„Ég er alveg hættur að þykjast eitthvað, er bara eins og ég er”

0

Ljósmynd: Séð og heyrt.

Ómar Úlfur Eyþórsson er einn fremsti útvarpsmaður landsins en hann þenur raddböndin á útvarpsstöðinni X-inu 977. Ómar steig sín fyrstu spor á XFM árið 2004 en áhugi hans á tónlist leyddi hann á öldur ljósvakans. Ómar safnar vínyl plötum en það getur komið einhverjum á óvart að safnið hans inniheldur ekki einungis rokk plötur. Frank Sinatra, jazz og John Coltrane rata oft á fóninn en eitt er fyrir víst að Ómar hefur ástríðu fyrir tónlist og útvarpsmennskunni!

Albumm.is náði tali af Ómari og svaraði hann nokkrum skemmtilegum spurningum um útvarpsstarfið, tónlistina og lífið?


Hvenær byrjaðir þú í útvarpi og hvernig kom það til?

Ég byrjaði á útvarpsstöðinni XFM c.a 2004 eftir að hafa sent Matthíasi Má (Matta á rás 2)  þáverandi dagskrárstjóra póst sem endaði á setningunni “mundu að einhver gaf þér séns í byrjun”. Matti sagði mér einhvertímann að þessi setning hafi orðið til þess að hann ákvað að prufa mig. Ég hef alla tíð verið ægilegur músikáhugamaður og það var ástæða þess að mig langaði í útvarp. Önnur ástæða var sú að þegar maður var að smíða utandyra,  blautur innað beini, ískaldur, með Peltorinn á eyrunum jafnvel í febrúar þá fékk maður sterklega á tilfinninguna að útvarpsmennska væri þægileg innivinna sem að hún sannarlega er.

Hvað er það við starfið sem heillaði þig í byrjun og hver af þínu mati er besti útvarpsmaður allra tíma?

Tónlistin heillaði mig við starfið í byrjun. Að vera að vinna við það að spá í tónlist og miðla henni. Það eru miklir töfrar í því sem að heilla mig ennþá. Tónlist er ekkert annað en tilfinningar í hljóði, góðar, slæmar, glaðar, daprar. Það er endalaust hægt að vinna með það í útvarpi. Tónlist er mér svo lífsnauðsynleg, ég verð að heyra tónlist á hverjum degi. Ég hef rætt þetta við fólk sem notar tónlist allt öðruvísi en ég geri, fólk sem fer í gegnum heilu dagana án þess að heyra lag! Lífið er lag! Það er til gríðarlegt magn af flottu útvarpsfólki. Ég vann í nokkur ár með Hemma Gunn, það var ævintýralegt. Jón Gnarr hefur alltaf verið frábær og Vera Illugadóttir er í meistaradeildinni. KK vildi ég helst fá heim til að lesa fyrir mig kvöldsögu. Svo er það nú þannig að þegar maður heyrir í einhverjum detta í gírinn í loftinu  þá er það svo geggjað áheyrnar. Þorkell Máni t.d opnaði Harmageddon á þriðjudagsmorgun á þann hátt að maður beið í bílnum og kláraði innkomuna.

Þú ert á Xinu 977 guðfaðir rokksins, ert þú mikill rokkari og hvaða plötu færðu aldrei leið á?

Minn grunnur er alltaf í rokkinu og heilt yfir er tónlistin sem að ég sæki mest í. Þetta með guðfaðir rokksins er ákveðinn myllusteinn um háls. Ákveðinn hópur “rokkara” er afskaplega lokaður fyrir allri annarri tónlist en rokki og það get ég illa tengt við. X-977 hefur t.d alltaf spilað mikið rokk en í den, þegar að rauða stjarnan (Þossi) og Rödd Guðs (Jón Atli) voru á Xinu þá var alls konar tónlist á Xinu, elektrónísk danstónlist og fleira. Fólk á það til að gleyma því. Ég hlusta rosalega mikið á annað en rokk líka. Ég safna plötum með Frank Sinatra og hlusta mikið á jass heima. Ég hlusta á tónlist byggða á skapinu sem að ég er í. Ég verð að fara að byrja með podcast til að fjalla um alla þá tónlist sem að ég fjalla ekki um á Xinu. Stundum er ég í Pantera skapi og stundum vil ég bara John Coltrane. Ég fæ aldrei leið á September Of My Years með Frank Sinatra. Iður til fóta með Þeyr og Geislavirkum Utangarðsmanna. Það er ekki hægt að velja bara eina.

