DIKTA

0

Dikta - Band (Florian Trykowski)

Hljómsveitin Dikta er ein vinsælasta hljómsveit landsins en hún sló rækilega í gegn með annarri plötu sinni „Hunting For Happiness“ frá árinu 2005. Dikta hefur sent frá sér fimm breiðskífur en nýjasta platan „Easy Street“ kom út fyrir skömmu. Dikta kom í skemmtilegt viðtal hjá Albumm og sögðu þeir okkur frá hvernig hljómsveitin varð til, hvað gerir góða tónleika og hvað er framundan hjá þeim svo fátt sé nefnt.


Þið hafið allir verið vinir frá unga aldri. Hvernig kom það til að þið fóruð að spila saman og er Dikta ykkar fyrsta hljómsveit saman?

Jón Bjarni, Skúli og Nonni voru búnir að spila saman í bílskúrnum heima hjá Jóni Bjarna og í félagsmiðstöðinni Garðalundur í Garðabæ þar sem var hljómsveitaraðstaða. Við hlustuðum á svipaða tónlist og höfðum mikinn áhuga á því að spila saman og pikka upp lög eftir okkar uppáhalds hljómsveitir. Fengum að spila á einhverjum skólahátíðum og svona. Haukur var með okkur í Garðaskóla en hann var í hljómsveit sem hét Plug og tók hún þátt í Rokkstokk í Keflavík. Dikta hét upprunalega Grufl en nafninu var svo breytt í Dikta. Dikta keppti í Músíktilraunum árið 1999 og þá með söngkonu sem heitir Rakel. Árið eftir hafði Haukur gengið til liðs við hljómsveitina og ákváðum við að taka aftur þátt. Við komumst í úrslit það árið en 101 (síðar XXX) Rottweiler hundar unnu keppnina.

Dikta-Umbrellas

Fyrsta plata ykkar „Andartak“ kom út árið 2002. Finnst ykkur margt hafa breyst síðan þá og hvernig hefur tónlist ykkar þróast?

Gríðarlega margt hefur breyst. Við vorum mjög ungir og búnir að semja svakalega mikið af lögum og lagahugmyndum. Það má segja að „Andartak“ hafi verið okkar leið til að koma einhverjum af þessum lögum út og prófa að taka upp við stúdíó aðstæður. „Andartak“ var tekin upp live í stúdíó Ástarsorg sem Jonni og Hrafn í Ensími voru með á sínum tíma. Við höfum þroskast mikið síðan þá og orðnir reynslunni ríkari. Við erum búnir að vinna með ýmsum upptökustjórum og einnig tekið mikið upp sjálfir.

Næsta plata hét „Hunting For Happiness“ og sló hún rækilega í gegn. Kom ykkur það á óvart og hvernig var að fá slíkar viðtökur?

Það var mjög góð tilfinning og mikil viðurkenning fyrir okkur að fá svona góðar viðtökur við plötunni. Við lögðum mikið í að fá upptökustjóra til landsins og fengum Ace gítarleikara Skunk Anansie til að stjórna upptökunum. Einnig sá Hrannar Ingimarsson um upptökur og hljóðblöndun á „Hunting for Happiness.“ Það ríkti allavega mikil ánægja hjá okkur að öll þessi vinna okkar væri að skila sér og það eru nokkrar mjög sterkar lagasmíðar á plötunni. Smekkleysa gaf plötuna út og þessi plata kom okkur á kortið í tónlistarbransanum.

Dikta hefur spilað víðsvegar um heiminn. Hvað og hvar eru eftirminnilegustu tónleikarnir og hvað gerir góða tónleika að ykkar mati?

Við eigum meðal annars mjög eftirminnlega tónleika frá Reeperbahn tónlistarhátíðinni í Hamburg árið 2011, þar náðum við upp mikilli stemningu og við fengum líka frábæra dóma í þýsku tónlistarpressunni eftir þá tónleika. Einnig var gaman að hita upp fyrir The Kooks í Berlín fyrir framan 5000 manns þetta sama ár.

Hvaðan fáið þið innblástur fyrir ykkar tónlistarsköpun og hvaða hljómsveitir eru í uppáhaldi?

