DAMIEN DUBROVNIK TRYLLIR LANDANN Á FALK KVÖLDI 2. DESEMBER

0

damien

Á morgun föstudag 2. desember mun FALK standa fyrir tónleikum með danska raftónlistardúettinum Damien Dubrovnik. Þetta verða fyrstu tónleika þeirra á íslandi og munu AMFJ og Hatari hita upp.

Christian Stadsgaard og Loke Rahbek stofnuðu Damien Dubrovnik árið 2009. Samhliða stofnuðu þeir einnig útgáfufélagið Posh Isolation hvar þeir hafa unnið ötult starf við útgáfu á einstöku – og oft á tíðum áleitnu – raftónlistarefni. Sem slíkir hefur þeim vaxið töluvert ásmegin og eiga undir belti rúmlega 150 útgáfur af tilraunakenndri raftónlist sem nær mikilli alþjóðlegri athygli meðal aðdáenda.
Þó svo að þeir félagar séu hvor um sig viðriðnir mígrút sóló verkefna og í öðrum hljómsveitum er Damien Dubrovnik það sem hefur lifað lengst. Þeir hafa gefið út 5 LP plötur auk nokkurra kassettna í takmörkuðum upplögum bæði á Posh Isolation sem og útgáfum á borð við Jealous God og Alter.

damien-3

Í tónleikahaldi hafa þeir verið iðnir við kolann en eru fyrir löngu orðnir alræmdir fyrir áleitna sviðsframkomu þar sem þeir blanda saman hráum expressívum raftónum við búkhljóð og ögrandi sviðsframkomu hvar harkalegur hljóðheimur hittir fyrir ljóðræna ambient tónlist sem lætur engan ósnortinn. Þeir hafa komið fram út um allan hinn vestræna heim, heimsálfa á milli á bæði tónleikastöðum og tónlistarhátíðum á borð við Unsound í Póllandi, Atonal í Berlín, NEXT í Svíþjóð, BOZAR í Belgíu, UH í heimalandi sínu Danmörku og Suoni í Canada.

Um upphitun fyrir DAMIEN DUBROVNIK sjá engir aukvisar í tilraunakenndri raftónlist; AMFJ (Aðalsteinn Jörundsson) er einn af stofnendum FALK og blanda hans af raf- industrial-, og noisemúsík gerir hann einstakan í raftónlistarheimi Íslands. EP útgáfan hans BALL mun koma út á næstu vikum. HATARI er nýtt og gríðarlega spennandi verkefni sem hóf störf sín á árinu en hafa nú þegar unnið sér inn virðingar fyrir öfluga tónleikaframkomu hvar þeir blanda saman industrial tónum við valdmannslega sviðsframkomu. Þeir hafa fyrir vikið fengið einróma lof gagnrýnenda bæði hér heima og erlendis. Þeir eru tvímælalaust sú hljómsveit innan rafgeirans sem ber að fylgjast með á árinu 2017.

damien-2

Tónleikarnir eru skipulagðir af músík og listahópnum FALK (Fuck Art Lets Kill). FALK hefur verið starfrækt síðan 2007 og hefur verið listasmiðja fyrir íslenska raftónlist og tilraunartónlist og hefur staðið fyrir útgáfu frá meðal annars, AMFJ, KRAKKBOT, AUXPAN, og ULTRAORHODOX. Þetta árið hefur FALK verið einstaklega framtakssamt og hefur gefið út efni eftir HARRY KNUCKLES, K. FENRIR, HEIDATRUBADOR, OKISHIMA ISLAND TOURIST ASSOCIATION og voru allar útgáfurnar lofaðar af hérlendum og erlendum gagnrýnendum.  Nú nýverið kom út á undir merkjum FALK split útgáfa frá AAIIEENN og Decanter á Rimar Tracks útgáfunni og er EP platan hans AMFJ rétt ó útkomin í stafrænni útgáfu. Eftir áramót stefnir FALK á að gefa út efni frá Lord Pusswhip og ThiZone, og einnig á dagskrá er klúbbakvöld með Curtesy (DK) í apríl n.k. auk mígrúts annarra verkefna sem áhugafólki um áleitna og tilraunakennda raftónlist ber að hafa auga með.

Skrifaðu ummæli