„EF ÁHORFENDUR UPPLIFA NÁND, TILFINNINGALEGA TENGINGU OG SAMHLJÓM ER ÉG SÁTT“

0

Tónlistarkonan Fabúla fagnar um þessar mundir 20 ára tónlistarferli sínum með stórtónleikum í Gamla Bíói í dag þann 30. Nóvember. Hún er þekkt fyrir ævintýralegar sviðsetningar og uppákomur á tónleikum sínum og verða þessir afmælistónleikar engin undantekning.

Albumm.is náði tali af Fabúlu og svaraði hún nokkrum skemmtilegum spurningum um tónleikana og ferilinn!


Hvernig tilfinning er það að halda 20 ára afmælistónleika?

Mig langaði að fagna þessum áfanga, þessari tónlistarvegferð sem hefur gefið mér svo margt. Efst í huga mér er þakklæti fyrir öll magísku augnablikin sem tónlistin hefur veitt mér og þakklæti fyrir alla þá dásamlegu einstaklinga sem ég hef kynnst á þessari leið, fengið að skapa með og tengjast.  Það er fátt dýrmætar en einmitt það, fólkið sem er manni samferða, sem maður tengist sterkum böndum og fer á flug með.

Þegar þú lítur yfir farin veg, hvað stendur upp úr og hvar sérðu þig eftir 20 ár?

Það sem stendur uppúr er einmitt þetta, töfrarnir og tengingin. Þegar ég var barn velti ég lítið fyrir mér hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Ég var dreymin og naut augnabliksins. Ég hafði hins vegar sterka tilfinningu fyrir því að “nánd” væri það sem öllu máli skipti. Nánd við einhvern, sterk tenging, var það sem ég sá fyrir mér, þá sjaldan ég horfði inn í framtíðina. Og það er einmitt þessi nánd, sem skiptir mig öllu máli í dag, við fólkið í kringum mig og í starfi mínu, bæði sem tónlistarkona og leikkona. Það er hún sem er drifkraftur minn. Án þess að úr verði tenging, samhljómur, nánd við áhorfandann, er tónlistin og leiklistin fyrir mér lítils virði.  – Og ég veit að þetta verður það sem mun skipta mig mestu máli ennþá, eftir 20 ár.

Er ekkert erfitt að velja hvaða lög þú ætlar að flytja á tónleikunum?

Tónleikarnir nálgast og enn eru lög að minna á sig og vilja vera með. Meðleikarar mínir verða að vera ansi þolinmóðir, því ég get skipt um skoðun á síðustu stundu. Í stórum dráttum er þó lagalistinn tilbúinn. Það var þó alls ekki einfalt að velja. Sum laganna á fyrstu plötunni td. hef ég ekki flutt lengi og mig langaði að flytja svo mörg þeirra. En tónleikarnir verða að vera hæfilega langir svo við missum ekki flugið og ég passa það, að við lendum saman sátt og vakandi.

Við hverju má fólk búast á tónleikunum og eitthvað að lokum?

Markmið mitt er að við náum tengingu, þau sem koma og gefa okkur af nærveru sinni og við á sviðinu. Við munum fara inn í ólíka heima saman og velta fyrir okkur alls kyns mannlegum upplifunum, spurningum og þrám. Sviðshönnuður, vídeóhönnuðir og ljósahönnuður munu dýpka, auðga og lita þessa heima með okkur. Sumir heimanna verða angurværir, aðrir spennandi eða skondnir.  Ef áhorfendur upplifa nánd, finna tilfinningalega tenginu og samhljóm er ég sátt. Ef þeir fara út og finnst við hafa gefið þeim eitthvað, er ég ánægð. Ég er fullviss um að þau munu gefa okkur á sviðinu mikið.  

Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl: 21:00 og hægt er að nálgast miða á Tix.is

Skrifaðu ummæli