Dúkkulísurnar hringja inn jólin: „Við erum enn sömu rokkhundarnir“

0

Dúkkulísurnar voru að senda frá sér brakandi ferskt jólalag og plötu en lagið og platan ber heitið „Jól sko!” Magni Ásgeirsson ljáir laginu einnig rödd sína og er útkoman virkilega glæsileg. Einnig var að koma út myndband við lagið og ætti það svo sannarlega að koma öllum í jólagírinn. Sveitin vann Músíktilraunir árið 1983 og hver man ekki eftir „Svarthvíta Hetjan Mín” eða „Pamela” en lögin hafa fylgt þjóðinni allt frá því að þau komu út ásamt mun fleiri slögurum! Dúkkulísurnar eru heldur betur á blússandi siglingu um þessar mundir en þær eru ansi iðnar við spilamennsku og er heldur betur margt á döfinni!

Albumm.is náði tali af sveitinni og svöruðu þær nokkrum skemmtilegum spurningum.


Hvað segið þið gott og hvað er verið að bralla akkúrat núna?

Við erum enn að gleðjast yfir plötunni okkar, Jól sko! Svona á milli þess sem við þeytumst á milli búða og boða. Við elskum þennan tíma og kunnum að njóta með fjölskyldum okkar.

Hér má sjá Dúkkulísurnar í kringum 1985.

Hefur tónlistaráhuginn ykkar eitthvað breyst í gegnum tíðina og hvernig er að hlusta á eldri lög eins og t.d Svarthvíta hetjan mín?

Tónlistarsmekkurinn hefur eitthvað breyst í gegnum tíðina en við erum enn sömu rokkhundarnir. Elskum gott þungarokk. En við höfum róast, mikil ósköp og tónlistin sem við hlustum á í dag er etv fjölbreyttari, allt frá klassískri yfir í hressandi rapp. Svarthvíta hetjan hljómar bara ágætlega, enn þann dag í dag. Hún hefur nú líka breyst í tímans rás en við höfum alltaf jafn gaman af því að spila hana. Erum t.d. nýbúnar að taka Svarthvítu upp acoustic, bara kassagítar og söngur og það var bara skemmtilegt.

Þið eruð ansi duglegar við spilamennsku, er alltaf jafn gaman að koma fram og hvaða lag er skemmtilegast að taka á tónleikum?

Já, okkur finnst alltaf jafn gaman að koma fram og spila tónlistina okkar. Það er hrikalega gaman að spila jólalög og halda jólatónleika, það er einhvern veginn alveg einstök stemning. Mjög nærandi. Ég hugsa að Pamela sé okkar uppáhalds lag – við komumst í það minnsta alltaf í stuð þegar við spilum það.

Hvernig var að vera heimsfræg á Íslandi “in the 80´s” og bjuggust þið við þessum rosalegu vinsældum?

Haha – þetta var nú bara skemmtilegur tími. Við vorum auðvitað ungar á þessum tíma og þetta kom okkur mjög á óvart á sínum tíma. Hlutirnir gerðust hratt og oftast af sjálfu sér og stundum fórum við fram úr okkur. Þannig að þetta var mjög lærdómsríkur tími, svo ekki sé meira sagt.

Nóg er um að vera hjá Dúkkulísunum en þið voruð að senda frá ykkur jólaplötu. Er platan búin að vera lengi í vinnslu og hvernig kom til að þið hentuð í eitt stykki jólaplötu?

Platan er búin að vera í tvö ár í vinnslu. Það er nefnilega ekkert svo langt síðan að þessi hugmynd skaust upp á yfirborðið. Þá hlógum við nú bara að þessari hugmynd en svona geta nú hlutirnir breyst. Við unnum þessa plötu að mestu fyrir norðan, í Hofi á Akureyri. Vorum þar í góðu yfirlæti og í frábæru samstarfi við Þorvald Bjarna og hans fólk. Það hentaði okkur vel að hittast svona á miðri leið, en tvær af okkur búa austur á Egilsstöðum. Og svo vorum við svo heppnar að fá bæði flotta tónlistarmenn til liðs við okkur, Villa á trompetinn, Grétu Salóme á fiðluna, Philip á saxafóninn og svo syngja þeir Pálmi og Magni með okkur. Við erum alsælar með afraksturinn.

Hvað er framundan hjá ykkur og eitthvað að lokum?

Framundan er að bara að spila meira og vera meira saman. Jafnvel að taka meira upp, hver veit. Og auðvitað halda tónleika á næstu jólum, það er nú engin spurning!

Spotify

Skrifaðu ummæli