EINAR ÖRN BENEDIKTSSON

0

FullSizeRender (2)

Einar Örn Benediktsson þarf varla að kynna en hann gerði garðinn frægan með Purrki Pillnikk, Kukl, Sykurmolunum og nú Ghostigital svo fátt sé nefnt. Hann er lifandi legend, tónlistarmaður og pönkari í húð og hár.


 

Hvernig byrjaðir þú í tónlist?

Ég byrjaði að hlusta á tónlist sem unglingur og hreyfst svolítið með vinum mínum sem voru að hlusta á Emerson, Lake & Palmer, voru semsagt í þessu prog rokki. Árið 1976 þá dett ég inn í pönk tónlist og því sem fylgir pönkinu. Þá byrjaði ég að kaupa pönk sjö tommur og fylgjast með pönk senunni í Bretlandi. Það var ekki aftur snúið frá því, það gerði mig að því sem ég er í dag. Það er uppeldið í gegnum pönkið og pönk hugmyndarfræði sem er svona „do it yourself.“ Þegar ég var í gagnfræðiskóla þá voru vinir mínir Bragi, Friðrik og Halldór Kvaran og fleiri í hljómsveit en ég var ekki í hljómsveit því ég kunni ekki á nein hljóðfæri en þeir voru að spila og Bragi spilaði á bassa og Frikki á gítar og þeir verða svo seinna með mér í Purrki Pillnikk. Ég keypti plötur og hlustaði á pönk en byrjaði ekki að búa til tónlist fyrr en árið 1981, það er þá sem við kýlum á Purrk Pillnikk. 8. mars árið 1981 semjum við tíu lög og spilum svo 9. mars. Þarna byrjaði ég sem gerandi í tónlist en fram að þessu hafði ég verið áhorfandi og aðdáandi. Þar áður var ég búinn að vera umboðsmaður Utangarðsmanna þannig maður var alltaf með og inn í þessu og fylgdist með pönk og nýbylgju. Síðan tek ég með pönkinu elektróník eins og Cabaret Voltaire en svo fór pönkið að segja manni að hlusta á eldra efni eins og Captain Beefheart. Ég hélt mér alltaf í nútímanum, ég varði ekki lengi í eldri tónlist, en kannaði ræturnar og það sem hafði áður verið.

 Er ekkert mál að semja tíu lög á einum degi?

Þetta var svona tónlistarkvöld í MH og ég var í tónlistarráði. Ég og Bragi vorum saman í MH en Frikki var í Myndlistarskólanum. Við ákváðum að búa til atriði fyrir þetta og við fengum Ásgeir með okkur til að tromma. Við fengum lánaðar græjur frá Utangarðsmönnum og við æfðum þetta kvöld og sömdum bara tíu lög, þetta voru mjög stutt pönk lög. Ég hafði fyrirmyndir eins og hljómsveitina Wire, þeir spiluðu tuttugu sekúndna lög og einnig hljómsveitin Swell Maps, þeir voru með lög sem voru ein mínúta og tuttugu og sex sekúndur og það þótti bara allt í lagi. Við vorum að búa til tuttugu sekúndna lög, lengsta lagið var níutíu sekúndur þannig það tók okkur átta mínútur að spila þetta. Við vorum bara að gera hlutina en ég ætlaði ekkert endilega að vera með míkrófóninn. Ég fékk hávaða petala frá Danna Pollock og ætlaði bara að gera hávaða en svo réttir Ásgeir mér míkrófóninn og segir „þú syngur“ þá þurfti ég að finna orðin og búa þau til en svo þróaðist það út í það að ég þurfti að skrifa texta með Purrki Pillnikk. Þá opnaðist leið fyrir mig til að tala í rauninni um sjálfan mig, ég var alltaf að tala um hvað kom fyrir mig eða skrítnar aðstæður. Í raun og veru var þetta persónuleg pólitík. Pönk var oft að tala um óréttlæti og eitthvað. Ég var meira að tala um t.d. að vera lokaður úti eða hvað er ást, er ást gramm af hassi? eða eitthvað annað? Þetta var leið fyrir mig að þurfa að gera eitthvað og ekki láta neitt stoppa sig.

