„Á EKKERT AUÐVELT MEÐ AÐ GERA UPP MÍN TILFINNINGAMÁL“

0

Tónlistarmaðurinn Biggi Hilmars hefur komið víða við á viðburðarríkum ferli en hann var að senda frá sér plötuna Dark Horse. Segja má að á þessari plötu hefur kappinn fundið hið fullkomna jafnvægi á milli klassískrar tónlistar og popp tónlist! Kappinn segir að lögin á plötunni séu alls ekki plönuð, þau bara koma án fyrirvara!

Albumm.is náði tali af Bigga og svaraði hann nokkrum skemmtilegum spurningum!


Er platan búin að vera lengi í vinnslu og hvaðan sækir þú innblástur fyrir þína tónlistarsköpun?

Já, í 5 ár með hléum. Lögin á nýju plötunni Dark Horse voru ekki plönuð, þau bara komu án fyrirvara og innblásturinn var lífið sjálft; persónuleg reynsla, sögur af fólki, áföll, missir, ást, vinátta, hatur, fyrirgefning og allt þar á milli. Ég á ekkert rosalega auðvelt með að gera upp mín tilfinningamál eins og venjulegt fólk. Og því nota ég tónlistina sem tól til að tjá mínar tilfinningar og upplifanir og gera upp erfiðleika. Dark Horse er því einskonar „hljóðrás” fyrir lífið.

Þetta er þriðja sóló platan þín, hvernig telur þú þig hafa þróast á milli platna?

Sú fyrsta, Cinematic Songs var náttúrulega án söngs og einkenndist að mestu af minimalískum píanó- og strengjaútsetningum. Sú plata var í raun samsafn af kvikmynda- og sjónvarpsverkefnum sem ég hafði gert á þriggja ára tímabili þegar ég bjó í London. Á All We Can Be hvarf ég svo aftur í hefðbundnar lagasmíðar og fór að syngja aftur og blandaði saman kvikmyndalegum útsetningum og melódísku poppi, eitthvað sem ég hafði ekki gert mikið af áður. En ég sá alltaf fyrir mér í hyllingum einhverskonar „nýtt genre,“ en ég og vinur minn í London höfðum löngum leikið okkur með orðið „Cinepop,“ sem er akkúrat þessi blanda, sem ég sá og heyrði alltaf fyrir mér og geymdi í huga mínum og reyndi að framkalla á All We Can Be, hvort sem mér hefur tekist það eða ekki. Á nýjustu breiðskífunni Dark Horse held ég svo áfram að blanda saman þessum ólíku tónlistarstefnum, í bland við ambient og elektróník. Mér finnst ég hafa kafað dýpra á þessari plötu með tilliti til útsetninga og sánds og þessi plata er á alveg nýrri tíðni sem ég get ekki útskýrt og textarnir mjög persónulegir.

Hvaða þjár plötur getur þú hlustað á án þess að fá leið á og hvað er það við plöturnar sem heillar þig?

Revolver með Bítlunum. Hún er gífurlega litrík, fjölbreytileg og skemmtileg heild og sándið er hlýtt og hárbeitt á sama tíma. Svo ekki sé minnst á lagasmíðarnar.
Blood on the tracks með Bob Dylan. Tímalaus smíð og frábær þegar maður er tildæmis að slappa af með góðum vinum. OK Computer með Radiohead. Ein af mínum uppáhalds. Ég held ég hafi hlustað á hana svona 500 sinnum á sínum tíma. Hjónaband frábærs sánds og meistaralegra  lagasmíða.

Á að fylgja plötunni eftir með tilheyrandi tónleikahaldi?

Já, við verðum með útgáfutónleika á Húrra þann 7. Desember næstkomandi. Svo er í burðarliðnum að fara á tónleikaferðalag um landið og koma við á helstu sveitum og bæjum. Það er ekkert komið á hreint með erlent tónleikahald, en við erum vissulega spennt fyrir því, þó að heimalandið sé í forgangi, allavegana um sinn.

Hvenær kemur platan út og eitthvað að lokum?

Platan leit dagsins ljós í síðustu viku, þann 1. Nóvember á Spotify og víðar á netinu, en ég er að láta prenta plötuna sem stendur og er von á þeim vonandi fyrir útgáfutónleikana. Ég hvet bara alla til að koma og upplifa lögin og hljóminn með okkur á húrra í desember.  Allar útgáfur Bigga er að finna á Spotify og á vefsíðu hans, www.biggihilmars.com

Bandcamp

Skrifaðu ummæli