Þegar við vorum yngri og að mótast sem hljómsveit hlustuðum við mikið á Rage Against the Machine, Smashing Pumpkins, Radiohead, Manic Street Preachers og Soundgarden svona til að nefna nokkur dæmi.
Í dag hlustum við allir á ólíka tónlist eða það má kannski segja að við höfum breiðari smekk. Við sækjum innblástur frá þeirri tónlist sem er í gangi á hverjum tíma fyrir sig en einnig frá fjölskyldum okkar og vinum. Við erum líka alltaf að prófa nýjar græjur eða hljóð. Tónlistarsköpunin hefur samt alltaf falist í að hittast sem hljómsveit og spila saman í æfingarhúsnæðinu. Við tökum upp hverja einustu æfingu og klippum síðan út þær hugmyndir sem okkur finnst eitthvað varið í og vinnum lögin út frá því.

Portraits of the Icelandic band Dikta taken on-location in SoHo, NYC. October 20, 2012. Copyright © 2012 Matthew Eisman. All Rights Reserved.

Þið voruð að senda frá ykkur plötuna „Easy Street“ en lögin „Sink Or Swim“ og „We´ll Meet Again“ komu út á undan plötunni og fengu mjög góðar viðtökur á öldum ljósvakans. Var platan lengi í vinnslu og er hún frábrugðin fyrri plötum?

Platan var yfir tvö ár í vinnslu. Plötuútgáfan okkar í Þýskalandi kynnti okkur fyrir ungum og upprennandi upptökustjóra sem heitir Sky van Hoff. Við ákvaðum að prófa að taka upp með honum tvö lög og fórum til Þýskalands í stúdíóið hans sumarið 2013 þar sem við gistum í stúdíóinu í tíu daga. Það var bara tekið upp, borðað og sofið. Okkur leist ótrúlega vel á útkomuna og samstarfið og ákváðum að gera heila plötu með honum. Við endurtókum því leikinn og fórum fleiri ferðir til Þýskalands í stúdíóið hans og eins fengum við hann til Íslands í mánuð undir lok síðasta árs til að klára plötuna með okkur.
Nýja platan er líklegast hressasta plata Diktu til þessa og því talsvert frábrugðin síðustu plötu þar á undan sem heitir „Trust Me“ og er frá árinu 2011. Annars má líklega segja að „Easy Street“ sé nokkuð rökrétt framhald af því sem við höfum áður verið að gera, en kannski heldur fágaðra og enn meira lagt í útsetningar en áður.

Hafið þið fylgt plötunni eftir með tónleikahaldi og er eitthvað á dagskránni að fara erlendis að spila?

Við höfum mjög mikið verið að spila allt frá því í vor. Fórum talsvert út á land í sumar og höfum einnig verið að spila talsvert nú í haust eftir að platan kom út. Það er mjög gaman að koma aftur á þessa staði sem við höfum ekki spilað á lengi, þar sem við höfum ekki spilað mikið opinberlega á Íslandi síðustu 2-3 árin. Við höfum alltaf verið með annan fótinn í Þýskalandi og þar í kring og það er verið að skoða tónleikaferðalög þangað á nýju ári.

Nú eruð þið allir bestu vinir til margra ára eins og fram hefur komið, er aldrei rifist og hver er mesti stuðboltinn í hljómsveitinni?

Eins og í góðu hjónabandi er alltaf eitthvað um ósætti eða rifrildi. En það ristir aldrei djúpt og við erum alltaf jafn góðir vinir. Við erum líklegast allir frekar miklir stuðboltar en á mismunandi vegu. Nonni trommari er líklegast mest outrovert gaurinn í hljómsveitinni og frekar slöpp pæling að setja hann bakvið trommusettið. En hann fær að standa upp og kitla bassann í einu lagi á tónleikum og fær þá möguleika á útrás á sviði, blessaður drengurinn.

DSC_1046

Hvað er framundan hjá Diktu?

Við ætlum bara að halda áfram að spila og kynna plötuna hérlendis það sem af er á þessu ári og stefnum á áframhaldandi útrás á því næsta. Og að halda áfram að semja nýtt efni, að sjálfsögðu. Það er fátt skemmtilegra en að spila tónlist. Það er engin leið að hætta. Að syngja svona.

 

LINKAR:

www.dikta.is

https://vimeo.com/dikta

www.twitter.com/dikta

www.facebook.com/dikta

www.youtube.com/diktamusic

 

Comments are closed.