ENDURFÆÐING INNAN TÓNLISTARINNAR Í FORMI DREYMANDI KAMMERPOPPTÓNA

0

Sunna Friðjónsdóttir gefur út sína fyrstu sólóplötu, Enclose, þann 20. janúar næstkomandi sem samanstendur af blöndu dreymandi popplaga og umlykjandi kammerstykkja. Elsta stykki plötunnar, lagið „Bergmál” sem er nýkomið út á Bandcamp, Youtube og Facebook, gefur okkur innsýn í hljóðheim Enclose. 

Eftir klassískt tónlistaruppeldi og nám í þverflautuleik beindi Sunna fókusnum nýlega að lagasmíðum og flutningi á eigin efni, undir leiðsögn Sóleyjar, Péturs Bens og einnig Complete Vocal Technique þjálfarans Bjarkar Jónsdóttur. Rómantík, mystík, dimma og sakleysi blandast saman í dreymandi kammerpopptónum Sunnu þar sem djarfar píanóútsetningar og hrár en kraftmikill söngur eru í forgrunni. 

Platan Enclose er fyrir raddir, píanó, klarinett, fiðlu, lágfiðlu og kontrabassa og samanstendur af akústískum og forvitnilegum hljóðfæraútsetningum þar sem imprintuð flautusíðrómantík og sterkt aðdráttarafl til dreymandi indie folk-popps hittast, og viðurkenndar, en stöðugar sveiflur frá berskjölduðu sakleysi yfir í myrkari hliðar undirmeðvitundarinnar þrífast.

Píanóið er uppistaða og byrjunarpunktur plötunnar og uppspretta þessa mikla vægis sem yfirtónar fá á plötunni. Falinn, áferðakenndur yfirtónahljóðheimur píanósins fær meira vægi, m.a. með því að breikka þann hljóm út fyrir píanóið og yfir á hin hljóðfærin. Yfirtónadrónar og skuggalegt tónmengi Enclose hljóðheimsins leiða okkur í gegnum fjögur lög plötunnar hvert á fætur öðru. 

Hægt er að forpanta niðurhal af plötunni á bandcamp-síðu Sunnu og nálgast frítt niðurhal af laginu Bergmál.

Skrifaðu ummæli