Daglegt líf fer fram handan við gylliveröld póstkortanna.

0

Það verður heljarinnar gleði í versluninni Skugga  (Skólavörðustígur 22) á laugardaginn sem kemur en þá mun ljósmyndarinn, plötusnúðurinn og tónlistarspekúlantinn Árni Kristjánsson opna sýninguna sína Hawaii 2,5.

Árni Kristjánsson er fæddur í Reykjavík 1981. Hann er með BA gráðu í japönsku frá Háskóla Íslands og MA í menningarfræðum frá Tokyo University of the Arts. Hann hefur lengi verið viðriðinn tónlist, bæði sem plötusnúður frá ungum aldri en einnig sem hluti hljómsveitanna Bent & 7berg og TZMP. Á meðan á dvöl hans stóð í Japan starfaði hann við þýðingar og skrifaði jafnframt greinar um danstónlist fyrir dagblaðið The Japan Times. Nú starfar hann sem leiðsögumaður fyrir japanska ferðamenn á Íslandi.

Áhugi Árna á ljósmyndun hófst í menntaskóla en fór á skrið eftir að hann kynntist ódýrum japönskum filmuvélum í Japan árið 2008. Hans fyrsta ljósmyndasýning „Myndir“ var haldin árið 2012 í galleríi Lift Cafe, litlu kaffihúsi í norðurhluta Tókýó borgar. Önnur sýning hans af götumyndum víðsvegar um Tókýó sem bar titilinn „Tókýó í lit“ var haldin á KEX hostel í nóvember sama ár.

Núverandi sýning í Skugga er framhald af þriðju sýningu hans “Hawaii 2” sem var haldin mitt sumar árið 2016 í Gallery 201 í Tókýó. Báðar sýningar innihalda myndir af Oahu eyju Hawaii, en þar dvaldi Árni í mánuð sitthvort sumarið 2012 og 2013.

Viðfang myndanna er margskonar en allar eiga þær það sameiginlegt að fanga hversdagsleikann á jafn sólríkri og paradísarlegri eyju sem Oahu er. Í góðri fjarlægð frá ferðamannagildrum birtist nýr heimur þar sem daglegt líf fer fram handan við gylliveröld póstkortanna.

Opnunin hefst í Skugga á laugardaginn kl 13:00 og stendur til kl 19:00. Veigar verða í boði og mun árni þeyta eðal skífum í gegnum hljóðkerfi frá Soundboks!

Facebook viðburðinn má sjá hér.

Skrifaðu ummæli