„ÉG HEF BREYST OG ÞÁ BREYTIST TÓNLISTIN MEГ

0

Tónlistarkonan Hafdís Huld hefur svo sannarlega komið víða við á viðburðarríkum ferli en hún var að koma úr tónleikaferð um Kína og platan hennar Dare to dream small er komin út! Hafdís steig fyrst fram á sjónarsviðið með hljómsveitinni GusGus en síðan þá hefur margt runnið til sjávar og er Hafdís orðin ein ástsælasta tónlistarkona landsins!

Albumm.is náði tali af Hafdísi Huld og svaraði hún nokkrum spurningum um tónleikaferðina um Kína, plötuna og framhaldið svo sumt sé nefnt!


Þú sendir fyrir skömmu frá þér tvö ný lög, voru þau lengi í vinnslu?

Fyrsta lagið sem heyrðist hér á landi af nýju plötunni heitir „Last Rays of The Sun,“ ég ákvað að gefa það út hér heima áður en það kemur út erlendis einfaldlega af því að sumarið okkar hérna á Íslandi er svo stutt. Þetta er svo sólarlegt lag og mér fannst ómögulegt að það færi í spilun í slyddu einhverntímann í haust. Last Rays of The Sun er elst af þeim lögum sem heyra má á plötunni, en lagið var upphaflega samið fyrir annað verkefni. Þegar ég byrjaði svo að taka upp plötuna þá var eitthvað við lagið sem togaði í mig, textinn átti svo vel heima innan um hin lögin, þannig að við ákváðum að breyta hljóðfæraskipan og útsetja lagið í öðrum stíl og vorum mjög ánægð með útkomuna.

„Take me Dancing“ er svo fyrsta smáskífan af plötunni sem kemur út í Evrópu, lagið var samið í fyrra á sjóðheitum sumardegi í London. Ég skrifa alltaf hjá mér allskonar textabrot og man að ég var að lesa yfir hugmyndir þegar þessi texti varð til í lestinni á leið í stúdíóið. Seinna sama dag samdi ég svo lagið við textann ásamt Tim Gordine, en við höfum unnið töluvert saman við lagasmíðar bæði fyrir mig og aðra listamenn.

Hljómplatan Dare To Dream Small kom út 28. Júlí, er hún eitthvað frábrugðin fyrri verkum og hvaðan sækir þú innblástur fyrir þína tónlistarsköpun?

Mér finnst alltaf auðveldast að semja um það sem ég þekki. Þannig að plöturnar mínar endurspegla oftast þann stað sem ég er á í lífinu. Ég eignaðist dóttur fyrir 5 árum síðan sem var mjög óvær fyrstu árin þannig að á tímabili sá ég ekki fram á að geta haldið áfram að vinna við tónlist. Á Dare to Dream Small syng ég um mikilvægi þess að sjá fegurðina í litlu hlutunum, í hversdagsleikanum. Í hröðum heimi samfélagsmiðla og snjallsíma er auðvelt að láta segja sér að mann vanti hitt og þetta þurfi að stefna hærra, hlaupa lengra eða eiga meira. En lífið er ekki keppni og það er góð tilfinning að vera sáttur við sitt. Platan er á margan hátt rökrétt framhald af síðustu plötu en á sama tíma ólík að mörgu leyti, ég hef breyst og þá breytist tónlistin með.

Þú varst að landa plötusamning í Kína, hvernig kom það til?

Ég hef verið á mála hjá breskri umboðsskrifstofu undanfarin 10 ár og í samstarfi við hana gert útgáfusamninga í Evrópu og Bandaríkjunum. Á síðasta ári gerði ég svo samning um útgáfu á fyrstu þremur plötunum mínum í Suður Kóreu. Í kjölfarið hafa lög af plötunni Home verið notuð í vinsælum sjónvarpsþætti í Suður Kóreu og Japan og um svipað leyti fengum við svo tilboð um útgáfu í Kína.

Þú varst að koma úr tónleikaferð um Kína, hvernig lagst ferðin í þig og hvað var þetta löng ferð?

Það var ótrúleg upplifun að fara og spila í Kína. Ég hef spilað mikið bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum en þetta var fyrsta tónleikaferðin til Asíu. Við vorum þar í viku og áttum að spila 4 tónleika á þeim tíma, en lentum svo í þeim óvenjulegu aðstæðum að fyrstu tónleikarnir okkar voru bannaðir. Ég er nú hvorki þekkt fyrir óróður í textum né djarfa framkomu þannig að það var mjög undarlegt að koma í „soundcheck“ og mæta þar manni frá kínverska ríkinu með margar blaðsíður af einhverjum pappírum á Kínversku sem bannaði okkur að setja hljóðfærin í samband. Við höfðum heyrt sögur af því frá öðru tónlistarfólki að vegabréfið hafi verið tekið af hljómsveitum í svipuðum aðstæðum þannig að ég var ekkert að mótmæla þessu mikið. En okkur var virkilega vel tekið í þeim borgum þar sem við spiluðum og það var frábært að sjá að það er markaður fyrir tónlistina mína í Kína, fólk var að biðja um óskalög og syngja með sem kom mér skemmtilega á óvart.

Eitthvað að lokum?

Já, ég stefni á að kynna plötuna hérna heima með tónleikahaldi víðsvegar um landið á haustmánuðum.

Spotify

www.hafdishuld.com  

Skrifaðu ummæli