ELÍN HELENA ER BRJÁLUÐ!

0

elín-helena-web

Elín Helena er brjáluð!

Samfélagið gliðnar sundur og hljómsveitin Elín Helena er orðin snaróð vegna þessa og hefur því hlaðið nýju lagi í haglabyssuna og blásið til tónleikahalds til að finna brjálæðinu viðeigandi vettvang. Ádeilulagið „Ljúga, ljúga, ljúga, ljúga, ljúga, ljúga, ljúga, ljúga, ljúga, ljúga…“ er splunkunýtt úr herbúðum hljómsveitarinnar og kemur út á safnplötunni Snarl 4 – Skært lúðar hljóma, sem er væntanlegt í lok vikunnar.

Um er að ræða safndisk með 25 glænýjum lögum með þeim hljómlistaratriðum sem hæst standa á Íslandi í dag, m.a. Prinspóló, Mugison, Dj. Flugvél og geimskip og Grísalappalísa & Megas. Lagið er beinskeytt og tekur á óheppilegri orðræðuhefð sem nú gengur yfir íslenskt samfélag. Um lagið hafði Skúli Arason, trommari þetta að segja: „Það er auðvitað mjög óheppilegt að fólk skuli segja ósatt, en það myndi henta okkur miklu betur ef fólk myndi frekar segja satt.“

Næstkomandi föstudag, 31. október, mun Elín Helena spila á tónleikum á Bar 11, ásamt Kælunni miklu og er því til mikils að vænta þar.
Elín Helena mun einnig koma fram á Iceland Airwaves hátíðinni í tvígang. Á dagskrá hátíðarinnar eru tónleikar á Gamla gauknum á laugardeginum klukkan átta og utandagskrár mun sveitin leika í plötubúðinni Lucky Records við Hlemm klukkan sex á fimmtudeginum. Elín Helena er svo brjáluð að hún treystir sér ekki til að halda fleiri tónleika á svo stuttum tíma, ellegar er hætt við að höfuðæðar springi – bæði áhorfenda og hljómsveitarmeðlima.

Sjáið frábært myndband um Elínu og Airwaves:

Comments are closed.