EMMSJÉ GAUTI VERÐLAUNAHAFI KVÖLDSINS Á ÍSLENSKU TÓNLISTARVERÐLAUNUNUM

0

Emmsjé Gauti var sigurvegari kvöldsins.

Emmsjé Gauti var maður kvöldsins á Íslensku tónlistarverðlaununum sem veitt voru við hátíðlega athöfn í Silfurbergi Hörpu fyrr í gærkvöldi en sýnt var beint frá athöfninni á Rúv.

Emmsjé Gauti hlaut alls fimm verðlaun en rapparinn hafði verið til­nefndur til níu verðlauna. Það má segja að árið 2016 hafi verið árið hans Emmsjé Gauta sem gaf ekki út eina, heldur tvær breiðskífur í fyrra. Fjöldi vinsælla laga og mörg samvinnuverkefni undirstrika sterka stöðu Gauta í íslensku tónlistarlífi en hann hlaut verðlaun sem tónlistarflytjandi ársins, lagahöfundur ársins, textahöfundur ársins, lagið Silfurskotta sem hann flytur með Aron Can var valið rapplag ársins og að lokum var breiðskífan Vagg & velta valin plata ársins í rappi og hip hop en þetta er í fyrsta sinn sem plata er verðlaunuð í þessum flokki.

Hljómsveitin Kaleo hlaut tvenn verðlaun.

Kaleo hlaut tvenn verðlaun á hátíðinni en platan þeirra A/B var valin rokkplata ársins og Jökull Júlíusson fékk verðlaun sem söngvari ársins í flokki popp og rokktónlistar. Samaris hlaut einnig tvenn verðlaun en plata sveitarinnar Black Lights var valin raftónlistarplata ársins og Jófríður Ákadóttir söngkona sveitarinnar var valin söngkona ársins. Poppplötu ársins átti Júníus Meyvant en plata hans Floating Harmonies einkennist af sterkum lagasmíðum og ferskleika að mati dómnefndar.

I’ll Walk With Youvar valið popplag ársins.

Lög ársins í flokki popp og rokktónlistar voru annars vegar smellur Hildar I’ll Walk With You sem var valið popplag ársins og hins vegar hin sterka ádeila Valdimars, Slétt og fellt, sem var valið rokklag ársins. Tónlistarviðburður ársins voru jólatónleikar Baggalúts sem eru orðnir fastur liður í jólahaldi hjá þorra landsmanna en Baggalútur hélt heila 17 tónleika í desember fyrir stappfullu húsi í Háskólabíói og var öllu tjaldað til.

Jóhann Jóhannsson bar sigur úr býtum fyrir stórbrotinn tónheim sinn við kvikmyndina Arrival.

Í hinum nýja leikhús- og kvikmyndatónlistarflokki bar Jóhann Jóhannsson sigur úr býtum fyrir stórbrotinn tónheim sinn við kvikmyndina Arrival en í opnum flokki var Epicycle, hin kyngimagnaða og persónulega reisa Gyðu Valtýsdóttur um akra tónlistarsögunnar, kosin plata ársins. Epicycle hlaut einnig verðlaun fyrir plötuumslag en það var unnið af Gyðu og Goddi.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra tilkynnti sigurvegarann í flokknum tónlistarhátíð ársins og var það þungarokkshátíðin Eistnaflug sem vann í ár fyrir góðan anda og frábæran viðburð en aðstandendur Eistnaflugs hafa byggt upp alþjóðlega þungarokkshátíð austur á fjörðum af miklum myndarbrag.

Eistnaflug var valin tónlistarhátíð ársins.

Tónlistarmyndband ársins var valið í netkosningu á vefsíðunni Albumm.is og var það myndbandið Mars með One Week Wonder í leikstjórn Baldvins Albertssonar sem þótti skara framúr að mati dómnefndar og lesenda síðunnar.

