„BÚINN AÐ EYÐA MIKLUM TÍMA Í AÐ RANSAKA HVORT ÉG SÉ SÉRSTAKUR“

0

Uppistandarinn, tónlistarmaðurinn og rithöfundurinn Bergur Ebbi hefur komið víða við á viðburðarríkum ferli en hann var að senda frá sér bókina „Stofuhiti.“ Bókin fjallar um hversdagsleg málefni, en úr annarri átt en við erum vön. Bergur segir að hann þurfi ekki að hafa áhyggjur af innblæstri, en hann má finna í öllu mögulegu.

Albumm.is tók Berg Ebba tali og svaraði hann nokkrum skemmtilegum spurningum um bókina, Kanada og hvað er á döfinni svo sumt sé nefnt.


Um hvað er „Stofuhiti“ og er bókin búin að vera lengi í vinnslu?

Stofuhiti er svolítið óvenjuleg bók. Hún fjallar um frekar hversdagsleg málefni, en úr annarri átt en við erum vön. Í grunninn er bókin um mína eigin reynslu. Ég er þrátt fyrir allt frekar venjulegur náungi. Ég er eins og flestir aðrir, búinn að eyða miklum tíma í að rannsaka hvort ég sé sérstakur – hvort ég hafi lent í einhverju áfalli eða fengið einhverskonar uppljómun, en ég get ekki sagt að líf mitt hafi verið með þeim hætti. Þverstæðan er sú að þrátt fyrir að líf mitt sé að mestu innan meðal-mengisins þá hef ég verið ráðvilltur. Ég veit varla hvað mér finnst um neitt – finnst ég ekki hafa neinar heildstæðar skoðanir og hafa bærst með vindinum, í sífelldu uppnámi. En svo fór ég að velta fyrir mér hvort að hér sé ekki ákveðið tómarúm – hvort að maður þurfi nokkuð að hafa lent í einhverju sérstöku áfalli eða fengið uppljómun til að líða svona – hvort að við séum ekki mjög mörg að ganga í gegnum þetta. Ég get ekki talað fyrir munn allra – en ég tek fram að saga mín er ekki einstök, hún er býsna venjuleg. Ég hef alltaf haldið að ég þyrfti að verða fyrir vitrun eða sérstakri lífsreynslu til að geta speglað þessar efasemdir mínar, en nú tel ég að það sé kannski það sem svo margir aðrir bíða líka eftir. Og það er bið sem mun ekki ljúka. Ég veit ekki hvort það sé mjög skýr niðurstaða í þessari bók, en hún er skýr að þessu leyti – að líklega lifum við á þannig tímum að saga hins venjulega manns er býsna þversagnarkennd og víðfeðm. Við burðumst öll með mikla reynslu og hugsanabreidd í vitundinni, og það er átak að sortera þessar hugmyndir. Kannski hjálpar þessi bók eitthvað til við það.

Bókin er búin að vera frekar lengi í vinnslu, þó hún sé að mestu skrifuð síðasta árið. Pælingarnar í bókinni eru samansafn af hugmyndum úr ólíkum áttum. Sumar eru af sama meiði og það sem ég hef skrifað pistla um en aðrar eru byggðar á fræðilegri grunni, en ég hef undanfarið stúderað fagurfræðilega birtingarmynd tæknifyrirbæra eins og „big data”. Rannsóknarverkefni mitt við OCAD-háskólann hér í Toronto, þar sem ég bý, nefnist „The Poetry of Big Data,” en ég hef rosalega mikinn áhuga á narratífi, eða stóru dráttum samtímans. Í raun má segja að ég sé, frekar en nokkuð annað, að leitast við að finna hvað muni í framtíðinni skilgreina okkar tíma. Það er alltaf krefjandi verkefni, og ekkert endilega erfiðara nú heldur en áður, fólki hefur alltaf þótt samtíminn ruglingslegur.

Þú hefur komið víða við á viðburðarríkum ferli og má þar nefna tónlist, uppistand og útvarp svo fátt sé nefnt. Hvað er skemmtilegast af þessu öllu saman og hvaðan færðu innblástur fyrir þína listsköpun?

