DJ FLUGVÉL OG GEIMSKIP OG TEITUR MAGNÚSSON LEIÐA SAMAN KRAFTA SÍNA Á HÚRRA 17. DESEMBER

0

tototo

Einn/Þriðji er fjöllistarverkefni Studio Festisvall og Børk, sem ætlað er að skoða samspil hönnunar, tón- og myndlistar. Þetta verður gert með fjölbreyttum viðburðum sem hefjast með tónleikaröð á Húrra.

Tónleikaröðin mun samanstanda af samkrulli tveggja tónlistarmanna eða hljómsveita sem munu semja og frumflytja nýtt sameiginlegt lag á tónleikum. Á fyrstu tónleikum verkefnisins koma fram Dj. Flugvél og Geimskip og Teitur Magnússon ásamt hljómsveit. Báðir aðilar eru að gera mjög spennandi hluti í sitt hvoru horninu svo það verður mjög forvitnilegt að sjá hver útkoman verður þegar þeim er ýtt saman í samstarf.

Í framhaldi verða viðburðir sem rýna í myndlist og hönnun þar sem samstarf hönnuða, myndlistarmanna og tónlistarfólks leggur grunninn að nýjum verkum og kann að stuðla að nýju samstarfi. En við erum rétt að byrja þetta verkefni svo það verður gaman að fylgjast með þróuninni á þessu samstarfi.

totototototo
„Hugmyndin sjálf kviknaði þegar við veittum því athygli hversu margir hönnuðir og myndlistarmenn eru einnig að vinna í tónlist og hversu sterk fjöllistarsena er í gangi. Eins er mikil samvinna þarna á milli og samheldni á milli greinanna sem má vel rækta enn lengra.“  Árni Már Erlingsson, skipuleggjandi Einn/Þriðji

Dj. Flugvél og Geimskip spilar fjöruga hryllings-raftónlist með geimívafi. Hressandi taktar og cool bassi skipa veigamikið hlutverk ásamt söng. Meðal áhrifavalda má nefna Joe Meek, Suicide, Asha Bhosle og Raymond Scott. Tónleikar með Dj. Flugvél og Geimskip skapa jafnan litríka, dularfulla og ævintýralega upplifun, þar sem töfrar og sögur leiða áheyrendur áfram.

Teitur Magnússon hefur í árin troðið upp með hinum ýmsu sveitum til að mynda Ojba Rasta, Justman og Fallegum mönnum. Nú um mundir kemur hann fram sem kapteinn á eigin flaggskipi! Ásamt fulltingi vina sinna sem og vina þeirra mun hann stíga á stokk og leika lög af sólóplötu sinni 27 sem kom út í desember í fyrra. Í bland við þann prísaða bálk laga munu gestir Húrra einnig heyra nýsamin og óheyrð lög sem og gljáfægðar gamlar perlur.

Ekki missa af þessum skemmtilega viðburði þar sem tveir af okkar forvitnilegustu listamönnum leiða saman krafta sína!

Miðasalan er í fullum gangi á Tix.is

Comments are closed.