FALK OG PLUTÓ KYNNA ECTOTHERM SHOWCASE Á PALOMA 8. APRÍL

0

Laugardaginn 8. apríl næstkomandi mun samstarf FALK – Fuck Art Let’s Kill og DJ teymisins Plútó halda áfram og setja á stokk heljarinnar klúbbakvöld með Courtesy og Mama Snake frá dönsku techno útgáfunni Ectotherm.

ECTOTHERM er hugarfóstur og tónlistarútgáfa sem COURTESY og MAMA SNAKE settu á fót á síðasta ári. Sem Courtesy, spilar Najaaraq Nicoline Kleis Vestbirk kosmíska og hráa danstónlist. Hún er fædd í Paamiut, Grænlandi og er ein af örfáum raftónlistarmönnum sem þaðan koma en hún býr nú og starfar í Kaupmannahöfn. Hún útskrifaðist frá Red Bull Music Academy Tokyo árið 2014 og starfar í dag sem tónlistarblaðakona í útvarpsþættinum Scenery Copenhagen á RBMA stöðinni. Hún var meðlimur í danska kvenna DJ kollektívinu Aperion Crew hvar hún kynntist Söru Svanholm sem þeytir skífum undir nafninu Mama Snake. Þær stofnuðu útgáfuna til að koma á framfæri dönsku hæfileikafólki sem spila þeirra útgáfu af hrárri og áleitinni techno tónlist. Á stuttum tíma hefur þeim tekist að vekja töluverða athygli á sér og sínum með útgáfum frá snillingum á borð við Schacke, Rune Bagge og IBON auk þess sem þær skoruðu klúbba hittaran Sunrise EP með DJ Seinfeld sem kom út fyrr á þessu ári.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Ectotherm kemur hingað upp því Courtesy kom fram á SÓNAR Reykjavík 2016 auk þess sem hún spilaði á leynikvöldi á Paloma en í hugum margra danstónlistarunnenda þótti það kvöld standa upp úr það árið. Síðastliðið ár hafa þessar konur risið hratt í evrópsku danstónlistar senunni og hafa þær komið fram á öllum helstu kanónum senunnar á borð við Berghain, Corsica Studios, Resident Advisor og Boiler Room auk þess sem Mama Snake hefur verið að gera sett fyrir Lobster Theramin, Tweak FM í Kaupmanna höfn og fyrir Red Bull

Þeim til upphitunar þetta kvöld koma svo fram bestu plötusnúðar og mestu reynsluboltar hins íslenska dansgólfs. EWOK, DJ sjálf Gunnars Þórs Sigurðssonar, var í stofnendahóp breakbeat.is, og kynnti fyrstur Drum and Bass stefnuna fyrir íslendingum, og seinna meir Dubstep, hann spilar nánast hvaða danstónlistartýpu sem til er og gerir það óaðfinnanlega í hvert skipti. OZY, eða Örnólfur Thorlacius. Á tíunda áratug síðustu aldar og þeim fyrsta á þessari gaf hann út mígrút platna og þröngskífa á Thule Music og Force Inc útgáfunum en það nýjasta, Distant Present á japönsku útgáfunni Nothings66 með remixum frá Miles Whittaker og Laurel Halo.

Þetta kvöld er haldið af FALK (Fuck Art Let’s Kill)  og DJ hópnum Plútó. Síðust liðið ár hefur FALK gefið út listamenn á borð við AAIIEENN, DECANTER, LORD PUSSWHIP, THIZONE og HEIDATRUBAOR en haldið tónleika með AGATHA (UK), DAMIEN DUBROVNIK (DK), SHAPEDNOISE (IT/DE), OPAL TAPES (UK) OG PERC (UK) (tvö síðastnefndu í samstarfi með Plútó)

PLÚTÓ er hópur plötusnúða í Reykjavík sem inniheldur suma af bestu plötusnúðum landsins. Þeir risu úr rústum breakbeat.is ásamt Fótafimi (Juke/Footwork) og Lágtíðni (bass, grime) DJ hópunum. Þau reka sinn eigin útvarpsþátt klukkan 7-9 öll laugardagskvöld á FM Xtra og standa fyrir kvöldum á Paloma. Gæði þessara plötusnúða eru slík að þeim var boðið að loka Sónar Reykjavík hátíðinni í febrúar síðast liðinn með sérstöku 90 mínútna setti þar sem allir meðlimir hópsins komu fram saman.

Allir að láta sjá sig laugardaginn 8. apríl á Paloma Bar og byrjar herlegheitin kl 23:30 – 04:30. Það kostar 1500 kr frá Tix.is og 2000 krónur við hurð.

Facebook viðburðarsíða: https://www.facebook.com/events/242471089548929/

Skrifaðu ummæli