samansoðnir í tíu lög sem í heildina mynda skemmtilegt ferðalag inní raftónlistar hljóðheim Muted. Hljóðheim innblásinn af náttúru, tækni og vísindum.

Hljóðblöndun var í höndum Muted og José Diogo Neves, prófessor við TÜ Viljandi Kultuuriakadeemia háskólann í Eistlandi sem einnig sá um masteringu.

Breiðskífan kemur aðeins út í 150 eintökum á „glóandi-hraun” lituðum vínyl plötum og verður hægt að nálgast hana beint frá listamanninum sjálfum á netfanginu: bjarni@muted.is eða gegnum vefsíðuna www.muted.is.

Muted.is

Skrifaðu ummæli