Hvað var það sem heillaði þig við pönkið?

Mér fannst pönkið vera spennandi hlutur og kannski útaf því að ég var tónlistarlega áttavilltur. Ég man að ég bað um Tarkus með Emerson, Lake & Palmer í jólagjöf og setti hana á fermingar plötuspilarann og hlustaði á hana út í gegn en ég var ekkert viss um hvort ég vildi vera á þessum stað. Ég skildi þetta ekki alveg og ég man að það var eitt lag á plötunni sem heitir Are You Ready Eddy sem er í rauninni bara mjög stutt rokk lag og það er það eina sem ég tengdi við. Um leið og ég heyrði pönkið þá kveikti það í mér, þá var ég kominn á einhvern stað og ég hef aldrei séð eftir því. Þessi tónlist sagði það sem ég vildi heyra. Þótt ég væri einn að hlusta á þetta þá var það alveg nógu mikil samstaða fyrir mig. Þetta var bara ógeðslega spennandi og mikið að gerast. Ég tók þetta ekki sem tísku. Ég tók þetta sem grasrót. Þetta var alvöru fólk sem var að spila og það talaði til mín. Ég hreyfst með og var með.

FullSizeRender

Hvernig var tónlistarlandslagið á þessum tíma og fékk pönk t.d. spilun í útvarpi?

Nei, nei alls ekki! En það var einn útvarpsþáttur á viku sem hét Áfangar sem Guðni Rúnar og Ásmundur Jónsson sáu um og spiluðu nýja tónlist. Þegar ég byrjaði að kaupa mínar pönk plötur þá lét ég þá fá þær og þeir spiluðu plöturnar. Við verðum eiginlega að tengja þetta við Ísbjarnarblús með Bubba Morthens því þá kemur loksins rödd sem byrjar að tala um íslenskan raunveruleika. Fyrst þegar ég sá Utangarðsmenn þá hljómaði gítarinn útlenskur, það voru Danni og Mikki Pollock sem stilla gítarana öðruvísi, þeir stilla þá eins og The Stooges gera, voru með þennan Detroit hljóm sem var allt öðruvísi. Á þessum tíma var Diskó og ég man að ég skrifaði grein þegar ég var í Hagaskóla um Karnabæjar úlpur og Moonboots og hvað þetta væri í rauninni vond tíska og tónlistin var Diskó og ég var það ekki. Ég var ekki Diskó gaur ég var pönk! Það sem ég kalla NÍT (ný íslensk tónlist) það var svolítið að hverfa á þessum tíma. Purrkur Pillnikk spilar sitt síðasta gigg á Melarokki, 28. Ágúst 1982. Þeysarar áttu að spila þar en komu ekki fram. Þetta var að líða undir lok, þessi rosalega gerjun sem var í gangi. Við vorum búin að vera með Vonbrigði, Joney Joney , Fræbblana og Q4u. Það var fullt að gerast og við vorum með Hótel Borg sem okkar mekka. Þetta var að verða búið og var eiginlega alveg búið þegar Rokk Í Reykjavík er svo sýnd en hún talar samt um þessa tónlist á réttan hátt. Þetta er ekki nema eitt og hálft ár hjá Purrki Pillnikk og svo er hápunkturinn Melarokk að vissu leyti. Kukl byrjar árið 1983 og við gefum út þrjár plötur, eina smáskífu, The eye sem er sex laga plata og svo Holidays In Europe sem er í fullri lengd. Smekkleysa SM er stofnað árið 1986 og Sykurmolarnir upp úr því. Þá fer að gerjast aftur í íslenskri tónlist og það myndast þessi alþjóðlega stemning og Sykurmolarnir fara að komast á kortið. Fólk fer að fatta að þetta er ekki bara innlend dægurframleiðsla heldur er þetta líka að grasrótin hafi rödd sem skiptir rosalega miklu máli í allri menningu.

