„Ég vinn við það að leika mér, það gerist ekki betra”

0

Tónlistarkonan Sólborg Guðbrandsdóttir hefur verið áberandi að undanförnu og hefur svo sannarlega komið víða við! Sölborg vakti talsverða athygli í undankeppni Eurovision með laginu „Ég og þú.” Nýlega gekk hún til liðs við Áttuna og óhætt er að segja að nóg er framundan hjá krúinu.

Sólborg Guðbrandsdóttir, Þórir Geir og Hildur Sif mynda Áttuna en þau sendu nýlega frá sér glænýtt lag og myndband sem ber heitið „Einn Séns.” Albumm.is náði tali af Sólborgu og svaraði hún nokkrum léttum spurningum um herlegheitin.


Þú ert nýbyrjuð að vinna hjá Áttunni. Var erfitt að komast þar inn og hvernig er að vera þar innanborðs?

Prufurnar stóðu yfir í nokkrar vikur og voru krefjandi, rúmlega tvö hundruð manns sóttu um starfið. Ég reyndi bara að gera eins vel og ég gat og það skilaði sér að lokum. Það er frábært að vinna með þessum krökkum, hvert og eitt þeirra stendur við bakið á manni og það skiptir öllu máli. Ég vinn við það að leika mér, það gerist ekki betra.

Sólborg Guðbrandsdóttir, Þórir Geir og Hildur Sif mynda Áttuna.

Þið voruð að senda frá ykkur smellinn ,,Einn séns“. Er lagið búið að vera lengi í vinnslu og hvernig er að vinna með hinu fólkinu í Áttunni?

Ragnar, Egill og Nökkvi sáu um að semja lagið. Við fengum að heyra það bara rétt áður en við lögðum af stað í stúdíóið að taka það upp, en það gekk ótrúlega vel. Það er virkilega gott að vinna hjá Áttunni og ég finn það bara strax, þó ég sé búin að vinna hjá þeim í stuttan tíma, hvað það hefur góð áhrif á mig. Það skiptir öllu máli að umkringja sig fólki sem vill manni vel og hvetur mann áfram í því sem maður er að gera.

Hvað er skemmtilegast við starfið og hefur eitthvað komið þér á óvart í starfinu?

Hversu fjölbreytt það er, enginn dagur er eins. Það hefur komið mér á óvart hversu margir starfa innan fyrirtækisins á ýmsum sviðum. Áttan er miklu stærra batterí en mig grunaði.

Hvað er að gerast í nánustu framtíð og eitthvað að lokum?

Ég ætla bara að nýta þetta ár sem ég verð hjá Áttunni eins vel og ég get og hafa gaman. Hvað gerist eftir það verður svo bara að koma í ljós en mig langar helst af öllu út í heim að spila tónlist.

Skrifaðu ummæli