BRYGGJAN BRUGGHÚS HITAR UPP HINN GLÆSILEGA INNIPÚKA Í KVÖLD 27. JÚLÍ

0

bryggjan

Bryggjan Brugghús hitar upp fyrir Verslunarmannahelgina í samstarfi við tónlistarhátíðina Innipúkann og kynnir með stolti glæsilega tónleikadagskrá í kvöld miðvikudag 27. júlí en tónleikar hefjast um klukkan 21:00. Innipúkinn verður haldinn í 15. sinn í ár á tónleikastöðunum Húrra og Gauk á Stöng í Naustunum um Verslunarmannahelgina og er því ekki úr vegi á þessu stórafmælisári að lengja vel í helginni með nokkrum af fremstu tónlistarmönnum þjóðarinnar.

Dagskráin er alls ekki af verri endanum en fram koma: Júníus Meyvant, Bjartey & Gígja úr Ylju, Snorri Helgason, Teitur Magnússon og Elín Ey.

bryggjan 2
Júníus Meyvant er stórglæsilegur og var að gefa út sína fyrstu plötu í sumar sem hefur slegið rækilega í gegn bæði hér heima og erlendis.

Bjartey og Gígja eru án efa tvær af bestu söngkonum landsins með tvær stórkostlegar plötur á bakinu og 3 tilnefningar til Íslensku Tónlistarverðlaunanna. Draumkenndar raddir og fallegur gítarsamhljómur sem fær hárin til að rísa.

Snorra Helgason þarf vart að kynna en Sprengjuhallarprinsinn var að gefa út sína fjórðu plötu á dögunum sem heitir Vittu Til. Lagasmíðar eru frumlegar og textarnir hnittnir eins og höfundurinn sjálfur.

Teitur Magnússon er djáns íslenskrar tónlistar. Þessi fagri drengur gaf út plötuna 27 á síðasta ári sem var tilnefnd til Norrænu Tónlistarverðlaunanna. Teitur heillar hvar sem hann er.

Elín Ey er að vinna í nýrri plötu og nýlega fengum við að heyra fyrsta lagið á þeirri plötu. Það virðist engu máli skipta hvar eða hvernig tónlist Elín gerir, hvort það er SísíEy rafpop á klúbbnum eða indie folk tónlist fyrir kaffihúsið. Fólk stendur alltaf eftir gjörsamlega stjarft af hrifningu.

Það er um að gera að mæta og hlýða á snilldar tóna en Bryggjan Brugghús er staðsett á Grandagarði 8 101 Reykjavík.

Comments are closed.