Það síðasta sem maður þarf að hafa áhyggjur af er innblástur. Innblástur og efniviður kemur úr öllu mögulegu. Maður á einmitt frekar að vera duglegur að taka tíma og gera sem minnst, til að hugurinn nái að vinna úr því sem hann innbyrðir. Ég fór til dæmis í ferðalag til Detroit fyrir tveimur árum og ég er enn að vinna hugmyndir úr því. Samt stóð ferðalagið bara í nokkra daga. Ég er enn að púsla saman brotunum sem ég sá þar, en í stuttu máli þá er Detroit í dag eins og dystópía, fallið veldi iðnvæðingar og hugmynda um að koma mætti fram við mannfólk eins og róbóta svo lengi sem eldurinn logaði. Að sjá borgina í dag með eigin augum er eitthvað sem tekur ár að melta.

Þú minnist á ólíkar listgreinar og ólíka miðla, og það er rétt, ég vil notast við fleiri en einn miðil því ég tel að þeir vinni hverja aðra upp. Ég fór til dæmis þá leið, við kynningu á Stofuhita, að gera myndband – svipað og ég væri að gefa út lag. Bæði af því að mig hefur alltaf langað það, og líka vegna þess að ég tel að það dýpki hugmyndirnar í bókinni. Þetta var langt frá því að vera markaðs-stönt heldur liggur að baki þessu listrænn metnaður. Magnús Leifsson leikstýrði myndbandinu og vann það ásamt Þór Elíassyni tökumanni. Þeir skildu nákvæmlega hvað ég var að meina með stofuhita-pælingunni. Tónlistina gerði tónlistarmaðurinn DAÐI, og það var líka á grundvelli mikilla diskúsjóna. Að öðru leyti vil ég ekkert útskýra myndbandið neitt sérstaklega, það eina sem ég vil segja er að það liggur töluverð hugsun að baki öllum skotunum og allt sem kemur fram í myndbandinu kallast á við hugmyndir í bókinni.

Að lokum. Vegna þess að þú spyrð hvaða listform henti mér best þá verð ég að taka eitt fram. Fyrst þegar ég byrjaði í uppistandi var það svo rosalegt kikk að ég fór í blakkát. Í fullri alvöru, ég man bara eftir að stíga á sviðið og svo að stíga niður af því aftur. Á meðan performansinn sjálfur var í gangi var heilinn greinilega svo upptekinn að hann náði ekki að safna minningum á meðan. Ég hef heyrt aðra lýsa svipaðri reynslu. Það er sem sagt hægt að ná blakkáti með öðru heldur en drykkju!

Ég þrái þessa einbeitingu. Hún er svo sjaldgæf í nútímanum. Og ég vona að áhorfendur finni þetta stundum líka. Að sogast inn í performansinn á sviðinu. Það er frábær tilfinning að ná einbeitingu. Þannig vona ég að fólk upplifi bókina líka. Það má vel vera að sumum muni þykja bókin ruglingsleg enda fylgir hún ekki hefðbundnum söguþræði né rökleiðslu – en það er 100% einbeiting allan tímann. Þannig vil ég hafa allt. Músík, uppistand, bókmenntir – ég vil að fólk fái tilfinningu eins og það sé skrúfað frá krana. Ég er enn að þróa þennan stíl, en ég held að það séu þannig element í bókinni. Ég vil skrifa bækur af ofsafullri gleði, það sem Ray Bradbury kallaði „gusto,” þar sem einbeiting og áhugi ræður ríkjum. Veröldin er svo yfirfull af sinnuleysi og hálfkveðnum vísum, það er algjört yfirframboð á velgju og smjatti, þannig að ég held að fólk dragist sjálfkrafa að texta ef hann er skrifaður eins og mikið sé í húfi og höfundur standi með því sem hann segi. Og það er reyndar ástæðan fyrir því að ég held að uppistand sé í svo mikilli uppsveiflu, en það er ekki bara að gerast á Íslandi heldur allstaðar í heiminum. Fólk þráir að heyra skoðanir og sjá hver stendur á bak við þær. Það þráir að sjá manneskjuna fyrir framan sig „standa með” því sem hún segir. Bíómyndir og skáldsögur eru fullar af málpípum þar sem höfundar skapa persónur sem segja allskonar rugl, og það er ekkert að því í sjálfu sér, en heimurinn er allur orðinn þannig. Raunveruleikinn er sá að fólk skrunar yfir samfélagsmiðla og sér troll-athugasemdir og fyrirtækjaprófíla og allskonar feik-avatara deila allskonar rugl upplýsingum sem ekki eru endilega sannar. Og þegar raunveruleikinn er orðin þannig þá sækist fólk í öðruvísi stemningu í bókmenntum og listum, og sú stemning er í uppistandi og “non-fiction” bókmenntum í dag. Það er mitt mat.

