CITIZEN X STENDUR FYRIR ÓNEFNDA SAMBORGARANN

0

Tónlistarmaðurinn Breljacque sendi nýlega frá sér lag og myndband sem ber heitið „Citizen X.“ Lagið er yfirvegað og rythma þungt þar sem unnið er með hefðbundinn trommuheila-hljóð í bland við upptekinn ásláttarhljóðfæri, syntha og rafbassa.

„Lagið er nokkuð lítillátt en stígandi og langaði mig að gera myndband sem harmóneraði við það. Vinnutitillinn á laginu varð snemma Citizen X, sem í mínum huga stendur fyrir ónefnda samborgarann. Lítið tannhjól í stórri maskíu. Auk þess hef ég lengi verið rómaður fyrir furðulegt göngulag og úr því varð til hugmyndin að myndbandinu. Óræði borgarinn á rölti með furðulegt göngulag sitt í farteskinu. Það var síðan tekið upp í einni töku á sólríkum vordegi í Berlín með aðstoð góðra vina og útkoman er þessi.“ – Breljacque

Að baki verkefnisins stendur tónlistarmaðurinn Hreiðar Már Árnason. Hreiðar er í grunninn trommuleikari og hefur hann meðal annars spilað með hljómsveitunum, Two tickets to japan, Quest, Tálsýn, tónlistarmanninum Gunnar Jónsson Collider auk annara verkefna.

„Sem trommuleikari þá er maður oft háður því að fá annað fólk með sér í tónlistarsköpun. Trommur einar og sér verða fljótt þreyttar og eru að því leiti mjög meðvirkt hljóðfæri til að spila á. Leiðin að sjálfbærninni hefur þannig falið í sér að læra á forrit og hljóðfæri sem leyfa hömlulausari sköpun og sprettur alter-egóið Breljacque upp úr þeim lærdómi. Lagið er tekið upp, mixað og masterað í heimastúdíóinu mínu, í stofunni í vesturbænum og í æfingarhúsnæði þar sem trommur og önnur ó-fjölbýlishæf hljóðfæri fá að dúsa.“ – Breljacque

Hér er á ferðinni frábært lag sem rennur ljúft inn í sálu hlustandans og á vel heima í eyrum landsmanna með hækkandi sól! Einnig er hægt að fylgjast með á soundcloud síðu Breljacque þar sem fleiri lög munu líta dagsins ljós í nákominni framtíð.

Skrifaðu ummæli