Úr Kukl í Sykurmolana

Það verður ákveðin uppstokkun. Ég kem úr námi, Bragi flytur aftur til landsins eftir að hafa verið á Spáni. Við hittumst öll aftur og vorum bara að endurnýja kynni okkar. Við stofnum Smekkleysu, en í henni koma saman pönk og súrrealista element. Sjón, Þór og Einar Melax koma úr Medúsu. Þegar ég byrja í pönkinu byrja þeir með Medúsu. Þeir voru mjög aktívir í myndlist, ljóðlist og bókaútgáfu og voru menningarlegt fyrirbæri. Voru með gallerí í Suðurgötu sem hét Skruggubúð. Við vorum samhliða í mörg ár, en í Smekkleysu liggja leiðir okkar saman. Þarna liggja leiðir okkar saman og úr verður nýtt sem er Smekkleysa sem verður okkar vettvangur næstu árin og er enn í gangi. Við notuðum Sykurmola pening til að gefa út vini okkar og vorum ekkert að hugsa út í einhverja útgáfu stefnu. Ef sykurmolarnir voru að fara út að spila og okkur fannst einhver hljómsveit vera góð og okkur vantaði upphitunarhljómsveit þá buðum við þeim með. Þetta var ákveðinn pakki hjá okkur, allir voru með og allir voru að gera allt saman. Við vorum að búa til og framkvæma, vorum að gera t.d. ljóðabækur, skemmtikvöld Smekkleysu voru alþekkt og þar vorum við með töfrabrögð, leiklestur og auðvitað tónlist.

cubes-pressphoto

Sykurmolarnir urðu súperstjörnur, gerist það fljótt eftir að bandið er stofnað?

Við byrjum að taka upp fyrstu plötuna hérna heima árið 1986 og ég tala við Derek hjá One Little Indian. Á meðan ég var að læra úti þá var ég oft hjá Derek. Hann bjó í kommúnu og Flux Of Pink Indians var hljómsveitin í þessari kommúnu, reyndar spilaði ég trompet með Flux á nokkrum ferðum, en svo var crass kommúnan sem ég var líka í. Slagorð Smekkleysu var heimsyfirráð eða dauði þannig okkur vantaði hljómsveit til að uppfylla það. Þannig Sykurmolarnir áttu að vera „perfect popp.“ Derek var með Spiderleg útgáfu sem gaf út pönk sjö tommur en hann var að byrja með nýja hljómplötuútgáfu. Ég sagði við hann að ég væri með mastertape frá Sykurmolunum og við gætum búið til cover „viltu ekki bara gefa þetta út“ sagði ég og hann var alveg til í það. Hann var „studio engineer“ í stúdíói sem hét Berry Street í London og hann vann með Ray Shulman sem var í Gentle Giant. Í dauðatíma sínum í stúdíóinu byrja þeir að mixa Sykurmolana og þannig héldum við áfram að vinna plötuna og útkoman var Life´s Too Good. Þetta var ekki eitthvað sem við vorum að rembast við heldur voru þetta bara vinir sem voru að gefa út plötu og búa til hluti en svo förum við inn í bransann á okkar forsendum. Við eigum heima á Íslandi og fljúgum alltaf út og það var ekkert masterplan hjá okkur og voðalega lítið sem við vorum að streða við. Það má segja að á þessum tíma hafi verið dauður tími í bresku poppi og þá pössuðum við þar inn. Við vorum skrýtin, höfðum eitthvað að segja, vorum ekki venjuleg og með mikla reynslu. Við vorum mjög athyglisvert unit sem kom okkur áfram. „Ef maður veit hver maður er þá getur maður gert allt en ef maður veit ekki hver maður er þá getur maður ekki gert neitt.“

Það virðist hafa verið mjög gaman á þessum tíma

Undirstaðan í þessu öllu var að hafa gaman en svo var þetta ekkert orðið voðalega gaman en þá höfðum við alla veganna vit á því að stoppa áður en okkar vinskapur mundi eyðileggjast. En jú við reyndum að hafa smá gleði í brjálæðinu.

Var þetta mikið brjálæði?

