DJ FLUGVÉL OG GEIMSKIP Á BLIKKTROMMUNNI, BÖRN OG UNGMENNI VELKOMIN

0

Dj. flugvél og geimskip er sólóverkefni listakonunnar Steinunnar Eldflaugar Harðardóttur. Tónlistin sækir áhrif í ótal heima og fjallar um óravíddir geimsins, drauga, drauma og leyndardóma hafdjúpanna svo eitthvað sé nefnt. Henni hefur verið lýst sem elektrónískri hryllingstónlist með geimívafi, sem samanstendur af fjörugum töktum, töffaralegum bassa og grípandi laglínum.

Dj. flugvél og geimskip gaf út fyrstu plötuna sína, Rokk og róleg lög, árið 2009 og árið 2013 gaf hún út plötuna Glamúr í geimnum sem fékk frábærar viðtökur hér heima.

Í júní árið 2015 kom síðan út þriðja hljóðversplata dj. flugvélar og geimskips sem ber nafnið Nótt á hafsbotni en þar fjalla lögin um hafdjúpin. Platan, sem fékk gríðargóða dóma, hlaut hin eftirsóttu Kraumsverðlaun. Jafnframt kom hún út í Bretlandi í desember 2015 og var valin ein af 50 bestu plötum ársins af Line of Best Fit. Nótt á hafsbotni er þyngri í spilun en Glamúr í geimnum, en taktarnir eru dansvænni og melódíurnar eru undir áhrifum frá austrænni tónlist, en um þessar mundir vinnur hún að upptökum á nýrri plötu sem alfarið verða á ensku.

Tónleikaröðin Blikktromman byrjaði haustið 2015 og hefur gengið vonum framar. Áhersla er lögð á að bjóða upp á tónleika með nokkrum af okkar fremstu tónlistarmönnum í því nána og gæðaumhverfi sem Kaldalón salur í Hörpu býður uppá. Eftir tónleikana gefst gestum kostur á að sitjast niður með drykk og útsýni yfir smábátahöfnina, með góða tónlist í bakgrunninn. Ekkert vesen, bara gæði.

Meðal listamanna sem komið hafa fram á Blikktrommunni eru: Sóley, Högni Egilsson, Valdimar & Örn Eldjárn, Mr. Silla, Sin Fang, Úlfur Eldjárn, Tina Dickow & Helgi Hrafn Jónsson og Benni Hemm hemm, Snorri Helgason, Úlfur úlfur, President Bongo & The Emotional Carpenters og Soffía Björg.

Hægt er að nálgast miða á Harpa.is

Skrifaðu ummæli