„ER LOKSINS AÐ SENDA FRÁ MÉR EFNI UNDIR EIGIN NAFNI“

0

Tónlistarmaðurinn Sigurður Ingi hefur komið víða við á þeim tíu árum sem hann hefur spilað tónlist en hann sendi fyrir skömmu frá sér tvö ný lög. Kappinn hefur spilað með fjölmörgum sveitum í Reykjavík og má þar helst nefna Retrön, Blinking Numbers og Brött Brekka, en eins og hann orðar það sjálfur er hann loksins að senda frá sér efni undir sínu eigin nafni.

Sigurður Ingi er útskrifaður sem slagverksleikari úr FíH en spilar á gítar og píanó auk þess sem hann syngur lögin sín sjálfur.

„Ég hlusta á alla flóruna af músík og er hægt að heyra ýmis áhrif í tónlistinni minni ef vel er gáð. Pabbi segist heyra áhrif af öllu sem ég hef hlustað á síðustu 15 ár í tónlistinni minni.“

Sigurður Ingi heillaðist á yngri árum (eins og svo margir) af progg rokkinu en síðar af þýska krautrokkinu og svo klassískri tónlist en þegar hann kynntist Elliot Smith var ekki aftur snúið. Elliot heitinn Smith ýtti Sigurði út í það að gefa út sitt eigið efni! Textana semur hann sjálfur en að hans sögn enda þeir yfirleitt á heimspekilegum nótum.

„Þar sem ég er mikið bókanörd fannst mér ég verða að semja textana mína sjálfur, en mér finnst það hundrað sinnum erfiðara en að semja lög. Þeir koma samt alltaf á endanum og verða alltaf óvart mjög heimspekilegir.“

Fyrra lagið ber heitið „Repetition” og var tekið upp í desember 2016 og er fyrsta lagið sem Sigurður gefur út undir eigin nafni. Lagið er samið í samvinnu við Yngva Rafn Garðarsson Holm, gítarleikara sveitarinnar VIO. Textinn fjallar um hvað allt í heiminum endurtekur sig og mannfólkið þrífst á endurtekningum og þær gefa einhversskonar staðfestu og öryggi, en um leið eru þær óhugnanlegar og þess vegna reynir fólk að forðast þær.

Seinna lagið var tekið upp í maí 2017 og ber heitið „Overview effect.” en að hanns sögn er það unnið undir sömu formúlu og það fyrra. Nafnið vísar til þeirrar tilfinningar sem einungis geimfarar upplifa þegar þeir sjá jörðina utan úr geimnum, sem er víst alveg fáránleg upplifun og viðkomandi fattar að ekkert skiptir máli fyrir utan að elska náungann. Sigurður segir að þetta lag sé mun hressara og hefðbundnara en eitthvað smá off um leið.

Sigurður Ingi liggur á fjölmörgum lögum sem hann hyggst á að klára sem fyrst og er svo stefnan sett á tilheyrandi tónleikahald. Fylgist vel með!

Hér fyrir neðan má hlíða á lögin tvö.

Skrifaðu ummæli