EMMSJÉ GAUTI

0
DSC_6133

Ljósmyndari: The Show Shutter

Emmsjé Gauti er tónlistarmaður sem allir þekkja og er búinn að vera lengi að en hann byrjaði ferilinn um tólf ára aldur. Hann hefur gefið út tvær breiðskífur og er sú þriðja á leiðinni. Emmsjé Gauti hitti Albumm og sagði okkur frá ferlinum, hvernig hann komst á toppinn og frá nýju plötunni.


Hvenær byrjaðir þú að hafa áhuga á tónlist?

Ég gæti sagt einhverja lygasögu og sagt að ég hafi byrjað að spila á mackintosh dollur þegar ég var fjögurra ára en það var ekki alveg þannig. Ég fann það fyrst hjá mér að ég vildi verða tónlistarmaður þegar ég var svona ellefu eða tólf ára. Ég gerði fyrsta rapptextann minn þegar ég var ellefu ára en Það var þegar Faculty hópurinn var að taka upp í stúdíóinu hjá pabba, hann átti hlut í stúdíói sem hét Gnýr. Addi Inro og Magse voru að taka upp í Gný en ég vissi ekki endilega að mig langaði að gera rapp tónlist en þessi tónlistarstefna heillaði mig. Pabbi gaf mér Jurrassic 5 og Eminem disk í afmælisgjöf og svona fljótlega eftir það byrjaði ég að spá mjög mikið í rappi, þarna kviknaði alvöru áhugi á að gera eitthvað.

DSC_6147

Ljósmyndari: The Show Shutter

 

Er það þarna sem þú ferð á fullt í rappið?

Já algjörlega, það var eitthvað við þetta form sem heillaði mig! Ég horfði á Magga (magse) og Adda Intro í stúdíóinu þegar ég var gutti og mér fannst þeir geðveikt cool, og byrjaði að líta mjög mikið upp til þeirra. Fyrst byrjaði ég að gera texta á ensku og ég man að það stóð bitch mjög oft, það er mjög hræðilegt þegar ellefu ára gutti skrifar bitch fimmtíu sinnum á blað (hlátur). Stuttu seinna kom ég fyrst fram á Rímnaflæði það var árið 2002 en þá var ég tólf ára gamall.

DSC_6143

Ljósmyndari: The Show Shutter

 

Varstu stressaður að koma fram?

Já ég var drullu stressaður, ég var að gera þessa texta en á þessum aldri veit maður voðalega lítið um lífið. Ég sagði hóp af fólki að ég væri rappari en inni í þessum hóp var beatboxari sem heitir Siggi Bahama, hann sagði: „freestælaðu yfir taktinn“ og ég gerði það, átti náttúrulega enga takta sjálfur til að rappa yfir. Siggi Bahama kom með þá hugmynd að fara til stráks sem heitir Einar og þar fékk ég fyrsta taktinn minn. Það lag fékk nafnið Reykjavík en það heitir á netinu Reykjavík og ljóti drjólinn af einhverjum ástæðum. Eftir þetta fer ég að leita mér að fleiri töktum en þá kynnist ég Stebba Mezzías eða Steve Sampling eins og hann kallar sig í dag og það var hann og Magse sem gáfu mér séns og er ég þeim endalaust þakklátur fyrir það. Mér fannst mjög merkilegt að fá að vinna með þeim því ég leit mjög mikið upp til þeirra beggja, Magse náttúrulega legend úr Subterranean og Stebbi var mjög heitur á þessum tíma.

það má segja að þú hafir farið strax út í djúpu laugina?

Já ég fór strax í djúpu laugina! En var ekkert að gera mikið af lögum á þessum tíma. var að gera einn og einn texta og var farinn að koma fram á skólaböllum og samfés og svona. Ég nýtti hvert einasta tækifæri til að koma fram. Ég man þegar ég kom fyrst fram á Rímnaflæði. Ég stóð á sviðinu og fólkið í salnum var að hrópa nafnið mitt þá fattaði ég að þetta er það sem ég vildi gera. Ekkert endilega að rappa heldur bara fá fólk til að öskra nafnið mitt (hlátur). Þarna var ég bara ungur og að fikra mig áfram. Ég var búinn að vera í nokkrum hljómsveitum en rak alltaf hina meðlimina, ég er ógeðslega mikil frekja (hlátur).