Já við gerðum ýmislegt (hlátur) og fórum víða. Við fundum það að við keyrðum okkur svolítið út á fyrsta Evróputúrnum sem var áttatíu og níu dagar og sjötíu tónleikar og það var bara of mikið. Við gátum ekki staðið í því. Við reyndum að gera þetta eins og bransinn vildi en það hentaði okkur ekki.

Þið spiluðuð rosalega mikið útum allan heim

Jú það hlýtur bara að vera af því að plata númer tvö sem heitir „Here Today Tomorrow Next Week“ en við gátum ekki verið viðstödd mix á henni. Fyrir plötu þrjú „Stick Around For Joy“ vildum við vera í „residential stúdíói“ og við gerðum það, bjuggum í Woodstock og vorum þar að búa til tónlistina og það var eiginlega gert til þess að fá frið frá utanaðkomandi og öllu áreiti. Sykurmolarnir tóku þessa rússíbanareið en svo var það bara búið. Það er ekki „hvað ef“, það skiptir engu máli.

Hvað getur þú sagt mér frá remix plötunni sem kom út með sykurmolunum?

Já það var mjög vinsælt á þessum tíma og við fengum mikla reynslubolta til að remixa fyrir okkur t.d. Todd Terry, Justin Robertson og fleiri snillinga. Dans og Electro tónlist var að koma inn og það sem Sykurmolarnir voru að gera var að vera með danshæft popp. Það var ákveðið beat í gangi sem var svolítið danshæft sem er líka hægt að færa yfir á bönd eins og Happy Mondays og allan þann pakka þannig við fyllum eitthvað gap sem er í breskri tónlist og svo fylgir í kjölfarið popp sem er orðið dansvænt.

sugarcubes

Eftir Sykurmolana gerir þú Frostbite, hvað getur þú sagt mér um það?

Ég og Hilmar Örn Hilmarsson bjuggum saman úti í London og við ákváðum þá að búa til project sem heitir „Ornamental“ og fengum Rose Mc Dowall úr Strawberry Switchblade með í það project og Dave Ball úr Soft Cell. Hilmar seldi Dx 7 soft synthann sinn til þess að borga fyrir stúdíóið og það var Fairlight þar sem var þá nýjasta týpan af syntha og útfrá því ákváðum við að búa til Frostbite og búa til tónlist saman og gáfum það út hjá One Little Indian. Ken Thomas tók upp þessa plötu og hann segir að þetta sé erfiðasta plata sem hann hefur tekið upp enda vorum við mjög sjúskaðir. Við áttum að gista í bát á Thames ánni í London. Við sáum fyrir okkur svona miðlungs snekkju sem reyndist svo vera bara svona átta feta sóma bátur þannig við sváfum í stúdíóinu. Katie Jane Garside kom og söng þannig þetta var svolítið klikkað project hjá okkur, í alla staði.

Næsta project er svo Grindverk.

Grindverk er Hilmar Örn, Sigtryggur Baldursson og ég. Það var svona lítið London project aftur og við gerðum eina tólf tommu fyrir Fat Cat Records og erum enn með um tólf óútgefin lög og sumt af því er bara asskoti gott. Það er svona elektrónískt danshæft stuff. Ég veit ekki alveg af hverju við gerðum þetta. Að vinna með Sigtryggi er alltaf ógeðslega gaman og að vinna með Hilmari er líka alltaf ógeðslega gaman. Við kölluðum þetta danstónlist fyrir þá sem gætu ekki dansað. Það er svolítið lýsandi fyrir það sem við vorum að gera, öðruvísi danstónlist.

