„Er til í að svara öllum spurningum og deila því sem ég get deilt”

0

Lay Low eða Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir er ein ástsælasta tónlistarkona landsins en hún er heldur betur á blússandi siglingu þessa dagana. Á dögunum fagnaði hún vínyl útgáfu meistaraverksins Brostinn Strengur sem kom upphaflega út árið 2011 og vakti mikla lukku meðal hlustenda en einnig var hún að taka við gullplötu fyrir áður nefnda plötu. Á fimmtudaginn 6. Desember kemur Lay Low fram í Horni Hljóðfærahússins en það er sería á vegum Albumm.is og Hljóðfærahússins.

Albumm.is náði tali af Lay Low og svaraði hún nokkrum skemmtilegum spurningum um tónlistina, framtíðina og tónleikana í Hljóðfærahúsinu á fimmtudaginn.


Hvar ert þú stödd akkúrat núna og hvað ertu að bralla?

Ég er heima í sveitinni sem er í Ölfusinu. Ég er að hugsa um að klifra upp á þak og hengja upp jólaseríu á húsið. En um helgina var ég með tónleika í Bæjarbíó og er að lenda eftir það heljarinnar fjör. Gekk ótrúlega vel og rosalega gaman að spila á þessum frábæra stað með hljómsveitinni.

Hvenær byrjaðir þú að grúska í tónlist og hvernig kom það til?

Ég byrjaði fyrst að læra á píanó sem barn og hafði gaman af. En um unglingsárin byrjaði ég í kirkjustarfi þar sem var mikið um tónlist. Þar var mér boðin staða sem bassaleikari, þó svo að ég hafði ekki spilað á hann áður. Byrjaði þá á fullu að æfa mig á bassann og varð fljótt spilafær. Það var þarna sem grúskið byrjaði fyrir alvöru. Framhald af því var svo Benny Crespo’s Gang og svo síðar Lay Low.

Hljómplatan Brostinn Strengur var að komast í gull og hún var að koma út á vínyl. Hvernig tilfinning er að fá gullplötu og ertu mikil vínyl manneskja?

Ótrúlega gaman og hvetjandi. Ég er mikil vínyl manneskja og því ekki seinna vænna en að fá sína eigin tónlist á vínyl. Það er eitthvað svo rosalega gaman að fá eintak í hendurnar af eigin efni. Mig langar jafnvel til þess að setja líka hinar plöturnar á vínyl, þá aðallega bara fyrir sjálfan mig 🙂

Fyrsta platan þín sem Lay Low, Please Don’t Hate Me kom út árið 2006 og fékk vægast sagt glimrandi viðtökur. Bjóstu við svona góðum viðtökum?

Nei, þetta koma mér heldur betur á óvart. Þegar ég var að vinna þessa plötu þá var ég alveg á því að þetta væri lítil jaðarplata sem myndi vonandi ganga vel innan viss markhóps. En þegar hún datt inn á lista og skreið uppá topp það árið var það alveg ótrúlegt. Hún lenti í mörgum jólapökkum það árið og byrjaði ferilinn minn með látum.

Þú kemur fram í Horni Hljóðfæraússins næstkomandi fimmtudag. Hvað ertu að fara að gera þar og við hverju má fólk búast?

Ég ætla bara að mæta með kassagítarinn. Skoðum kannski upphafið hjá mér og getum farið lauslega í gegnum þessar plötur og skoðað pælingar og stíla sem ég hef verið að vinna með í gegnum árin. Ég er til í að svara öllum spurningum og deila því sem ég get deilt.

Hvað er framundan hjá þér og eitthvað að lokum?

Nú er ég að vinna í nýjum lögum og stefnan er tekin á að koma með eitthvað nýtt eftir áramót. Einnig erum við í Benny Crespo’s Gang að fara að skipuleggja útgáfutónleika á nýju ári og halda áfram að kynna nýju plötuna okkar Minor Mistakes. Fram að því þá ætla ég nú bara að hafa það huggulegt í aðventunni og njóta.

Hljodfaerahusid.is

Hljóðfærahúsið á Instagram

Heimsókn í horn hljóðfærahússins má sjá hér

Lay Low á Instagram Laylow.is

Instagram

Skrifaðu ummæli