DSC_6125

Ljósmyndari: The Show Shutter

 

Árið 2005 fer ég og strákur sem heitir Jói Dagur að gera takta saman og þarna kynnist ég í fyrsta skipti nánu samstarfi við producer. Við förum að vinna lög saman og erum komnir með fimm eða sex lög þá förum við að spá í því hvort við séum ekki bara hljómsveit og við ákváðum að skella í plötu. Fyrsta efnið sem ég gef frá mér er semsagt með hljómsveit sem heitir Skábræður. Við fórum fljótlega að spila í félagsmiðstöðvum og svona og það var ákveðinn hópur sem var farinn að fylgja okkur en við vorum kannski ekki á toppnum en við vorum á toppnum í okkar eigin heimi. Eftir Skábræður fer ég sóló eins og það er kallað, fer að leita að fólki til að vinna með og finn þá strákana í Red Lights. Ég fer að vinna meira með soundið og hlusta meira á nýrra rapp, áður var ég búinn að hlusta mjög mikið á svona story telling rapp. Ég var fastur inní svona hip hop kassa og hlustaði bara á hip hop en í dag skil ég ekki þá hugsun, að vera svona “real hip hop“ eitthvað. Jói og Ingi í Red Lights kenndu mér að hlusta á tónlist sem mér þótti kannski asnalegt að hlusta á af því að hún var vinsæl. Þeir fóru að segja við mig „af hverju pælirðu ekki í, af hverju þessi tónlist er vinsæl

Það mætti segja að þetta hafi opnaði augun á þér fyrir allskonar tónlist?

Já og í að sína öðrum tónlistarstefnum meiri virðingu. Í gegnum allan þann tíma sem ég er að gera hip hop var ég líka að hlusta á aðra tónlist og meira að segja stuff sem maður var að laumast til að hlusta á. Eins og Jamiroquai og svona, skil ekki af hverju ég var að laumast með það, þetta er alveg illuð tónlist! Þarna fer ég og Dabbi T að gera tónlist saman og við stofnum hljómsveitina 32C. Við fórum í stúdíó til Gnúsa (Magse). það gekk alveg þrusu vel, Gnúsi gekk fljótlega í bandið og við gerðum fimm lög en hættum svo. Eftir þetta ævintýri fer ég að vinna meira að mínu sóló efni og fer þá að vinna aftur með Red Lights og út úr því kemur fyrsta sóló platan mín sem heitr Bara Ég og kemur út árið 2010. Ég var alveg gjörsamlega kominn út úr kassanum á þeirri plötu. Ég fékk Rósu úr Sometime og Berndsen  með mér á plötuna og gerði lag með Smára Tarfi, Addi Intro og Gnúsi voru með beat og það var meira að segja Trap á plötunni. Ég leyfði mér að fara í allar áttir á þessari plötu!

Þessari plötu var gríðarlega vel tekið og kom þér svolítið á kortið, ekki satt?