Eftir þetta gerir þú soundtrackið ásamt Damon Albarn í bíómyndinni 101 Reykjavík

Já og þetta er það fyrsta sem ég geri á því sviði. Það eru pródúsentarnir á 101 Reykjavík sem hafa samband við okkur en við áttum fyrst að vera svona „music supervisors“ og áttum að finna tónlist í myndina en það endaði á því að við sömdum alla tónlistina í myndina. Damon sagði við mig „þú sérð um trommurnar og bassann og ég sé um laglínurnar“ og ég sagði bara já þannig ég þurfti að læra að búa til trommur og bassa á tölvu sem er eiginlega upphafið að því að ég byrja að búa til tónlist sjálfur. Áður hafði ég alltaf unnið þetta í sameiningu við einhvern annan. Núna í Ghostigital þá vinnum við þannig að ég bý til grunna sem að Curver yfirtekur og svo vinnum við það áfram. Ég segi svo sögurnar ofan á það, síðan tekur Curver það og klippir og býr til aðrar sögur og á endanum erum við komnir með það sem kallast lag.

Hvernig kom allt Ghostigital ævintýrið til?

Ég og Damon Albarn vildum fá íslenska tónlistarmenn til þess að remixa það sem við gerðum fyrir 101 Reykjavík. Curver sendi inn eitt mix sem hann kallaði „Terror Disco“ og mér fannst það alveg klikkað! Ég talaði við Curver og sagði við hann að ég væri með nokkrar hugmyndir að lögum og hvort hann gæti unnið með mér. Það tók okkur smá tíma að koma saman. Þá byrjuðum við að taka upp Einar Örn Ghostigital, fyrstu plötuna sem færist svo yfir í það að við erum bara Ghostigital. Ég vissi af Curver í gegnum það sem Smekkleysa hafði gefið út og fleira. Að heyra það sem hann var að gera var algjört „eye opener.“ Þá erum við komnir útí það sem kallast tölvutónlist en þetta hefur aldrei verið tölvutónlist fyrir mér. Mér líður jafn vel með Ghostigital eins og mér leið með Purrk Pillnikk. Þetta er í raun og veru hreint rokk en við erum líka Hip Hop. Við fengum Sensational til að vera með og þá var allt í einu komin tenging á milli Brooklyn og Reykjavík. Þetta á allt heima á sama stað og það var aftur „eye opener“ fyrir mér.

Er Ghostigital pönk?

Já það má alveg segja það. Við erum mjög harðir en við getum verið soft en það er alltaf attitude. Við erum alltaf að ýta áfram hljóðheimnum og prófa eitthvað nýtt og bjóðum fólki að koma með okkur inní þennan hljóðheim. Við erum líka alltaf að segja sögur og sagan getur stundum verið svolítið klikk en það þarf að segja hana. Pönk snýst um það að segja það sem þú þarft að segja og ekki þegja. Þetta er pönk en það sem við erum að hlusta á er ekki sameiginlegt en þegar við setjum þetta saman og byrjum að vinna þá dettum við á eitthvað sem við erum báðir sammála um án þess að ræða það og prófum okkur áfram. Þannig er þetta experimental tónlist. Við æfum aldrei þannig, að spila live er eini vettvangurinn fyrir okkur til að sjá hvort þetta virki og við þurfum virkilega að leggja okkur fram til þess að láta þetta virka af því við getum ekki endurtekið þetta. Það er eins gott að þetta virki af því við gerum þetta ekki aftur eins, það er alltaf óvissa í þessu sem er mjög góð.

Ertu ennþá pönkari?

Já ég held að ég verð að játa það. Það er þetta „element“ að reyna að vera heiðarlegur og segja það sem manni finnst. Þetta er hugarfar og pönkið mótaði mig hvernig maður á að gera hlutina og fara í hluti og búa þá til og hvernig maður á að haga sér og vera dags daglega. Ég lít aldrei til baka og hugsa hvað hefði mátt gera betur heldur lifi ég í deginum í dag og geri mitt besta í dag.

Er Ghostigital að vinna í nýju efni?

Já við vorum að opna tölvurnar og erum komnir með fimm nýja grunna. Kannski við klárum plötu á þessu ári, aldrei að vita.

Einar Örn mun vera með opna sýningu á teikningum í Listamenn við Skúlagötu, 5. nóvember klukkan 17.

Ghostigital spilar á Airwaves á Húrra 5. nóv og 9. nóv ekki missa af því!

 

 

Comments are closed.