„ÉG HEF MJÖG SÉRSTAKAN SÖNGSTÍL OG ÞAÐ ER EKKERT ERFITT AÐ VERA MAÐUR SJÁLFUR“

0

Barði Jóhannson er einn hæfileikaríkasti tónlistarmaður þjóðarinnar en nýlega söng hann inn á tvær stiklur sem innihalda ábreiðu af laginu, „Zombie“ eftir hljómsveitina Cranberries. Annars vegar er um að ræða trailer fyrir nýja X-Files þáttaröð sem FOX mun sýna og hins vegar trailer sem er nú í mikilli keyrslu í amerísku sjónvarpi fyrir tölvuleik sem er framleiddur af Warner Bros og ber nafnið „Middle Earth: Shadow of War.“ Óætt er að segja að ábreiðan sé hlaðin spennu, frumleika og einstakri snilld. Albumm.is fékk Barða til að svara nokkrum spurningum um þetta skemmtilega verkefni.


Hvernig kom það til að þú varst fenginn til að syngja inn á þessar stiklur fyrir Fox og Warner?

Ég er að vinna með fyrirtæki í Bandaríkjunum sem sér um tónlist í stiklur fyrir alla stóru kvikmynda og tölvuleikjaframleiðendur. Þau eru dugleg að búa til samstarf þeirra sem eru innan fyrirtækisins. Ég var því kynntur fyrir Oumi sem vann músíkina.

Afhverju var lagið „Zombie“ með Cranberries fyrir valinu?

Þetta cover (ábreiða) átti upprunalega að fara í stóra bíómynd og var pantað af þeim. Þegar á hólminn var komið endaði lagið ekki í myndinni heldur þessum stiklum.

Þessi ábreiða er vægast sagt öðruvísi en upprunalega útgáfan, var erfitt að koma þessu til skila?

Ég hef mjög sérstakan söngstíl og það er ekkert erfitt að vera maður sjálfur. Þegar ég hef sungið eða spilað lög eftir aðra þá hef ég reynt að færa þau í persónulegan búning. Ég sé ekki tilgang í því að spila lag eftir aðra og reyna að hljóma eins og listamaðurinn sem flutti það upprunalega.

Bjóstu við svona góðum viðtökum og hvernig tilfinning er að heyra rödd sína í svona flottum og stórum stiklum?

Það hefur verið regla hjá mér lengi að búast við engu. Að sjálfsögðu er skemmtilegast að gera sín eigin lög en það er gaman þegar maður fær pósta frá vinum sínum í Bandaríkjunum um að þau hafi heyrt röddina mína í sjónvarpinu. Það þýðir alla vega að maður hljómar ekki eins og allir aðrir.

Er eitthvað fleira líkt þessu á döfinni og eitthvað að lokum?

Það er alltaf eitthvað á döfinni tónlistarlega. Er búinn að vera að dúlla mér í tónlist við nornamynd sem kemur út á næsta ári. Það er samstarf milli mín og Danny í Ladytron en við vorum búnir að semja mikið af tónlistinni í myndina áður en hún var tekin. Við gerðum áður tónlist við myndina „Would You Rather,“ þannig að þetta er önnur myndin sem við erum að semja í.

Hér fyrir neðan má sjá stikluna úr tölvuleiknum, Middle Earth : Shadow of War:

Hér fyrir neðan má sjá X-Files stikluna:

Hér fyrir neðan má hlýða á lagið í heild sinni:

Skrifaðu ummæli