Évgení Onegin eftir Tchaikovsky í uppfærslu Íslensku Óperunnar var sigursæl í ár enda hlaut hún verðlaun fyrir Tónlistarviðburð ársins í sígildri og samtímatónlist, og Þóra Einarsdóttir var valin söngkona ársins og Elmar Gilbertsson söngvari ársins fyrir hlutverk sín í Évgení Onegin. Hugi Guðmundsson hreppti verðlaun fyrir tónverk ársins fyrir óperu sína Hamlet in Absentia en það er ekki í hverjum degi sem íslenskar óperur líta dagsins ljós þó svo að rofað hafi til í þeim efnum að undanförnu. In Paradisum, fyrsta sólóplata semballeikarans Guðrúnar Óskarsdóttur, var valin plata ársins í sígildri og samtímatónlist, og Schola Cantorum vann í flokknum flytjandi ársins fyrir öflugt tuttugasta starfsár sitt.

Évgení Onegin eftir Tchaikovsky í uppfærslu Íslensku Óperunnar hlaut hún verðlaun fyrir Tónlistarviðburð ársins í sígildri og samtímatónlist.

Þorgrímur Jónsson Quintet hlaut verðlaun fyrir plötu ársins í flokki djass og blústónlistar fyrir plötuna Constant Movement. Þorgrímur Jónsson var að auki valinn lagahöfundur ársins fyrir heillandi lagasmíðar sem leiða hugann að gullöld Blue Note útgáfunnar. Tónverk ársins var Magnús Trygvason Eliassen með hljómsveitinni ADHD af plötunni ADHD 6. Stórsveit Reykjavíkur hlaut að lokum verðlaun sem tónlistarflytjandi ársins fyrir metnaðarfull og fjölbreytt verkefni á árinu en stórsveitin hefur verið öflug að fá til liðs við sig innlend sem erlend tónskáld og heldur uppi reglulegu og öflugu tónleikastarfi.

Þorgrímur Jónsson Quintet hlaut verðlaun fyrir plötu ársins í flokki djass og blústónlistar fyrir plötuna Constant Movement.

Björtustu vonirnar

Bjartasta vonin í poppi, rokki, rappi og raf var tilnefnd af starfsfólki Rásar 2 og fór vefkosning fram til að velja verðlaunahafann. Það var Auður, Auðunn Lúthersson, sem hlaut heiðurinn í ár en hann hefur vakið athygli fyrir silkimjúka R&B tónlist og nýstárlegar leiðir í útgáfu á tónlist sinni.

Söngkonan Sara Blandon var útnefnd bjartasta vonin í flokki djass og blús en hún hefur vakið eftirtekt fyrir magnaða sviðsframkomu og raddstyrk.

Bjartasta vonin í sígildri og samtímatónlist var valin Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Ungsveitina skipa fremstu hljóðfæranemar landsins og er þeim í aðdraganda tónleika gert kleift að vinna undir leiðsögn frábærra listamanna og kynnast vinnubrögðum eins og þau gerast hjá atvinnuhljómsveitum um allan heim.

Auður, Auðunn Lúthersson var valin bjartasta vonin í flokki poppi, rokki, rappi og raf.

Heiðursverðlaun.

Heiðursverðlaunahafi Samtóns er að þessu sinni Rut Ingólfsdóttir og var það menntamálaráðherra Kristján Þór Júlíusson sem veitti Rut verðlaunin. Rut var konsertmeistari Kammersveitar Reykjavíkur og Bachsveitarinnar í Skálholti. Hún starfaði ennfremur í Sinfóníuhljómsveit Íslands í áratugi. Hún hefur haldið fjölda einleikstónleika, gefið út sólóplötur og fjölda hljómdiska í samstarfi við aðra. Hún er einn af 12 stofnendum Kammersveitar Reykjavíkur og listrænn stjórnandi í 40 ár.

Rut Ingólfsdóttir hlaut heiðursverðlaunin í ár.