Jú, henni var gríðarlega vel tekið en þarna var ég búinn að vera mjög lengi að og minn ferill löngu byrjaður en hann springur ekki út fyrr en ég geri lag með Erpi. Erpur hringir í mig og við ákváðum að gera lag saman. Við sitjum saman á einhverjum skemmtistað og erum að fara yfir hvað við ættum að skíra lagið og lendingin var Við Elskum Þessar Mellur. Við töluðum um að ef við mundum skýra lagið þetta þá yrði allt brjálað og það varð allt brjálað! Ef ég mundi gefa þetta lag út í dag er margt við textann sem ég mundi endurskoða. Margt sem bendir til ofbeldis sem ég er alls ekki hlynntur. Í gegnum ferlið á þessu lagi kynntist ég feminisma  þannig það kom eitthvað jákvætt út úr þessu lagi. Eftir Bara Ég plötuna gaf ég út mixtape sem var samansafn af demóum eða svona leftovers eins og maður segir, sá diskur heitir Í Freyðibaði Með Emmsjé Gauta. Eftir þetta fer ég aðeins að endurskoða sjálfan mig mér fannst ég vera búinn að skapa mér einhvern karakter en ég held að það sé samt ekkert neikvætt. Á síðustu plötu sem heitir Þeyr ákvað ég að fella niður allar grímur og ákvað að vera aðeins meira einlægur. Platan er aðeins þyngri heldur en fyrri verk og maður heyrir alveg þroskamun á milli platna. Í dag meika ég varla að hlusta á Bara Ég (hlátur) en mér þykir alveg gríðarlega vænt um þá plötu. Sumarið 2014 skrifaði ég mikið af textum og gerði slatta af lögum og afraksturinn er Vagg Og Velta sem kemur út á næstunni. Á þessari plötu er miklu meira partý en er í leiðinni miklu heiðarlegri. Áramótaheitið mitt var ekki að hætta að reykja eða drekka heldur að vera alltaf hundrað prósent heiðarlegur, segja bara það sem ég er að hugsa og ekkert endilega nota strokleður! Þessi plata kemur út einhvertímann í sumar. Ég er með hugmynd en sú hugmynd er ekki alveg fullmótuð en platan mun verða aðgengileg frítt á netinu, eins og öll mín fyrri verk.

Þú sagðir einu sinni við mig fyrir langa löngu „ég þoli ekki hvað rapparar nenna ekki að leggja neitt á sig og þess vegna ná þeir ekki neitt“ Bættir svo við „Ég ætla að leggja milljón prósent á mig og ég ætla á toppinn!“

Það er magnað (hlátur) Maður verður alltaf að leggja á sig hellings af vinnu og það mun skila sér hundrað prósent til baka. Fyrstu árin var ég bara að strita við það að koma nafninu út en eiginlega ómeðvitað, ég hafði bara svo bilaðan áhuga á þessu. Ef þú ert að gera þetta af einhverri annarri ástæðu en af áhuga t.d. út af frægð eða peningum slepptu því þá en ef þú hefur áhuga á þessu gerðu þetta þá og gerðu þetta eftir þínu eigin höfði. Ekki elta einhvern annan og það sem hann er að gera, alltaf að fara sínar eigin leiðir, gefa út vídeó, halda tónleika og virkja alla þessa samskiptamiðla sem eru í gangi í dag. Hættið að tala skít á einhverjum spjallborðum og farið og gerið eitthvað sem skiptir máli! Málið er ekki hvað maður getur heldur hvað maður gerir! Þetta er illaðasta kvót Íslandssögunnar og kemur frá Purrki Pillnikk. Mig langar að beina einu að tónlistarfólki og þá aðallega popp og rapp geirans. Mér finnst ekki nógu mikið lagt í live tónleika, sviðsframkoma skiptir alveg gríðarlega miklu máli. Það er alveg hægt að mæta með i-podinn sinn og fá fólk til að syngja með en ekki vera svona dónalegur, sýndu aðdáendum þínum meiri virðingu en þetta. hættið að spara hverja einustu krónu og eyðið smá pening í tónleika! Ég er ekki að segja að það þurfa allir að hafa Agent Fresco með sér eins og ég (hlátur). Að vera með Agent Fresco er geggjað og gefur mér rosalega mikið. Ég var farinn að finna fyrir smá tómleika á sviði. Keli trommari var bara einn með mér fyrst og við náðum alveg rosalega vel saman en nú er allt bandið með mér og ég get ekki líst muninum á því og að vera einn.

DSC_6203

Ljósmyndari: The Show Shutter

 

Eitthvað að lokum?

Fylgist með mér á öllum samskiptamiðlum! þar koma allar nýjustu tilkynningarnar. Fyrsti singullinn verður með Friðriki Dór, það lag heitir Í Kvöld og er væntanlegt á næstunni ásamt vídeói!

Comments are closed.