„Ég notaði þetta nafn til að villa á mér heimildir og þykjast vera þýskur plötusnúður“

0

Hljómplötuútgáfan Unfiled fagnar fyrstu útgáfu sinni á Kaffi Vínyl, laugardaginn 5. maí frá 20:00-23:00. Unfiled 001 er þröngskífan Fivefiles með Allenheimer en Allenheimer er listamannsnafn Atla Bollasonar og það má segja að þetta sé fyrsta sólóplatan hans!

„Allenheimer hefur verið svona hálfgert hliðarsjálf í heilan áratug. Upphaflega notaði ég þetta nafn til að villa á mér heimildir og þykjast vera þýskur plötusnúður. En ég endurvakti nafnið því það voru búin að safnast upp hjá mér nokkur lög sem mig langaði að gefa út. Þau eru ansi ólík en ríma samt á einhvern óræðan hátt. Til dæmis eru þrjú þeirra unnin upp úr „sömplum“ úr eldri íslenskum lögum – Megasi og Eyfa og Benna Hemm Hemm – og svo er búið að smyrja miklu bergmáli á allt saman; þetta hljómar allt svolítið eins og draumur sem er að fjara út að morgni eða minning sem maður nær ekki alveg að kalla fram,“ – Atli Bollason.

Fivefiles kom út á stafrænu formi í mars en á laugardaginn verða til sölu vínyleintök af plötunni. Plöturnar eru 180 gramma, sérskornar og gefnar út í mjög takmörkuðu upplagi. Umslagið er silkiþrykkt, áritað með ljósmynd og vínyllímiða.

Að baki Unfiled standa Atli sjálfur og Guðmundur Úlfarsson. Síðar á árinu er von á plötu frá Guðmundi undir nafninu Good Moon Deer.

„Þegar allt er skráð og skjalfest þá verður hugmyndin um fyrirbæri sem þrífast utan við skýið og eftirlitssamfélagsins sérstaklega aðlaðandi. Það má segja að Unfiled sé svona fantasía um hið óskráða, því auðvitað gengur útgáfa út á skrásetningu. Við vonumst til að gefa út tónlist sem á kannski illa heima í hefðbundnum skjalaskápum, tónlist sem lendir á milli skráa og týnist eða gleymist eða máist út.“ – Atli Bollason.

Atli og Guðmundur munu þeyta skífum allt kvöldið auk þess að halda báðir stutta tónleika. Það verður frumraun Allenheimers í lifandi tónlistarflutningi.

Aðgangur er ókeypis og öllum frjáls. Kaffi Vínyl er á Hverfisgötu 76.

Unfiled.online

Skrifaðu ummæli