ENSÍMI OG 200.000 NAGLBÍTAR VEKJA UPP X KYNSLÓÐINA

0

ensími og 200.000 naglnítar

Ensími og 200.000 Naglbítar ætla að sameina krafta sína og halda tónleika í Reykjavík og á Akureyri um miðjan apríl næstkomandi. Það þarf varla að kynna þessar sveitir enda landskunnar fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar. Þessir boðberar x-kynslóðarinnar ætla að leika sín fínustu lög í frábæru formi sem mun gleðja viðstadda óhemju mikið.

Franz Gunnarsson gítarleikari Ensími svaraði nokkrum spurningum!

Hvernig kom það til að Ensími og 200.000 naglbítar ákváðu að leiða saman hesta sína og halda nokkra tónleika saman?

Við vorum búnir að vera ræða þetta lengi vel að halda tónleika saman en með svona upptekinn mannskap var erfitt að finna tímann. Loksins kom þó að því að glufa myndaðist í dagskránni hjá öllum þannig að við kýldum á þessa tvenna tónleika með það fyrir augum að bæta við tónleikum á landsbyggðinni síðar.

Hvernig er tónleikadagskránni háttað og munu sveitirnar spila eitthvað af eldra efni?

Það gæti farið svo að 200.000 Naglbítar frumflytji eitthvað nýtt á tónleikunum í bland við eldri slagara en við í Ensími munum líklegast leika lög af öllum fimm plötum sveitarinnar með áherslu á nýjustu afurðina, Herðubreið sem kom út í fyrra.

200.000 naglbítar

200.000 Naglbítar

Hvar fara tónleikarnir fram og við hverju má fólk búast?

Tónleikarnir fara fram á Gauknum á fimmtudegi og Græna hattinum á föstudegi 14 og 15 Apríl og munu þeir báðir hefjast kl 22:00 til að gefa fólki tækifæri á að upplifa viðburðinn án þess að þurfa hanga lengi frameftir. Partíboltarnir geta svo alltaf dansað inn í nóttina. Fólk má búast við algjörlega frábærum tónleikum enda sjaldgæft að þessi bönd komi fram saman.

ensími 3

Ensími

sveitirnar hafa spilað talsvert saman áður áttu ekki einhverja góða rokk sögu handa okkur?

Haha já það var svo mikið rokk í gangi þegar hljómsveitirnar spiluðu saman síðast nítjánhundruð níutíu og eitthvað að minnið mitt er hálf gloppótt. Ég man þó að í eitt skiptið fórum við saman út á land að spila fyrir einhvern framhaldskóla og sú ferð er í minningunni eitt stórt hláturskast enda gríðarlega skemmtilegir menn innan þessara sveita. Mig minnir að farið var í drykkjuleik á leiðinni til að drepa tímann (sem útskýrir gloppótt minnið) og þar sem við erum allir miklir keppnismenn mættum við gríðarlega hressir á tónleikastaðinn. Staðarhaldarar hafa eflaust ekki litist á blikuna þegar við mættum en tónleikarnir gerðu stormandi lukku enda allir í miklu stuði. Heimferðin var mun erfiðari fyrir vikið.

Tónleikarnir fara fram þann 14. apríl á Gauknum í Reykjavík og þann 15. apríl á Græna hattinum á Akureyri. Forsala er hafin á tix.is og midi.is.

Comments are closed.