DAGUR ÍSLENSKRAR TÓNLISTAR FIMMTUDAGINN 1. DESEMBER

0

is-music-2

Dagur íslenskrar tónlistar verður haldinn hátíðlegur næstkomandi fimmtudag, 1. desember. Ýmislegt verður gert til að halda upp á daginn. Að venju mun þjóðin öll syngja saman þrjú lög klukkan 11:15 og svo hefur verið bryddað upp á nýstárlegum leik á samfélagsmiðlunum, þar sem við tökum höndum saman um að kynna íslenska tónlist á erlendri grund.

BERUM HRÓÐUR ÍSLENSKRAR TÓNLISTAR SEM VÍÐAST

í tilefni dagsins verður efnt til nýrrar herferðar sem ber titilinn „#IcelandMusicDay,“ þar sem öll þjóðin tekur virkan þátt í markaðssetningu íslenskrar tónlistar á samfélagsmiðlum og hefur hana til vegs og virðingar á erlendri grund. #IcelandMusicDay, fer þannig fram að fólk velur uppáhalds íslensku lögin sín af tónlistarveitum eins og Spotify eða YouTube, deilir og merkir (taggar) 1-5 erlenda vini sína. Allir eru hvattir til að taka þátt og kynna íslenska tónlist fyrir erlendum vinum sínum í þessu samstillta átaki, sem er í fyrsta skipti svo vitað sé um að heil þjóð styðji svo þétt við bakið á sínu tónlistarfólki.

SAMSÖNGUR OG ÞJÓÐARÁTAK Á SAMFÉLAGSMIÐLUNUM

Máttur samfélagsmiðla er ótvíræður og eru því allir þátttakendur hvattir til að að virkja sem flesta vini, vandamenn, fyrirtæki eða fjölskyldur, og bera þannig hróður íslenskrar tónlistar sem víðast á þessum merka degi. Allir samfélagsmiðlar eiga erindi í þessari herferð og því upplagt að deila tónlist á Facebook, Twitter, Instagram og Snapchat.

Eftirfarandi texta má nota þegar tónlistinni er deilt en þátttakendum er frjálst að nota sinn eigin og láta myllumerkið #IcelandMusicDay fylgja með:

„Listen to some of my favourite Icelandic songs and share your own!“ #IcelandMusicDay

is-music

SYNGJUM SAMAN

Að venju verður efnt til þjóðarsamsöngs klukkan 11:15, en þá verður þremur lögum útvarpað á helstu útvarpsstöðvum landsins og allir landsmenn hvattir til að taka undir, hvar sem þeir eru staddir. Lögin má nálgast á facebook síðu dags íslenskrar tónlistar.

Lögin eru: Vísur Vatnsenda-Rósu (Skáld-Rósa/Þjóðlag/Jón Ásgeirsson), Hver á sér fegra föðurland (Hulda/Emil Thoroddsen) og Sautjánþúsund sólargeislar úr Bláa hnettinum (Bergur Þór Ingólfsson/Kristjana Stefánsdóttir). Fyrri tvö lögin þekkir þjóðin vel, það þriðja er nýtt, en undurfagurt, og má sjá myndband með laginu, sem og hinum tveimur, á facebook síðu dags íslenskrar tónlistar.

Útvarpað verður frá Hörpu, flytjendur laganna verða: Sautjánþúsund sólargeislar: Börnin í Bláa hnettinum og Kristjana Stefánsdóttir. Vísur Vatnsenda-Rósu: Sísí Ey og Eyþór Gunnarsson Hver á sér fegra föðurland: Oktettinn Fjárlaganefndin.

Skrifaðu ummæli