Hvað er það sem gerir góðan útvarpsmann og hefur þú breyst eitthvað í gegnum árin sem útvarpsmaður?

Ástríða gerir útvarpsmann góðan. Ástríða hrífur mann alltaf með sér. Það er það nákvæmlega sama og þegar maður er að horfa á hljómsveit á sviði. Ef að hljómsveitinni finnst ekki gaman þá finnst engum gaman. Óli Palli hefur ástríðu fyrir tónlist, það skín í gegn um dagskrárgerðina hans. Doddi litli hefur það sömuleiðis, bara fyrir öðruvísi tónlist. Rúnar Róberts er geggjaður í hefðbundnara útvarpi en því sem að ég er að gera. Harmageddon bræður hafa ástríðu fyrir málefnum líðandi stundar. Vera Illugadóttir hefur ástríðu fyrir sögunni. Þessvegna hlustar einhver á þetta fólk.

Ég hef breyst mikið sem útvarpsmaður. Í upphafi var ég miklu hefðbundnari en ég er í dag. Spilaði tónlist og sagði mikið af sögum tengdri tónlistinni ekki sem að ég las af netinu eða Wikipedia heldur í bókum og tímaritum. Ég tek sjálfan mig ekki jafn alvarlega í dag, ég bulla meira og nota óhikað atriði og mola úr eigin lífi sem dagskrárefni ólíkt mörgum. Það hafa nefnilega ótrúlega margir lent í því sama og pælt í því sama og þú sjálfur. Það sem að fólk tengir við kveikir í því. Ég er alveg hættur að þykjast eitthvað, er bara eins og ég er. Stundum er það alveg glatað en stundum er það líka alveg geggjað. Ég hef fengið tækifæri til að þróast á Xinu. Ég er ekki endilega viss um að ég hefði fengið það tækifæri annarsstaðar. Það hefur stundum átt að troða Xið niður, opnaðar hafa verið aðrar stöðvar, jafnvel innan sama fyrirtækis…. En X-ið 977 verður ekki drepið!

Hvað er þitt eftirminnilegasta augnablik í loftinu og hefur aldrei orðið algjört “panikk”?

Það er svo sem ekki eitt augnablik sem að stendur uppúr. Reyndar var slökkt á hljóðnemanum í fyrstu tveimur kynningunum mínum, þá hélt ég að það myndi líða yfir mig. Það var ákveðið panikk. Þetta hljómar háfleygt en fyrir mér er útvarpsmennska performance án þess að þykjast. Maður er að koma fram og þegar maður nær að grípa ölduna og maður finnur þáttinn virka, maður fær feedback og pepp frá hlustendum þá er það einhver besta tilfinning ever. Og þetta gerist allt í rauntíma þeas ef maður er á staðnum, er í loftinu. Ég vona að flestir sem að starfa við útvarp þekki tilfinninguna.

Ómar fær til sín mikið af góðum gestum. Hér er hann ásamt Rakel Mjöll úr hljómsveitinni Dream Wife.

Hvar sérð þú útvarpsmiðilinn eftir sirka 20 ár og eitthvað að lokum?

Það er mikil breyting í tónlistarbransanum, það mun á einhvern hátt skila sér inn í útvarp. Veit svo sem ekki hvernig. Útvarp hefur staðið af sér margar skærur og ástæðan er , held ég, margt að þessu sem að ég sagði hér fyrir ofan. Þú finnur öll góðu lögin á Spotify en það er samt engin ástríða. Mikið af fólki sem að er að gera flotta hluti í podcasti, margt af því er líka notað sem dagskrárefni í útvarpi og það á eftir að aukast. Mikið af útvarpsfólki framtíðarinnar er að stíga sín fyrstu skref í podcasti sem er frábært.

Það er gott að glotta. Vertu með góðæri í hausnum!

Ómar er í loftinu á X-inu 977 alla virka morgna kl. 07:00 – 09:00 og alla virka daga kl. 12:00 – 16:00. Hægt er að hlusta á X-ið á netinu hér.

Skrifaðu ummæli