Django dagar í Reykjavík: „Fólk má búast við mjög blönduðu prógrammi“

0

Django dagar í Reykjavík er ný tónlistarhátíð þar sem heiðri belgíska gítar frumkvöðulsins Django Reinhardt er haldið á lofti. Dagana 18. og 19. janúar munu innlendir og erlendir flytjendur fylla Iðnó af eldheitum sígauna swing tónum. Von er á sérfræðingum í tónlist Django Reinhardt alla leið frá meginlandinu, en það eru þeir Robin Nolan sem er íslendingum góðkunnur og Mozes Rosenberg en hann er af hinni margrómuðu Rosenberg ætt tónlistarmanna og eru þar nokkrir ættliðir af fanta flottum gítarleikurum innanborðs.

Leifur Gunnarson er einn af skipuleggjendum hátíðarinnar en Albumm.is náði tali af honum og svarði hann nokkrum skemmtilegum spurningum um þessa forvitnilegu hátíð.


Hvað er Django dagar í Reykjavík?

Django dagar í Reykjavík er ný tónlistarhátíð þar sem heiðri Belgíska gítar frumkvöðulsins Django Reinhardt er haldið á lofti. Við eigum von á tveimur miklum sérfræðingum í gítarstíl Django en þeir eru Mozes Rosenberg og Robin Nolan. Hinir flytjendur hátíðarinnar eru að mestu íslenskir en þeir eru Dan Cassidy (fiðla), Unnur Birna Björnsdóttir (fiðla og söngur), Sunna Gunnlaugs (píanó), Gunnar Hilmarsson (gítar), Jóhann Guðmundsson (gítar), Leifur Gunnarsson (kontrabassi), Greta Salóme (fiðla) og Haukur Gröndal (saxófónn og klarinett).

Hvernig kom upp sú hugmynd að halda Django festival í Reykjavík?

Það hefur ekki farið mikið fyrir sígaunajazzinum upp á síðkastið og við þrír sem að þessu stöndum vorum að velta fyrir okkur hvað væri hægt að gera til að blása smá lífi í þessa senu. Við þrír, í Tríói Gunnars Hilmarssonar höfum spilað mikið undanfarin ár og fórum m.a. til Amsterdam fyrir ári og spiluðum þar á hátíð í svipuðum stíl. Eftir þá hátíð fór vinnan af stað fyrir alvöru, að halda Django Daga í Reykjavík. Helsti staðurinn sem bauð upp á svona af og til var Kaffi Rósenberg sem var og hét og svo var hátíð á Akureyri sem hér Django Jazz Festival, en síðasta hátíðin var haldin 2008. Helstu kindilberar þessa stíls á Íslandi var hljómsveitin Hrafnaspark frá Akureyri.

Við hverju má fólk búast á festivalinu?

Fólk má búast við mjög blönduðu prógrammi en rauði þráðurinn er gítarstíll Django Reinhardt. Robin Nolan, sem er breskur, sækir aðeins út fyrir hefðbundna sígauna efnisskrá. Hann er með aðeins af popplögum á dagskránni sem hann stílfærir. Mozes Rosenberg sem er meira sígildur sígauna spilari enda af sígaunaættum. Allir flytjendur munu svo lita dagskránna með sínum sérkennum og úr verður sýning þar sem fólk verður hrist saman í músíkölskum bræðingi.

Hvar og hvenær fara herlegheitin fram?

Hátíðin fer fram föstudag og laugardag, 18. og 19. janúar í Iðnó. Tónleikar kvöldsins hefjast kl 20:30 bæði kvöldin og svo verðum við með stutta dagskrá fyrir krakka kl. 15 á laugardegi einnig í Iðnó. Miðasala fer fram í tix.is og hægt er að ná sér í miða á stakt kvöld eða fyrir báða dagana, en það er ókeypis á krakkaprógrammið.

Hægt er að nálgast miða á hátíðina á Tix.is

Djangodagar.com

Skrifaðu ummæli