DREYMDI UM AÐ SYNGJA EINS OG ARETHA FRANKLIN, PEGGY LEE OG ELLA FITZGERALD

0

Nóg er um að vera hjá tónlistarkonunni Stínu Ágústsdóttur en hún sendi fyrir skömmu frá sér plötuna Jazz á Íslensku en platan var tilnefnd til íslensku tónlistarverðlaunanna í mars s.l sem besta plata í jazz- og blúsflokki. Framundan eru þrennir tónleikar og ætlar Stína og félagar að tjalda öllu til!

Albumm.is náði tali af þessari hæfileikaríku tónlistarkonu og svaraði hún nokkrum skemmtilegum spurningum um jazzinn, sönginn og komandi tónleika svo sumt sé nefnt.


Hvenær byrjaðir þú að hafa áhuga á djazz tónlist og söng og hvernig kom það til?

Ég byrjaði að hlusta á jazz á unglingsárunum. Ég sat límd við útvarpið þegar þættir sem spiluðu jazz og soultónlist voru í gangi svo ég gæti kannski náð einhverju á kassettu. Mig dreymdi um að geta sungið eins og Aretha Franklin, Peggy Lee og Ella Fitzgerald og tók mig stundum upp í laumi að syngja inn á lög sem ég hafði tekið upp.

Ég var í barnakór í Melaskóla og söng í frístundum alveg þangað til ég byrjaði í Söngskóla Reykjavíkur eftir að hafa útskrifast sem véla- og iðnaðarverkfræðingur frá HÍ. Eftir það var ekki aftur snúið og verkfræðin fékk að víkja fyrir tónlistinni.

Svo syng ég reyndar ekki bara jazz. Ég er í raftónlistardúett sem heitir AXXE líka og við vorum að gera plötusamning við Nylo music í New York og það er væntaleg smáskífa í haust, t.d.

Þú gafst út plötuna „Jazz á Íslensku“ í desember í fyrra, var hún lengi í vinnslu og er hún frábrugðin fyrri verkum?

Jazz á íslensku er safn sígildra jazzlaga og þjóðlaga með íslenskum textum eftir mig og er frábrugðin öðru efni sem ég hef gefið út að því leyti að hún er á íslensku. Textarnir tóku sinn tíma í vinnslu en undirbúningur fyrir upptökur var frekar „straight forward.” Ég þurfti reyndar að fresta upptökum um hálft ár þremur dögum fyrir settan tíma af því að ég var lögð inn á sjúkrahús, hætt að geta gengið og hreyft mig útaf gigt. Við tókum plötuna upp í september 2016 og svo kom hún út í desember.

Hvaðan sækir þú innblástur fyrir þína tónlistarsköpun og hverjir eru þínir helstu áhrifavaldar?

Innblástur sæki ég mikið í aðra tónlist, fólk í kringum mig, bækur, kvikmyndir, tilfinningar … lífið bara. Ég skrifa mikið af textum og safna orðum og setningum í símann minn til að nota síðar.

Mínir helstu áhrifavaldar? Ég hreinlega veit það ekki. Ég hlusta á allt og er mjög virk í því að hlusta á nýja tónlist líka. Ég gæti nefnt Carmen McRae og Monica Zetterlund ef ég ætti að finna áhrifavalda í sungnum jazz.

Jazzhátíð Reykjavíkur er á næsta leiti, hverskonar hátíð er það og fyrir hvern er hátíðin?

Jazzhátíð Reykjavíkur er fyrir alla sem hafa áhuga á góðri tónlist. Fólk verður oft hrætt þegar það heyrir orðið jazz en það eru svo svakalega margar tegundir af jazzi til og einmitt á svona hátíðum fær maður að heyra alls konar tónlist og skemmtileg verkefni sem fólk hefur verið að vinna í og frumflytur á hátíðinni. Ég verð eitthvað viðriðin hátíðina í ár en kem ekki fram þetta sinnið.

Þú ert að halda þrenna tónleika á næstunni, við hverju má fólk búast á tónleikunum?

Þetta verða þrennir ólíkir tónleikar. Fyrst kem ég fram með Andrési Þór gítarleikara á Freyjujazz tónleikaröðinni í Listasafni Íslands en þar munum við spila lög og texta eftir konur. Aðrir tónleikarnir verða í Norræna húsinu og hluti af tónleikaröð sumarsins en þar verð ég með Agnari Má píanóleikara og Valda Kolla bassaleikara og dagskráin verður ansi blönduð, eitthvað á íslensku, eitthvað á ensku og sænsku og ekki einungis um klassískan jazz að ræða. Svo verð ég á Jómfrúnni um verslunarmannahelgina með næstum sama bandi og var á plötunni minni. Þar má búast við trylltu stuði!

Eitthvað að lokum?

Ég verð með Kítón snappið 24. júlí konuritonlist og fólk getur fylgst með mér gera mig að fífli og segja óviðeigandi brandara!

Stína Ágústsdóttir kemur fram á eftirfarandi tónleikum:

25. júlí, kl 12:30 – 13:00: Tónleikaröðin Freyjujazz í Listasafni Íslands, spilar lög eftir konur með Andrési Þór gítarleikara.
26. júlí, kl 20:00 – 21:00: Tónleikaröð Norræna Hússins, blönduð jazztónlist með Agnari Má píanóleikara og Valda Kolla bassaleikara.
5. ágúst, kl 15:00: Sumarjazz á Jómfrúnni, Jazz á íslensku með fullu bandi.

Skrifaðu ummæli