DESEMBER Í HLJÓMAHÖLL

0

d95bc38e-4cb5-4990-963a-a58dcc6cafe7

Hátíð ber að höndum og hér í Hljómahöll verður dagskráin sniðin að þeim jólaanda sem nú svífur yfir vötnum.


Við minnum á Rokkbúðina okkar sem staðsett er í Rokksafninu. Þar er hægt að fá jólagjöfina fyrir tónlistarunnandann; boli, geisladiska, DVD myndir, gítarstrengi o.fl. Í leiðinni er tilvalið að koma við á Rokkkaffihúsinu og fá sér jóladrykkina Jólastaf eða Jólaáttuna. Þeir eru á sérstöku tilboði í desember – einungis 590 kr. Móttaka Rokksafnsins er opin alla daga vikunnar frá klukkan 11:00 – 18:00. Verið hjartanlega velkomin!

Við bjóðum upp á tvenna jólatónleika fyrir jól. Föstudaginn 5. desember verða hádegistónleikar á vegum Tónlistarfélags Reykjanesbæjar í Bergi. Strengjakvartettinn Stilltur leikur jólalög og boðið verður upp á léttar veitingar í lok tónleikanna.

Systkinin KK og Ellen verða með jólatónleika í Stapa þann 12. desember og hvetjum við alla Reykjanesbúa að njóta þeirra ljúfu tóna.

Daginn fyrir gamlársdag eða 30. desember kemur hljómsveitin Valdimar fram í Stapa með stórsöngvarann Valdimar í fararbroddi. Hér eru á ferð tónleikar sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.
VIÐBURÐIR DESEMBERMÁNAÐAR:

Aðventutónleikar Tónlistarfélags Reykjanesbæjar

jolostilltar

Tónlistarfélag Reykjanesbæjar dembir sér í aðventutónleika vertíðina og býður upp á dýrindis hádegistónleika föstudaginn 5. desember í Bergi, Hljómahöll. Leikin verða ljúf jólalög af strengjakvartettnum Stilltur.

Strengjakvartettinn Stilltur er skipaður þeim Sigrúnu Harðardóttur og Margrét Soffíu Einarsdóttur fiðluleikurum, Þórunni Harðardóttur víólu og Grétu Rún Snorradóttur selló. Allar eru þær meðlimir í kammerhópnum Stillu sem hefur getið sér góðan orðstír í flutningi verka fyrir strengi og söng.

Kvartettinn hefur á síðustu misserum sinnt margvíslegum tónlistarflutningi við fjölbreyttar aðstæður og leggur metnað sinn í að flytja tónlist frá mismunandi tímabilum og stefnum. Auk þess að starfa við tónlistarflutning hafa flestir meðlimir hópsins einnig atvinnu af tónlistarkennslu og eru þær Þórunn og Gréta Rún kennarar við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

Aðgangseyrir er 1000kr. og verður boðið upp á léttar veitingar að tónleikum loknum. Eru þessir tónleikar tilvaldir fyrir þá sem þurfa aðeins að bregða sér úr vinnugírnum og drekka í sig jólaandann….og auðvitað alla hina líka!

 

Jólatónleikar KK og Ellen

mod_kkellen_midi_1200x800_241014

Jólatónleikar KK og Ellenar hafa verið einn af ómissandi og föstu liðunum í aðdraganda jóla. Í mörg ár hafa þau haldið hefðina og komið saman, ýmist þau tvö eða ásamt hljómsveit sem spilað hefur með þeim.

Tónleikarnir hafa verið haldnir víða og þetta árið munu þau meðan annars koma fram í Stapa í Hljómahöll. Þar munu þau ásamt nokkrum af okkar bestu hljóðfæraleikurum flytja mörg okkar ástsælustu jólalög í bland við eigin lög. Einstök aðventustemning skapast á þessum tónleikum þar sem látlaus og hugljúfur flutningur hefur jafnan einkennt þeirra tónlist.

KK og Ellen munu koma fram ásamt hljómsveit í Stapa í Hljómahöll þann 12. desember. Hljómsveitina skipa:

Jón Ólafsson, hljómsveitarstjóri
Andri Ólafsson, bassi
Bryndís Halla Gylfadóttir, selló
Lilja Valdemarsdóttir, franskt horn
Jón Ólafsson, hljómborð
KK, gítar

 

Valdimar

valdimar-highres

Hin frábæra hljómsveit Valdimar heldur tónleika í Stapa í Hljómahöll þann 30. desember.

Hljómsveitin Valdimar var stofnuð árið 2009 þegar Valdimar Guðmundsson og Ásgeir Aðalsteinsson byrjuðu að semja lög heima hjá Ásgeiri. Fljótlega varð til 6 manna hljómsveit sem sló óvænt í gegn bæði hjá almenningi og gagnrýnendum. Fyrstu 2 plötur sveitarinnar nutu gríðarlegrar velgengni og mun keflvíska gengið senda frá sér sína þriðju plötu nú í október á þessu ári.

Tónlistin þeirra byggist upp á mikilli dýnamík allt frá rólegum melódíum, upp í drífandi, orkumikla og epíska kafla þar sem hljómsveitin spilar á fullu blasti. Þetta gerir lifandi flutning þeirra að ógleymanlegri upplifun. Tónlistarstefnu þeirra er best að lýsa sem electro indie blöndu með rætur í Americana tónlist, þó svo aðdáendum finnist það einfaldlega ekki skipta máli að skilgreina tónlist sveitarinnar.

Tónleikarnir hefjast kl. 20:00 og opnar húsið kl. 19:00.

Comments are closed.