EINAR VILBERG BREIÐIR YFIR FOO FIGHTERS

0

Tónlistarmanninn Einar Vilberg ættu flestir að þekkja úr rokk hljómsveitinni NOISE en Einar hefur verið starfandi tónlistarmaður frá 16 ára aldri. Einar stofnaði hljómsveitina NOISE árið 2001 með bróður sínum Stefáni Vilberg og hefur bandið gefið út fjórar breiðskífur og farið í fjölda tónleikaferða um heiminn.

Einar vinnur nú að sinni fyrstu sóló plötu sem er væntanleg í verslanir á næstunni. Einar Vilberg sér sjálfur um allan söng og hljóðfæraleik á plötunni ásamt því að taka sjálfur upp, hljóðblanda og mastera. Upptökur og eftirvinnsla fóru fram í stúdíóinu Hljóðverk fyrr á árinu.

Nóg hefur verið að gera hjá Einari undanfarið en fyrstu lögin af sóló plötu hans hafa verið að heyrast á útvarpsstöðvum landsins undanfarna mánuði. Á síðasta ári  gaf Einar út plötuna Echoes með hljómsveit sinni NOISE við góðar undirtektir. Á Echoes sem er fjórða plata NOISE var hljóðheimurinn órafmagnaður og skreyttur með strengjum og píanói. Þess má geta að strengjasveit Mark Lanegans spilaði strengina á Echoes plötunni eftir útsetningum Einars.

Einar hóf í kjölfarið vinnu á sinni fyrstu sóló plötu. Í fyrra fékk Einar svo skilaboð frá amerísku hljómsveitinni Stone Temple Pilots varðandi hugsanlega söngvarastöðu í hljómsveitinni. Einar var valinn úr hópi 40.000 umsækjenda, fór í september til Los Angeles og söng með STP í hljóðveri Foo Fighters. Einar komst í þriggja manna úrslit sem ber að teljast frábær árangur.

Eftir heimkomuna frá L.A einbeitti Einar sér að því að pródúsera og taka upp aðra tónlistarmenn í hljóðveri sínu Hljóðverki ásamt því að vinna áfram að sóló plötu sinni sem nú fer að líta dagsins ljós.

Tónlistarhátíðin Secret Solstice er á næsta leiti og óhætt er að segja að dagskráin í ár er ansi þétt! Einar Vilberg var beðinn um að gera ábreiðu af lagi með hljómsveit sem kemur fram á hátíðinni og að sjálfsögðu valdi rokkhundurinn hljómsveitina Foo Fighters en hann blandar hér saman þremur lögum!

Útkoman er virkilega glæsileg en herlegheitin má sjá og heyra hér að neðan.

Hægt er að nálgast miða á hátíðina á Tix.is

http://secretsolstice.is

Skrifaðu ummæli