Þú býrð í Kanada, hvort er betra að búa á Íslandi eða í Kanada og hvort á betra við þig?

Kanada er frábært land, enda væri eitthvað stórkostlega skrítið ef það væri það ekki. Hér hefur fólk búið við frið og efnahagslega velmegun í meira en 100 ár, hér er nóg pláss fyrir alla, auðæfi og hernaðarlegt skjól. Sem land er Kanada kannski ekki áhugavert, en sem hylki utan um einstaklinga er það frábært. Enda er það framtíðin: borgir, hópar, hagsmunir og einstaklingar. Þjóðir verða að deyja og þær munu deyja, og líklegast mun það gerast hraðar en fólk heldur. Ísland verður alltaf til, enda er það eyja, en sú hugmynd að þar búi þjóð sem eigi einstaka reynslu sem enginn annar eigi eða geti öðlast, mun hverfa. Ég er bara að segja þetta á almennum nótum, því fer fjarri að ég standi ekki með Íslandi og hagsmunum þess. Ég er Íslendingur og verð það alla mína tíð, og mun líklega búa lengstan hluta ævi minnar þar. En ég neita því ekki að á minni lífstíð hafa hlutir gerst sem framkallað hafa sár sem munu aldrei gróa. Mér fannst afar sárt að komast að því, í tengslum við leka Panama-skjalanna, hversu margir Íslendingar hafa í raun enga trú á Íslandi. Jafnvel fólk sem heldur um völd á Íslandi og stýrir íslensku efnhagskerfi og talar fyrir notkun krónunnar, treystu svo kerfinu ekki betur en svo að þau geymdu fé sitt erlendis og földu það þar. Mér finnst þetta ógeðsleg tilhugsun, og hún fær mig reyndar til að efast á svo djúpan hátt að ég hef oft spurt mig spurningarinnar: Hvað hefði ég sjálfur gert, og ég veit ekki svarið.

En nú fer verkefnum mínum hér í Toronto að ljúka, í bili, og ég og fjölskyldan erum á leiðinni heim, og ég hlakka mikið til þess.

Hvað er á döfinni hjá þér og ertu byrjaður að hugsa næstu bók?

Ég vil helst alltaf láta verkin tala og vil ekki upplýsa mikið um plön mín fyrr en þau eru við það að raungerast, en ég get stoltur sagt að ég hugsa stórt og er alltaf með frekar metnaðarfull plön. Ég er með mjög spennandi hugmynd að verkefni sem ég vil byrja á sem fyrst, en það krefst samvinnu margra aðila og mikillar skipulagningar og einnig peninga. En reyndar hef ég ekki áhyggjur af þessu síðastnefnda. Því ef hugmynd er nógu góð og fólk er nógu sannfært, þá koma peningarnir.

Ég er viljandi ekkert að hugsa um næstu bók. Þetta tengist því sem ég sagði um innblásturinn. Maður á líka að reyna að melta hluti. Nú fylgist ég með viðbrögðunum við þessari bók og sé hvernig sumar hugmyndir munu skerpast þegar lesendur hafa líka náð að melta þær. Í kjölfarið mun örugglega koma hugmynd og ástríða til að skrifa næstu bók.

Eitthvað að lokum?

Áfram Albumm, ég er virkilega ánægður með að til sé fjölmiðill sem sinni músík á Íslandi – og sé líka til í að gera umfjallanir um bækur! Þrátt fyrir að á Íslandi starfi tugir fjölmiðla, þá er ótrúlegt hvað þeir eru flestir bara í einhverju clickbait drasli að skrifa fréttir um eitthvað sem skiptir engu máli.

Skrifaðu ummæli