ÉG HEFÐI ÁTT AÐ FARA Í VERKFRÆÐI

0

Tónlistarkonan Katrín Helga var að senda frá sér fjögurra laga EP plötu en hún ber það skemmtilega nafn, „Ég hefði átt að fara í verkfræði.“ Katrínu er margt til lista lagt en hún er meðlimur sveitarinnar Reykjavíkurdætur, er menntuð klassískur píanisti og ferðast nú um heiminn með tónlistarkonunni Sóley.

Albumm.is náði tali af Katrínu og svaraði hún nokkrum laufléttum spurningum um nýju plötuna.


Er platan búin að vera lengi í vinnslu og hvaðan sækir þú þinn innblástur?

Nei platan var mjög stutt í vinnslu. Ég hef verið að vinna plötu með hljómsveitinni minni kriki í næstum þrjú ár og er komin með svo mikið ógeð á fullkomunaráráttunni í sjálfri mér að mig langaði að fara í andstæða átt og skella í eitthvað. Innblástur sæki ég til frönsku tónlistarkonunnar Soko, Connan Mockasin og Alvvays meðal annarra.

Nú ert þú að fást við ansi fjölbreytta hluti, t.d. rapp. Er ekkert mál að skipta svona um gír?

Ég er í grunninn menntuð sem klassískur píanisti þannig að rappið er kannski ekki beint heimavöllurinn minn hvort eð er. Ég hef í rauninni verið að gera svona dót miklu lengur. Ég hef alltaf verið mjög hrifin af textum og sá áhugi sameinar allt saman, rapp og annað.

Þú gerir myndbönd við öll lögin, afhverju og telur þú að myndbönd skipti miklu máli?

Einhverntímann las ég grein eftir Úlfhildi Dagsdóttur um að myndræni þátturinn væri þriðja vídd tónlistarinnar í dag. Víddirnir þrjár eru þá: tónar, textar og myndefni. Myndbönd eru líka mikilvægur þáttur í ímyndasköpun listamannsins. Svo eru myndbönd aðgengilegur miðill og henta vel fyrir nútímamenn með athyglibrest. 1 mínútu lög henta þeim líka vel.

Katrín Helga og Sóley.

Á að fylgja plötunni eftir með tónleikahaldi?

Aldrei að vita. Það yrðu þá bara mjög stuttir tónleikar. Ég spilaði plötuna í gegn á HRÍFANDI 001 á Gauknum síðasta sunnudag og það var mjög gaman. Skrítið að spila lag sem er búið næstum um leið og það byrjar.

Skrifaðu ummæli