DR. GUNNI

0
Gunnar Lárus Hjálmarsson Dr. Gunni sem gefur út Stuð vors lands - bók um sögu dægurtónlistar á Íslandi

Gunnar Lárus Hjálmarsson Dr. Gunni sem gefur út Stuð vors lands – bók um sögu dægurtónlistar á Íslandi

Gunnar Lárus Hjálmarsson eða Dr. Gunni eins og flestir þekkja hann er einn helsti tónlistarspekúlant landsins. Dr. Gunni hefur gert ótrúlega margt eins og t.d. gefið út bækur, stjórnað Popppunkt og verið í mörgum vinsælum hljómsveitum. Nú er komið að mjög svo metnaðarfullum sjónvarpsþáttum sem bera nafnið Popp Og Rokksaga Íslands þar sem verður farið yfir tónlistarsögu okkar Íslendinga frá landnámi til dagsins í dag. Dr. Gunni kom í viðtal hjá Albumm og sagði hann okkur frá nýju sjónvarpsþáttunum, fyrstu hljómsveitunum sem hann var í  og hvað er framundan svo fátt sé nefnt.


Hvenær og hvernig byrjaði þinn tónlistaráhugi og hver var fyrsta hljómsveitin sem þú varst í?

Tónlistaráhuginn byrjaði þegar ég fékk Bítlaæði um það bil átta árum eftir að Bítlarnir hættu. Svo datt maður í pönk og nýbylgju og það var algjörlega frábær tími. Fyrsta hljómsveitin hét Dordinglar og kunni bara þrjú lög sem voru eftir mig, þar af eitt sem ég söng og heitir Ég Er Aumingi. Hin voru ósungin. Við æfðum líka Sultans Of Swing með Dire Straits. Eftir það kom pönkhljómsveitin F/8 og síðan nýbylgjuhljómsveitirnar Geðfró og Beri-Beri sem Sigga Beinteins söng með. Þetta voru fyrstu hljómsveitirnar hennar. Svo byrjaði S.H. Draumur og kom fyrst fram á fyrsta Músíktilraunakvöldinu í sögunni árið 1982. Við komumst ekki áfram en héldum samt áfram.

Nú hefur þú verið í nokkrum hljómsveitum  eins og kom fram hér að ofan er einhver ein hljómsveit sem þér finnst standa upp úr?

Þetta er allt ágætt stöff en ætli S.H.Draumur sé ekki það ferskasta og besta, enda var maður saklaus, æstur í viðurkenningu og frjór.

gunni 1

Ef þú værir ekki að fást við tónlist hvað værir þú þá að gera og áttu þér einhverja leynda hæfileika?

Ég er einstaklega óhandlaginn en ég get samt ýmislegt þótt ég eigi enga leynda hæfileika. Maður er nú bara ennþá að pæla í því hvað maður eigi að gera þegar maður verður stór.

Nú samdir þú spurningarnar fyrir Popppunkt var ekki mikil vinna að sanka að sér öllu þessu efni og tók það ekki langan tíma?

Jú, það tók slatta tíma og er mikil vinna. Sérstaklega að reyna að finna einhverja ferska fleti á þessu og reyna að vera sniðugur og koma á óvænt.

Hvernig finnst þér Íslenska tónlistarsenan í dag og hvað ertu að hlusta á?

Tónlistarsenan er gríðarlega góð og mikið að gerast. Margt fínt en ekkert kannski æðislegt, enda þarf mikið til að gleðja svona gamlan fret eins og mig sem er búinn að heyra allt hundrað sinnum. Verð samt að segja að platan með Dj Flugvél Og Geimskip er lang besta platan í ár!

Nú ert þú einn helsti tónlistarspekúlant Íslands, finnst þér eitthvað tónlistartímabil bera af á Íslandi og ef svo er af hverju það?

Já, seventísið er einstaklega flott. Þá verður eiginlega íslenskt popp til af því fiftís og sixtís voru svona frekar öreigaleg tímabil, alla vega þegar kemur að útgáfu. Í seventís var íslenska poppið að slíta barnsskónum og margir framúrskarandi listamenn að gera frábæra tónlist. Nægir að nefna Megas, Stuðmenn, Óðmenn, Spilverkið og Gunna Þórðar. Mikil fjölbreytni og slefandi ferskir straumar! Svo var það náttúrulega Rokk í Reykjavík tímabilið það sem ég ólst upp við og Fræbbblarnir, Purrkur Pillnikk og Þeyr hin heilaga þrenning fyrir manni.

gunnipp

Ef það væri heimsendir á morgun hvaða plata yrði sett á fóninn og af hverju sú plata?

Ég hef alltaf séð mig fyrir mér steikjast í kjarnorkusprengju við lagið Search & Destroy með The Stooges á hæsta mögulega styrk. Lagið er af plötunni Raw Power, svo ég myndi spila hana ef heimsendir yrði á morgun.

Nú ert þú að koma með glænýja sjónvarpsþætti um Íslenska Popp og Rokksögu, eru þeir búnir að vera lengi í vinnslu og hvað getur þú sagt mér um þættina?

Við byrjuðum í upphafi síðasta árs að spá í þessu. Við höfum síðan tekið einhver 200 viðtöl. Þetta verða 10 þættir sem reka söguna í tímaröð. Við byrjum við landnám og endum á deginum í dag. Við reynum að draga fram tíðarandann og hvað popparar hvers tíma voru að spá. Þættirnir heita Popp og rokksaga Íslands og ég er að vona að þetta verði bestu þættir sem gerðir hafa verið!

Þú ert mikill tónlistargrúskari ertu alltaf að finna eitthvað nýtt og kom þér eitthvað á óvart þegar þú varst að vinna þættina?

Nei ekki beint, nema hvað tónlistarfólk er upp til hópa gott og skemmtilegt fólk. Það var rosalega skemmtilegt að tala við allt þetta fólk.

Hvað er framundan hjá Dr. Gunna?

Nú það eru þessir þættir og svo verð ég fimmtugur 7. Október næstkomandi og þá kemur út platan Dr. Gunni í Sjoppu. Það er tíu laga tíu tommu plata sem kemur út í aðeins 50 eintökum. Þarna er allskonar músík eftir mig og ég fæ til dæmis Siggu Beinteins, Shady Owens og Steinunni Dj. Flugvél til að syngja með mér. Svo veit ég ekkert hvað gerist næst!

Popp og Rokksaga Íslands hefur göngu sína á sunnudaginn 27. September kl 20:20 á Rúv:

http://www.ruv.is/thaettir/popp-og-rokksaga-islands

Dr. Gunna Blogg:

https://drgunni.wordpress.com/

 

 

 

 

Comments are closed.