Byggja brýr og styrkja bönd milli listafólks um allan heim

0

Alþjóðlega tónlistarhátíðin Melodica Reykjavík verður haldin í 11. sinn á Íslandi, dagana 24. – 26. ágúst næstkomandi, en hún hefur stundum verið nefnd hátíðin hógværa og lítilláta. Hátíðin fer fram í Gym &Tonic sal KEX Hostels. Fram koma fjölmörg innlend sem erlend söngvaskáld sem munu flytja tónlist sína fyrir tónleikagesti í sinni nánustu mynd, oft eingöngu með röddina og gítarinn eða píanóið að vopni.

Hátíðin leggur sig fram að styðja við grasrót ungra og upprennandi listamanna og koma þeir fram samhliða þekktari listamönnum. Aðalmarkmið hátíðarinnar er að byggja brýr og styrkja bönd milli listafólks um allan heim. Þannig hefur hátíðin skapað fjölda frábærra vináttusambanda milli tónlistarfólks og fjöldi íslenskra listamanna hafa farið utan í tónleikaferðir á vegum erlendra vina.

Melodica á rætur sínar að rekja til Melbourne í Ástralíu þar sem fyrsta hátíðin var sett á stokk árið 2007. Eftir það hafa leiðir hennar legið víða og er hún í dag haldin meðal annars í Þýskalandi, Bandaríkjunum, Danmörku, Englandi, Noregi og Austurríki. Melodica er í raun ört vaxandi alþjóðlegt tengslanet smárra sjálfstæðra tónlistarhátíða sem allar eiga sér það sameiginlegt að byggja upp og efla samfélag og samstarf erlends og innlends tónlistarfólks á hverjum stað. Hundruðir listamanna hafa komið fram á Melodica Reykjavík á síðustu árum og eins og fyrri ár verður dagskráin fjölbreytt og spennandi.

Hundruðir listamanna hafa komið fram á Melodica Reykjavík á síðustu árum og eins og fyrri ár verður dagskráin fjölbreytt og spennandi.

Meðal listamanna í ár verða m.a. The Moody Orchestra (NL), Calming River (DK) Fesway (MEX), Shawn Clarke (CA), Svavar Knútur, MIMRA, One Bad Day, Hildur Vala, Soffía Björg, Símon Vestarr, Heidatrubador, Myrra Rós og margir fleiri.

Aðgangur er ókeypis en áhorfendur eru hvattir til að styðja hátíðina með frjálsum framlögum sem notuð eru til að greiða niður ferðakostnað erlenda tónlistarfólksins en hátíðin hefur frá upphafi verið fjármögnuð með þeim hætti.

Fylgið Melodica hér:

Instagram

Twitter

Skrifaðu ummæli