„Draumkenndur og þokukenndur óður til hljóðfæris sem hefur fylgt mér lengi”

0

Tónlistarmaðurinn Bistro Boy eða Frosti Jónsson eins og hann heitir réttu nafni sendir frá sér plötuna Píanó í þokunni þann 1. október næstkomandi. Frosti er einn fremsti tónlistarmaður landsins en hann lýsir plötunni sem „draumkenndur og þokukenndur óður til hljóðfæris“ sem hefur fylgt sér lengi. Í dag frumsýnir Albumm glæsilegt myndband við lagið „Ljósbrot” og á Sigrún Hreins allan heiðurinn af því!

Albumm.is náði tali af Frosta og svaraði hann nokkrum spurningum um plötuna, myndbandið og hvað er framundan svo sumt sé nefnt.


Er platan Píanó í þokunni búin að vera lengi í vinnslu og er platan frábrugðin fyrr verkum?

Ég byrjaði að vinna plötuna seinni part árs 2017. Ég held að nálgunin og það hvernig ég vann plötuna skilji að þessa plötu og eldri plötur en ég setti mér ákveðinn ramma þegar ég var að byrja á þessari plötu einkum það sem snéri að hljóðheiminum, en á þessari plötu er ég að vinna með og endurvinna mikið af gömlum sömplum sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina. Þá kemur píanó við sögu í flestum lögunum í einni eða annari mynd en það er ekki alltaf augljóst, síðan þróast þetta bara eins og gengur í einhverjar áttir og leyfi því að gera það til að halda þessu dálítið organísku. Hvort það hefur tekist eða ekki verða hlustendur bara að meta.

Hvað er það við tónlist sem heillar þig og hvaðan sækir þú innblástur fyrir þína tónlistarsköpun?

Tónlist er náttúrulega bara heimsins besta meðal sem bæði friðar hugann og örvar. Minn innblástur kemur héðan og þaðan, en ég er ekki endileg að hlusta á samskonar músík og ég er að búa til sjálfur. Trúlega er þetta einhver hrærigrautur af tónlist og hægt að nefna marga svo sem Underword, Aphex Twin, Frank Zappa, Jean Michelle Jarre, Pink Floyd, Brian Eno, Boards Of Canada og margir fleiri. Svo er líka fullt af íslensku tónlistarfólki að gera flotta hluti sem mættu fara hærra.

Hvernig mundir þú lýsa Píanó Í Þokunni í einni setningu?

Draumkenndur og þokukenndur, óður til hljóðfæris sem hefur fylgt mér lengi.

Út var að koma myndband við lagið „Ljósbrot.” Hver er hugmyndin á bakvið það og er það búið að vera lengi í vinnslu?

Þetta myndband er búið að vera í vinnslu í einhvern tíma en snillingurinn hún Sigrún Hreins á heiðurinn af þessu myndbandi. Ég gaf henni frjálsar hendur með þetta myndband en með ákveðna referenca í þema plötunnar og stemmninguna sem ég var með í hausnum. Útkoman er alfarið hennar og ég er bara mjög sáttur!

Hvenær kemur platan úr og á að fylgja henni eftir með tilheyrandi tónleikahaldi?

Platan kemur út 1. október og ég mun fylgja henni eftir með tónleikum á Airwaves núna í Nóvember. Svo kemur bara í ljós hvað ég geri meira, en það verður eflaust eitthvað.

Hvað er framundan hjá þér og eitthvað að lokum?

Það er ekkert annað framundan en að halda áfram að búa til tónlist og hlusta á tónlist og njóta þess að vera til. Svo fer alltaf einhver tími í að kynna og gefa út íslenska raftónlist með félögum mínum í Möller Records. Annars er lífið bara yndislegt, er það ekki?


Hægt er að forpanta plötuna á Bandcamp

Bistroboy.net

Mollerrecords.com

Skrifaðu ummæli