„ÉG HEF ALLTAF SUNGIÐ OG HAFT ÁHUGA Á SÖNG“

0

Óperusöngkonan Sigríður Ósk Kristjánsdóttir kemur fram á tónleikum í kvöld í Seltjarnarneskirkju sem nefnast Sígild jól. Sigríður hefur alltaf sungið en hún byrjaði að læra söng á unglingsaldri! Sigríður segir að röddin heilli sig og hún geti túlkað allar tilfinningar, slæmar og góðar!

Albumm.is náði tali af Sigríði og svaraði hún nokkrum skemmtilegum spurningum um sönginn, hvaðan hún sækir innblástur og auðvitað tónleikana sem eru í kvöld.


Hvenær byrjaðir þú að hafa áhuga á óperusöng og hvernig kom það til?

Ég hef alltaf sungið og haft áhuga á söng en áhuginn á klassískum söng og óperunni þróaðist eftir að ég fór að læra söng sem unglingur í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Ég hafði alla tíð haft áhuga á leikhúsi, dansi og tónlist en þarna uppgötvaði ég hvernig tónlist og leikhús renna saman í eitt í óperulistforminu.

Hvaðan sækir þú innblástur fyrir þína listsköpun og hvað er það við óperusöng sem heillar þig?

Ég sæki innblástur í náttúruna og lífið, svo drekk ég í mig allskonar tónlist og sæki leikhús, óperu og danssýningar og stundum myndlistarsýningar.  Ég upplifði margt spennandi bæði þegar ég bjó í Berlín og í London.

Röddin heillar mig.  Við þekkjum fólk á röddinni, heyrum á blæbrigðum raddarinnar td. hvernig því líður. Engir tveir hafa eins tal eða söngrödd. Röddin hún getur túlkað allar tilfinningar líka þær sem orð ná ekki yfir. Hún getur verið svo sterk að hún nær yfir heila sinfóníuhljómsveit og líka ofurveik og viðkvæm.

Áttu þér uppáhalds lag til að syngja og hvaða lag er erfiðast að syngja?

Þessa dagana held ég mikið uppá ótrúlega fallega Ave Maríu eftir spænska tónskáldið William Gomez hún verður á dagskrá Sígildra jóla. Annars er svo ótrúlega margt spennandi til.   Ég nýt þess að syngja tónlist frá barokk tímabilinu þar fær maður frelsi til þess að spinna og búa til kadensur svipað og jazz söngvarar gera.  Þar er mikið af hröðum nótum á móti fallegum laglínum.  

Það getur verið erfitt en samt spennandi að syngja nútímatónlist þar sem maður getur ekki treyst eins mikið á meðleikinn eða hljómsveitina heldur bara á sjálfan sig, maður þarf að hafa margar rásir í gangi í einu í höfðinu ein að telja, önnur að hugsa um tóninn sem kemur næst, næsta um hreyfingu á sviðinu.   

Við hverju má fólk búast við á tónleikunum og hvaða lög eru á dagskrá?

Dagskráin er falleg og hátíðleg og inniheldur jólasálma, þjóðlög, jólalög íslensk og erlend ásamt gullmolum úr óperum m.a. efir Handel og Mozart. Innblástur að tónleikunum eru sveitakirkju tónleikar þar sem nándin er mikil og oft skapast mikil stemning, þess vegna er það orgelið sem leikur með okkur söngvurunum ásamt sellóinu sem gefur þessu dýpt.   Á dagskránni eru td. Hátíð fer að höndum ein, Ó helga nótt, Ave Maríru, Heims um ból, Lascia ch´io pianga eftir Handel ofl.  Með mér á tónleikunum eru æðislegir listamenn sem ég hef unnið mikið með það eru þau Hallveig Rúnarsdóttir sópran, Ágúst Ólafsson barítón, Lenka Mátéova orgelleikari og Sigurður Halldórsson sellóleikari. Á einhverjum tímapunkti syngjum við öll, líka hljóðfæraleikararnir.

Hvað er framundan hjá þér og eitthvað að lokum?

Núna er svo gaman að njóta hvers dags í aðventunni með 3 ára dóttur minni. Í söngnum eru mörg spennandi verkefni framundan hérlendis og erlendis m.a. tónleikar í London með einum fremsta strengjakvartett Englands Doric String Quartet, Messias í Langholtskirkju og dagskráin Barokk hjartans með Symphonia Angelica.

 Tónleikarnir Sígild jól hefjast kl 20.00 í kvöld 15. desember í Seltjarnarneskirkju.   Hægt er að fá miða á tix.is og við innganginn frá kl. 19.00.

Skrifaðu ummæli