DAVÍÐ HÓLM JÚLÍUSSON / DAVEETH

0

Davíð Hólm Júlíusson einnig þekktur sem Daveeth er einn fremsti raftónlistarmaður og skeitari landsins. Albumm.is spjallaði við kappann og sagði hann okkur frá nýju breiðskífunni “Mono Lisa“, hvernig það var að búa og skeita í kína og eftirminnilegustu tónleikunum svo fátt sé nefnt.

lunga david


Hvenær byrjaðir þú að búa til tónlist og hefur raftónlist alltaf verið þitt aðal?

Ég byrjaði að semja tónlist árið 1998 þegar ég var 13 ára, í Impulse Tracker á gamla 386 tölvu sem bróðir mömmu átti. Gunnar Torfi frændi minn sýndi mér þetta forrit og ég lærði á það með því að horfa yfir öxlina á honum meðan hann samdi lög. Á þessum tíma var The Prodigy aðalmálið auk Fatboy Slim, Chemical Brothers og fleiri og svo Wu Tang og fleira hiphop sem kveiktu áhugann á að byrja að semja takta. Til að byrja með fannst mér bara alls ekki málið að spila á hljóðfæri. Raftónlist og að programma lög var eina vitið. Svo fór ég að hlusta á fönk og fékk þá áhuga á að spila á trommur og bassa og hef notað það eitthvað í að semja líka. Langar mjög að gera eitthvað verkefni þar sem ég nota live trommur meira.

Nú var fyrsta platan þín að koma út “Mono Lisa“ á vegum Möller Records var hún lengi í vinnslu og hvernig vannstu hana?

Þessi plata er val af lögum frá fimm ára tímabili og nánast hvert lag unnið á mismunandi hátt í mismunandi forritum og græjuuppsetningum. Sumt er gert bara með tölvu og plugins og annað alveg með græjum, synthum og sampler, en flest lögin eru blanda af báðu. Ferlið að velja lög og klára þau fyrir plötuna sem tók sinn tíma því ég á alveg tonn af lögum sem mætti vinna betur og klára almennilega.

Þú hefur verið að spila talsvert live að undanförnu hvað ertu að nota og hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á og af hverju?

Ég er að komast í gang með að spila lögin mín live og er að reyna að gera það meira núna. Ég lít á það þannig að þegar maður spilar raftónlist live, að maður sé hljómsveitarstjórinn frekar en hljóðfæraleikarinn. Ég vil setja hlutina upp þannig að ég er ekki bara að ýta á play og dj-a lögin mín saman heldur hafa áhrif á uppröðun laganna og ákveðin element meðan ég spila. Ég er búinn að vera að gera tilraunir með mismunandi uppsetningar og græjur en yfirleitt nota ég tölvu, controllera og tvo analog syntha og einhvern trommuheila. Eftirminnilegasta giggið hingað til var þegar ég spilaði á sólarhringslangri tónlistarhátíð sem heitir Ymur og var haldin í Gilinu á Akureyri, í plássi sem heitir Kaktus. Það var mjög góð stemming í kringum hana og mjög gott og afslappað andrúmsloft og rýmin til að spila í hrá og skemmtileg. Ég vona að þetta verði haldið aftur að ári.

holm 2

Á hvernig tónlist hlustar þú og hvaða íslenska tónlist er í uppáhaldi hjá þér?

Ég tengi mest við melódíska raftónlist, en annars reyni ég að hlusta í allar áttir. Fer eftir hvaða gír ég er í  hvort ég skelli Ceephax Acid Crew eða Billie Holiday, Roots Manuva eða Frank Zappa, Fleetwood Mac eða Raymond Scott  á fóninn. Ég leita kannski helst að einhverjum karakter í tónlistinni sem heillar mig. Það er tonn af íslensku stöffi sem ég fíla mjög mikið eiginlega of margt til að telja upp. “Í þágu Fallsins“ með SK/UM, “You“ með Bang Gang og “Planet Earth” með Berndsen þetta eru fyrstu þrjár plöturnar sem mér dettur í hug. Svo eru tveir snillingar sem eru að gera melódíska raftónlist sem ég er alltaf að vonast eftir meiri músík frá,  Xylic og Fu Kaisha.

Þú áttir heima í Kína, hvernig var að búa þar, hvað varstu að gera og hvað varstu lengi?

