ENDURGERA 30 ÁRA SMELL MEÐ MICHAEL JACKSON

0

Hljómsveitin MíóTríó úr Hveragerði var nú í febrúar að gefa út nýtt lag, en sveitin valdi að gefa út lag sem er 30 ára um þessar mundir, Michael Jackson-smellinn „Man In The Mirror“ sem fyrst kom út í ársbyrjun 1988. MíóTríó skipa þrjár stelpur á aldrinum 13-15 ára sem hafa lært lengi á ýmis hljóðfæri og spilað saman í nokkur ár. Í fyrra gáfu þær út sitt fyrsta lag en það var sumarsmellurinn „Förum í sumarfrí“ sem þær tóku upp á köldum vordegi í Hveragerði í hlýju gróðurhúsunum sem þar eru, til að fá smá sumarfíling í myndbandið sem gefið var út síðasta vor. Það muna margir eftir lokaatriði myndbandsins, þegar stelpurnar í MíóTríó stökkva allar í himinháan Reykjafoss en þetta ku vera alsiður í Hveragerði, eins konar manndómsraun fyrir unglinga að ná að stökkva í bæjarfossinn.

Stelpurnar í MíóTríó eru Gígja Marín Þorsteinsdóttir sem syngur söngur, Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir sem syngur og spilar á hljómborð/píanó og svo sú yngsta, hún Hrafnhildur Birna Hallgrímsdóttir sem syngur einnig en spilar líka á gítar og bassa.

Þær völdu að gefa út „Man In The Mirror“ m.a. vegna þess að þær hafi allar þegar þær voru yngri hlustað mikið á Michael Jackson og haft þetta lag í sérstöku uppáhaldi. Boðskapur þess sé mikilvægur og af því að þetta flotta lag á 30 ára afmæli nú um mundir þá vildu þær heiðra minningu Michael Jackson og vekja aftur athygli á góðum boðskap lagsins.

Það er líka skemmtilegt við stelpurnar þrjár í MíóTríó að tvær þeirra eru systur, þær Gunnhildur og Hrafnhildur og sú þriðja er nágranni. Allar hafa þær líka æft körfubolta saman samhliða því að spila saman í hljómsveitinni.

Eitt af því sem þeim finnst skemmtilegast er að spila fyrir allan aldur. MíóTríó hafa bæði verið vinsælar hjá krökkum og allt upp í eldra fólk. Það er m.a. vegna þess að þær eru með breiða efnisskrá, geta tekið nýjustu lögin með Ed Sheran og svo líka gömlu lögin eins og Við gengum tvö og allt þar á milli.

Þær stelpur í MíóTríó ætla að halda ótrauðar áfram og gefa út að öllum líkindum nýtt frumsamið lag á næstunni. Svo er framundan mikið spilerí, að semja fleiri lög og líka að halda áfram að æfa körfubolta. Svo ætla þær líka að taka þátt í úrslitakeppni Samfés sem verður haldin í Laugardagshöll 3. mars og flytja þar lagið „Man In The Mirror“.

MíóTríó gerðu myndband við lagið og tóku það upp í nýlegum veitingastað í Hveragerði, Skyrgerðinni sem margir þekkja.

 

Skrifaðu ummæli