Dóri DNA var kynnir kvöldsins í ár og skemmtiatriði á Íslensku tónlistarverðlaununum voru fjölbreytt og fjölmenn. Þeir sem komu fram á hátíðinni voru: GKR, Sunna Gunnlaugs og Þorgrímur Jónsson, Hildur, Reykjavíkurdætur, leikarar og söngvarar úr Bláa hnettinum ásamt Kristjönu Stefánsdóttur, Schola cantorum, Soffía Björg ásamt hljómsveit og Júníus Meyvant.

Það er Samtónn sem stendur að baki Íslensku tónlistarverðlaununum. Tilgangur Samtóns er að vinna að sameiginlegum hagsmunum og styrkja stöðu höfunda, flytjenda, framleiðenda og annarra rétthafa að tónlist. Samtónn kemur fram sameiginlega fyrir hönd íslenskra rétthafa og tónlistarfólks.

Dóri DNA fór á kostum sem kynnir kvöldsins.

Hér fyrir neðan má sjá alla Verðlaunahafa Íslensku tónlistarverðlaunanna 2016

Popp, rokk, rapp og raf Plata ársins – Rokk Kaleo – A/B

Plata ársins – Popp Júníus Meyvant – Floating Harmonies

Plata ársins – Raftónlist Samaris – Black Lights

Plata ársins – Rapp og hip hop Emmsjé Gauti – Vagg & velta

Lag ársins – Rokk Valdimar – Slétt og fellt

Lag ársins – Popp Hildur – I’LL WALK WITH YOU

Lag ársins – Rapp og hip hop Emmsjé Gauti – Silfurskotta

Söngkona ársins Samaris – Jófríður Ákadóttir

Söngvari ársins Kaleo – Jökull Júlíusson

Textahöfundur ársins Emmsjé Gauti – Gauti Þeyr Másson

Lagahöfundur ársins Emmsjé Gauti – Gauti Þeyr Másson

Tónlistarviðburður ársins Jólatónleikar Baggalúts

Tónlistarflytjandi ársins Emmsjé Gauti

Bjartasta vonin Auður

Tónlistarmyndband ársins One Week Wonder – Mars (Leikstjórn: Baldvin Albertsson)

Opinn flokkur Plata ársins – Opinn flokkur Gyða Valtýsdóttir – Epicycle

Plata ársins – Leikhús- og kvikmyndatónlist Jóhann Jóhannson – Arrival

Tónlistarhátíð ársins Eistnaflug

Umslag ársins Gyða Valtýsdóttir – Epicycle (hönnun: Gyða Valtýsdóttir og Goddur)

Djass og blús Plata ársins Þorgrímur Jónsson Quintet – Constant Movement

Tónverk ársins ADHD – Magnús Trygvason Eliassen

Lagahöfundur ársins Þorgrímur Jónsson Quintet – Þorgrímur Jónsson

Tónlistarflytjandi ársins Stórsveit Reykjavíkur

Bjartasta vonin Sara Blandon Sígild og samtímatónlist

Plata ársins Guðrún Óskarsdóttir – In Paradisum

Tónverk ársins Hugi Guðmundsson – Hamlet in Absentia

Söngvari ársins Elmar Gilbertsson fyrir hlutverk Lensky í Évgeni Onegin eftir Tchaikovsky í uppfærslu Íslensku Óperunnar

Söngkona ársins Þóra Einarsdóttir fyrir hlutverk Tatyana í Évgeni Onegin eftir Tchaikovsky í uppfærslu Íslensku Óperunnar

Tónlistarflytjandi ársins Schola Cantorum Tónlistarviðburður ársins Évgeni Onegin ​eftir Tchaikovsky í uppfærslu Íslensku Óperunnar

Bjartasta vonin Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands Heiðursverðlaun Rut Ingólfsdótti

http://iston.is

Skrifaðu ummæli