Ég hef búið þar tvisvar. Fyrst í Nanjing í tíu mánuði og svo á Hainan eyju í borginni Sanya í sex mánuði. Í fyrsta skiptið sem ég fór var konan mín að læra kínversku í Háskóla Íslands og hluti af náminu er að fara í eitt ár til Kína. Ég var nýbúinn að klára myndlistargráðu í Listaháskóla Íslands og var mjög til í að elta hana út í eitthvað ævintýri. Ég hafði mjög gaman af því að búa þarna úti, sérstaklega í Nanjing, góður matur út um allt, gott að skeita, skemmtilegt götulíf og mjög ódýrt að lifa. Ég var að vinna sem DJ á bar sem að skiptinemarnir voru að hanga mikið á en annars bara að vinna í tónlist, taka ljósmyndir eða skeita. Í seinna skiptið þegar við bjuggum í Sanya gerðum við líka nokkra þætti um matarmenninguna á svæðinu, en ég er algjör sökker fyrir kínverskum og asískum mat. Mig langar ekki að búa meira í Kína en mig langar alltaf að fara þangað aftur í styttri ferðir.

terrymyndir-005

 

terrymyndir-003

 

terrymyndir-006

Nú ert þú einnig skeitari, hefur það haft einhver áhrif á að þú fórst út í tónlist og hafa brettin veitt þér einhvern innblástur og ef svo er hvernig þá?

Áhrifin liggja kannski helst í því að hjólabrettamyndbönd hafa kynnt fyrir mér allskonar tónlist sem ég myndi kannski ekki venjulega hlusta á. Brettin hafa ekki haft bein áhrif á að ég fór út í tónlist en hugarfarið er kannski svipað. Maður er viljugur að prufa eitthvað nýtt og reyna að gera eitthvað skapandi með það sem maður hefur. Ég nálgast bæði á svipaðan hátt, þar sem ég er að leita að einhverju sem mér finnst vera nýtt og áhugavert, þó það sé byggt á stórum banka af hlutum sem hafa verið gerðir áður, er alltaf hægt að taka nýjan vinkil á hlutina.

Hvað ertu búinn að vera á bretti lengi og hvernig fékkstu áhugann á því og hvort er betra að skeita á Íslandi eða í Kína?

Ég var svona 5 ára þegar ég fann gamalt bananacruiser bretti heima hjá ömmu og afa sem pabbi hafði átt og var að snúa mér í hringi á því heima hjá þeim, þar byrjaði þetta. Átti svo einhver drasl bretti þar til ég fékk alvöru Powell Peralta bretti og  byrjaði þá af viti. Það var á svipuðum tíma og ég var að detta inn í að semja músík, um þrettán ára aldur. Er búinn að vera með hjólabretti á heilanum síðan.
Ísland er með mjög fína hjólabrettasenu, væri samt til í að sjá meiri vídeó gerð og stuðning við vídeó gerð, en stemmingin er góð.  Kína vinnur auðveldlega ef maður er að tala um skeitspott en það getur verið einmanalegt að skeita þar ef maður veit ekki hvar maður finnur skeitarana eða talar ekki mikla kínversku.

Hvaða plötu hefurðu hlustað mest á í gegnum tíðina og hvað er það við þá plötu sem þú fílar?

Come to Daddy eftir Aphex Twin er sennilega mest spilaða platan. Öll lögin nema Come to Daddy get ég hlustað á endalaust aftur og aftur. Þessi plata er bara svo stútfull af tilraunum, flottum melódíum, taktapælingum og einna mikilvægast húmor. Leikgleðin í fyrirrúmi.

holm 1

Hvað er framundan hjá þér?

Gunnar Jónsson Collider er með útgáfutónleika fimmta ágúst, þar spilum ég, Futuregrapher og Fu Kaisha. Svo eru bara vonandi fleiri gigg á næstunni. Ég er að reyna að klára hjólabrettapart í augnablikinu. Það er bara alltaf vandi að finna tíma þar sem veðrið er rétt, filmer hefur tíma, ég hef tíma og allt smellur saman. Það er semsagt að gerast mjög hægt en það er í vinnslu. Annars er næsta plata í vinnslu líka, jafnvel fleiri en ein, en tónlistargerð er yfirleitt í smá pásu yfir sumarið. Svo eru einhver samvinnuverkefni vonandi að fara í gang á næstunni. Svo sjáum hvort ég hendi ekki út allskonar stöffi í haust/vetur.

Linkar:

http://daveeth.bandcamp.com

http://olddaveeth.bandcamp.com

https://instagram.com/daveethholm

https://www.facebook.com/DaveethMusic

https://vimeo.com/daveeth

https://www.youtube.com/daveeth

http://mollerrecords.com/releases/mono-lisa/

 

Comments are closed.