Endurgerir Cat Stevens smellinn Wild World – „Mér þykir mjög vænt um þetta lag”

0

Tónlistarmaðurinn Ivan Mendez , forsprakki hljómsveitarinnar Gringlo sendi nýverið frá sér nýtt lag sem er  ábreiða af frægri klassík! Lagið ber heitið Wild World eftir tónlistarmanninn Cat Stevens.

„Mér þykir mjög vænt um þetta lag. Ég man alltaf eftir því þegar ég heyrði það í fyrsta skipti á grunnskólaárunum, það snerti mig strax hvað röddin var mjúk og einlæg. Þá var lagið auðvitað löngu orðin gömul klassík. Síðan þá hefur þetta verið eitt af þessum lögum sem ég syng nánast ómeðvitað í gegnum daginn. Ég er mikill retro maður og hlusta á mikið af gamalli tónlist, sérstaklega 70‘s og 80‘s.” – Ivan Mendez

Ivan Mendez segir að hugmyndin að laginu hafi komið til sín einhverntímann þegar hann var úti að labba í uppáhaldsgötunni sinni, raulandi og trommandi  á bringuna á sér  eins og hann geri ansi oft.

Kappinn hefur verið að vinna í sóló efni í laumi. Eitthvað sem hann sá fyrir sér að gefa út seinna á þessu ári. Ivan segir að þetta lag sé svona smá forsmekkurinn af því sem koma skal, eitthvað pínu retró með nútíma tvisti.

„Fókusinn er auðvitað mestmegnis á stúdíóvinnu með Gringlo þessa dagana en það er alltaf gott að hafa eitthvað annað með, til að leyfa sköpunarkraftinum að flæða frjálsum.” – Ivan Mendes.

Lagið er tekið upp í N19 studios, hljóðblandað af Ivani sjálfum en masterað af Hauki Pálmasyni.

Hér fyrir neðan má hlýða á lagið með Cat Stevens.

Einnig má finna lagið á Spotify.

Skrifaðu ummæli