„Ég er reyndar líka Jónsdóttir, kannski týnd systir?“

0

Bara Heiða var að senda frá sér nýtt lag og textamyndband. Lagið samdi Heiða fyrir mörgum árum þegar hún og vinkona hennar María Sólveig Gunnarsdóttir voru að vaka eina sumarnóttina til að fara í sólbað morguninn eftir. Stöllurnar stofnuðu band sem hét, The dirty g-string band, eða Skítugar strengjanærbuxur á íslensku.

„Á þessum tíma var Sunna Dóra vinkona okkar Mounten Dew stúlkan og var búin að fylla ískápinn hjá mér af þeim góða drykk. Lagið hefur líklega verið undir þónokkrum áhrifum svefngalsa og koffíndrykkju þegar það fæddist undir morgun.“

Nokkrum árum síðar endurskrifaði Heiða lagið í garðinum hjá frænku sinni sem var með fallegt útsýni yfir Heimaklett. Svo núna einhverjum árum seinna ákvað Heiða að leifa okkur hinum að heyra og ákvað að gefa það út núna í ár.

„Svo skemmtilega vill til að textinn kallast á við textann í þjóðhátíðarlagi þeirra Jónssona, ég er reyndar líka Jónsdóttir, kannski týnd systir? Lögin hljóma eins og þau séu eftir aðila sem hafa samið þau til hvors annars.“

Lagið heitir „Setjumst að Sumbli“ og er titill lagsins úr fyrsta þjóðhátíðarlagi Vestmannaeyja. Bróðir Heiðu tónlistarmaðurinn Daníel Jón Jónsson eða Danimal gerði textamyndbandið.

Skrifaðu ummæli