DJ. FLUGVÉL OG GEIMSKIP

0

geim 5

Dj. Flugvél Og Geimskip hefur vakið verðskuldaða athygli að undanförnu en hún var að senda frá sér plötuna Nótt Á Hafsbotni. Steinunn Harðardóttir kom í mjög skemmtilegt viðtal hjá Albumm.is og sagði hún okkur frá nýju plötunni, snák sem gæti mögulega borðað sjálfan sig og hvaðan hún fær innblástur fyrir tónlist sína, svo fátt sé nefnt.


Hvað ertu búin að vera að gera tónlist lengi og hvernig byrjaði það?

Ég byrjaði að gera tónlist þegar ég var eins árs, þá gerði ég rapptónlist. Þegar ég var fimm ára eignaðist ég kassettutæki og þá gat ég tekið upp lög. Þrettán ára eignaðist ég átta rása upptökutæki og eftir það fóru hjólin að snúast. Ég gaf út ZIP diska og kassettur með tónlist og svo hefur þetta undið uppá sig, nú eru komnir nokkrir geisladiskar og plata á leiðinni.

geim2

Hvernig tónlist býrðu til?

Það er ekki gott að lýsa tónlistinni sem ég bý til, en það er eitthvað í áttina að því að vera elektrónísk hryllingstónlist með geim-ívafi og draugasögum. Töffaralegar bassalínur, hressandi trommur, margbreytilegur söngur og framandi laglínur úr austri.

Nú hefur þú náð töluverðum vinsældum, kom það þér á óvart?

Það kemur mér ekki á óvart því mér finnst tónlistin sem ég geri mjög hressandi.

geim 4

Nú er nýja platan komin út var hún lengi í vinnslu?

Ég byrjaði á henni um veturinn í fyrra og kláraði hana núna í vetur. Hún er öll samin og tekin upp í mismunandi húsum uppi í sveit. Svo það má segja að það hafi tekið tvo vetur að gera hana en í rauninni ef maður raðar dögunum hlið við hlið sem það tók að gera plötuna, þá er þetta nær því að vera 3 – 5 vikur.

Ef það yrði gerð bíómynd um þig hver mundi leika þig og um hvað væri myndin?

Vósa! Ég veit ekki hver mundi leika mig! Ég vildi að það væri Helen Jairag Richardson bollywood leikkona! En myndin mundi örugglega fjalla um einhvern sem ráfar um heiminn í miklum hasar og stefnuleysi. Fornir vísindamenn og galdrakarlar kæmu við sögu, líka geimverur – og vonandi einhverjir mjúkir hundar. Stór og langur snákur mundi síðan enda á því að éta allt og alla upp til agna og mögulega sjálfann sig.

geim1

Hvaðan kemur nafnið Dj. Flugvél Og Geimskip og hvað er svona heillandi við geiminn?

Þegar ég byrjaði að spila var það sem dj. milli atriða á tónleikum í Norðurkjallara. Svo man ég nú því miður ekki hvernig restin af nafninu kom til, en ég hef alltaf verið heilluð af geimnum og framandi löndum. Tónlist getur hrifið mann með sér eitthvert lengst í burtu (t.d. út í geim), burt frá hinum grámóskulega og glataða hversdagsleika, en það geta flugvélar og geimskip líka gert.

Ég vona að tónlistin sem ég bý til hjálpi einhverjum að komast aðeins í burtu héðan úr venjulega heiminum okkar og ef hún gerir það þá virkar hún eins og best verður á kosið.

Geimurinn er risastór og mjög ókannaður, hann er allt! Hvað sem er gæti verið til í geimnum og enginn veit hvað hann er stór, kannski er hann endalaus og svo er hann líka framandi og fullur af lýsandi stjörnum.

Þegar maður fær leið á húsum, stólum, klukkum, dagatölum, ristuðu brauði o.s.frv. þá er ágætt að hugsa um geiminn eða fara þangað.

geim 4

Hvernig græjur finnst þér skemmtilegast að nota við tónlistarsköpun þína?

Mér finnst gaman að búa til tónlist með hinum ýmsu hljómborðum, til dæmis casio og Yamaha. Svo eru effektar eins og reverb, echo og distortion góðir. SP 404 og MPC 1000 eru svo tækin sem ég nota mest og ekki má gleyma Kaoss Pad. Það er líka gaman að spila á strá, glös og kirkju-orgel í sveitum.

Hvað verður þú að gera eftir 15 ár?

Það hef ég ekki hugmynd um sem betur fer! En það væri gaman að vera á flakki um heiminn eða geiminn, búa til tónlist, myndlist og kannski kvikmyndir.

Hvaðan færðu innblástur fyrir tónlistina þína?

Ég fæ innblástur frá því sem ég er með hugann við hverju sinni. Þessa dagana hlusta ég mikið á podköst í símanum mínum um sögu heimsins (hver sem hún nú er), gullgerðarlist og vísindi. Heimildarmyndir á youtube eru líka frábærar, allskonar þar um pýramídana, hafdjúpin og geiminn.

Svo eru partý með vinum líka mikill innblástur.

Hvað er framundan hjá Dj. Flugvél Og Geimskip?

Framundan er aðallega að gefa út nýju plötuna mína, „Nótt Á Hafsbotni“ á vínil, gera tölvuleik með Lomma, vídeó með Gullu Míu með framandi dýrum í aðalhlutverki, neðansjávar-útgáfutónleikar í Ágúst og svo ráfa eitthvað um heiminn og gá hvað hann hefur uppá að bjóða og auðvitað búa til meiri tónlist og vídeó og þannig.

https://www.facebook.com/djflugveloggeimskip

 

 

Comments are closed.