„ERUM LÖNGU BÚNAR MEÐ ALLT DRAMA“

0

Kolrassa Krókríðandi var stofnuð árið 1992 í Keflavík og kom platan Drápa út sama ár! Sveitin skaust upp á stjörnuhimininn og varð fljótt ein vinsælasta sveit landsins. Árið 1995 hófust ferðalög á milli heimsálfa undir nafninu Bellatrix og túraði sveitin meðal annars með stórstjörnunum í Coldplay!

Drápa fagnar 25 ára afmæli um þessar mundir og safnar því sveitin fyrir veglegri vínyl og Cd útgáfu á söfnunarsíðunni Karolina Fund. Einnig mun hljómsveitin flytja plötuna einu sinni með upprunalegum meðlimum á tónleikum 25. nóvember!


Hvernig er stemningin í bandinu 25 árum seinna og bjuggust þið við að vera enn að grúska í Kolrössu þetta mörgum árum seinna?

Það er bara þrusu góð stemming í dag, við erum löngu búnar með allt drama, nú er hljómsveitin orðin einskonar rokk saumklúbbur góð afsökun til að hittast og sprella svolítið! Ég held að við hefðum aldrei dottið í hug að við upprunalega hljómsveitin myndum koma aftur saman eftir 25 ár, vá maður hugsaði varla einn mánuð fram í tímann hér í den. Við vorum svo ungar þegar Drápa kom út og þá var bara lifað í núinu. Þær stelpur myndu eflaust hlæja af okkur gömlu konunum í dag!

Hvernig er að horfa yfir farinn veg og hvað stóð upp úr á ferli sveitarinnar?

Það er bara gaman að horfa til baka og hugsa um allt það skemmtilega sem við brölluðum saman. Ég er stolt af Kolrössu og öllu sem við gerðum, að fara frá bílskúr í Keflavík í að spila fyrir þúsundir manna um allan heim er bara nokkuð töff! Það er margt sem stendur upp úr, við hittum mikið af skemmtilegu fólki og spiluðum um allan heim, kannski stendur upp úr að hafa verið eitt aðal númerið á Carling sviðinu á Reading og Leeds Festival í Bretlandi það var svolið gaman!

Hvað kom til að þið ákváðuð að koma saman aftur, gefa út vínyl og herja á tónleikahald?

Okkur langaði bara að halda upp á afmælið okkar og þar sem Drápa hefur verið ófáanleg í áratugi fannst okkur þetta tilvalið tækifæri til að endurútgefa hana og halda eina allsherjar útgáfuafmælisstuðtónleika með upprunalegu meðlimum Kolrössu sem gerist ekki oft!

Við hverju má fólk búast á tónleikunum og er von á nýju efni frá sveitinni?

Þetta verður mega gaman, við ætlum að flytja plötuna í heild sinni og henda inn nokkrum vel völdum lögum sem við fluttum á þessu tímabili, smá shoegaze svo verða geggjaðir 90´s leynigestir og almenn gleði við völd! Við erum ekki að stefna á neitt nýtt efni eins og er en hver veit hvort andinn komi yfir okkur þegar við förum að æfa á fullu!

Hvað er framundan hjá þér og ykkur og eitthvað að lokum?

Ég er að semja nýja plötu eins og er en er aðallega að einbeita mér að Kolrössu um þessar mundir. Tónleikar á Húrra 25. nóvember er það sem við stefnum að, en eftir það hver veit!?

Skrifaðu ummæli