EIGENDASKIPTI Á ROSENBERG

0

Ólafur og Kári eru nýir eigendur Rosenberg.

Nýlega urðu eigendaskipti á Rosenberg við Klapparstíg þegar Ólafur Örn Ólafsson vínþjónn og Kári Sturluson framleiðandi keyptu staðinn. Rosenberg hefur í gegnum tíðina hýst okkar ástælasta tónlistarfólk við góðan orðstír. Nýir eigendur eru staðráðnir í að gera gott betra og ætla að festa Rosenberg í sessi sem einn helsta veitingastað borgarinnar í bland við lifandi tónlist, sjónlist og óvæntar uppákomur.

Ólafur og Kári kynna nú til leiks Brasserie Rosenberg sem opnar fyrir hádegisverð alla virka daga frá kl. 11:30 og kvöldverð alla daga nema sunnudaga. Brasserie Rosenberg býður upp á brasserie mat í norrænum stíl með fiski- grænmetis- og vegan rétti í forgrunni ásamt gæðavínum. Áhugaverðir bjórar frá smábrugghúsum, gott úrval af kranabjór og afar forvitnilegur barseðill prýða nú einnig Rosenberg.  Barseðillinn flaggar réttum úr öllum áttum sem eiga einungis eitt sameiginlegt; að skolast vel niður með sérvöldu bjór- vín- og hanastélsúrvali staðarins.

Rosenberg mun leitast við að vera virkur þáttakandi í menningarlífi borgarinnar og er margt spennandi í bígerð á þeim vettvangi hvort sem um er að ræða lifandi tónlist, sjónlist eða uppákomur af ýmsum toga.

Framtíðin hjá Rosenberg við Klaparstíg er spennandi og tilkoma Brasserie Rosenberg helst í hendur við þá jákvæðu endurnýjun sem gatan og nærumhverfi er að ganga í gegnum.

Ólafur Örn Ólafsson er fyrrverandi forseti vínþjónasamtaka Íslands. Hann hefur komið að opnun margra af farsælustu veitingastaða landsins; Dill, Slippbarinn, Vox, Café au Lait og Hótel Búðum ásamt því að vera einn forsprakka KRÁS-ar götumatarmarkaðsins í Fógetagarðinum. Ólafur er annar stjórnandi sjónvarpsþáttana „Það er komin matur” með Ingu Lind Karlsdóttur og var dómari í „Master Chef Ísland” á Stöð 2.

Kári Sturluson hefur um árabil starfað við framleiðslu tónlistar, kvikmynda og viðburða á Íslandi sem og erlendis. Meðal samstarfsfólks Kára í gegnum tíðina má nefna Quarashi, Emilíönu Torrini, Sigur Rós, Hjálmar, Megas og Damien Rice.  Auk þess hefur Kári haldið aragrúa tónleika á Íslandi með erlendu listafólki eins og Foo Fighters, Coldplay, Buena Vista Social Club, Robert Plant, Rammstein og Duran Duran svo fátt eitt sé nefnt.  Kári hefur unnið ýmis verkefni tengd tónlist og viðburðum fyrir ríki og borg ásamt því að hafa stjórnað Iceland Airwaves hátíðinni fyrstu ár hennar.

https://rosenbergrvk.com

Instagram

Skrifaðu ummæli