„Ég kann að meta að vera með plötuna í höndunum, hlusta á hana í heild sinni og heyra skratsið“

0

Hekla Egils stundar nám við Kvikmyndaskóla Íslands en hún var að útskrifast af annarri önn. Útskriftarverkefnið hennar er ansi skemmtilegt en það er heimildarmyndin Ryk og Rákir. Myndin fjallar um vínylmenninguna á íslandi en eins og margir eflaust vita lifir vínyllinn afar góðu lífi hér á landi.

Hekla svaraði nokkrum skemmtilegum spurningum um myndina og vínylinn svo sumt sé nefnt.


Hvernig kviknaði áhuginn á kvikmyndagerð og ertu búin að vera lengi í Kvikmyndaskóla Íslands?

Kvikmyndir yfir höfuð er eitthvað sem ég hef haft áhuga á síðan ég man eftir mér. Stóri draumurinn var einu sinni að vera leikkona en svo þegar ég fór að læra grunninn í kvikmyndagerð í menntaskóla þá vissi ég að það var í rauninni það sem mig langaði að gera. Ég hef alltaf haft áhuga á að skrifa, meðal annars handrit, og það svona ýtti mér áfram í að sækja um í Kvikmyndaskólanum. Ég var að ljúka annari önn minni í KVí, þar sem lokaverkefnið mitt var þessi heimildarmynd um endurreisn vínylmenninguna.

Hvernig kom til að þú gerðir mynd um vínylmenninguna á íslandi og er hún búin að vera lengi í vinnslu?

Í byrjun fékk ég þá hugmynd að gera mynd um plötusnúðinn Silju Glommi, sem birtist í myndinni og einblína á feril hennar sem plötusnúð og hversvegna hún ákveður að nota vínyl þegar hún spilar. En síðan var ég að fara í gegnum plöturnar mínar og tók eftir upprunulegu Sgt. Pepper’s Lonely Hears Club Band plötunni við hliðina á 50 ára afmælis útgáfunni sem kom út í fyrra og þá fattaði ég að það sem ég vildi í rauninni gera er að fjalla um að það er ennþá pláss fyrir vínylinn í samfélaginu í dag, og hvers vegna að það er. Þannig þetta fór frá því að vera hugmynd og í framkvæmd á aðeins tveimur mánuðum. En ég held að lykillinn hafi verið að finna viðfangsefni sem ég hafði ástríðu fyrir.

Ert þú mikil vínyl manneskja og hvað það við vínylinn sem heillar þig?

Ég kynntist vínylnum þegar ég var mjög ung. Pabbi átti lítið safn og þess vegna hef ég alltaf vitað af þessu formi. En það sem kveikti á ást minni á þessu var upprunalega Sgt. Pepper’s platan sem ég erfði frá ömmu minni sem dó þegar ég var 16 ára. Síðan þá hefur áhugi minn bara aukist og ég á lítið safn sjálf núna sem ég veit að mun bara stækka með tímanum. Ég er mjög sentimental manneksja og er nostalgísk, ég kann að meta að vera með plötuna í höndunum, hlusta á hana í heild sinni, heyra skratsið, fara í gegnum plöturnar…í rauninni bara allt þetta sem þau tala um í myndinni. Og ekki má gleyma hljómnum, sem er algjörlega ólíkt því sem þú heyrir í lítilli tölvu eða á Ipod. Þetta er svo mikil athöfn, sem ég elska.

Hvað er framundan hjá þér og eitthvað að lokum?

Ég á tvær annir eftir í KVÍ sem ég bíð spennt eftir. Ég er komin í sumarfrí núna en ætla halda áfram með hugmynda vinnu í sumar og vinna í nokkrum litlum verkefnum með vinum úr skólanum. Svo er bara spurning um hvort maður eigi ekki bara að halda áfram með þessa mynd. Það er svo margt sem hægt er að segja um vínylinn og svo margir vínklar sem maður getur nálgast þessu efni með. Ég er núna að vinna í því að eignast öll Beach Boys albumin á vínyl og er komin á góða leið með það, og vonandi er það eitthvað sem ég næ að klára á næstunni. Ég vil bara hvetja fólk að prufa vínylinn, þetta er allt önnur upplifun og þú nálgast tónlistinni á allt annan hátt. Ég held að maður fái aðeins meiri virðingu og skilning af tónlistinni með að hlusta á vínyl.

Skrifaðu ummæli