BRIMFIMI #1 – SÖRFVEISLA Í PALOMAKJALLARANUM Í KVÖLD

0

Brimfimi #1

Í kvöld Fimmtudag 20. ágúst munu hljómsveitirnar Bárujárn, Godchilla og russian.girls rífa fram blautbúninga sína og brimbretti og halda tónleika í ævarandi brotsjó Palomakjallarans í Naustinni þar sem sveitirnar munu reyna á brimfimi sína.

Miklum öldugangi og litlu skyggni spáð, auk þess sem vaxandi norðaustanátt verður fram eftir kvöldi, hvassast á djúpmiðum.

Tónleikarnir hefjast upp úr tíu og aðgangseyrir er þúsund krónur, eða sem nemur þorskígildi marbendils. Þeir sem mæta í blautbúningum fá frítt inn.

Bárujárn (2)

Bárujárn er sörfhljómsveit úr Höfnum sem gaf út samnefnda breiðskífu 2013 og vinnur að nýju efni. Auk þess að hafa gert garðinn frægan fyrir líflega sviðsframkomu er sveitin þekkt fyrir að hafa skipt út hefðbundnum lömpum í mögnurum sínum fyrir ljósabekkjalampa sem gera tónleikagestum kleyft að tana grimmt við ljúfa sörftóna, en þá má heyra hér á bandcamp síðu hljómsveitarinnar:

russian.girls er niðdimmt sólóverkefni Guðlaugs Halldórs Einarssonar sem einnig leikur með Fufanu. Tónlist hans er baneitruð, hún er ætandi, spillir lífríkinu og geymist þar sem börn ná ekki til.

Godchilla er hávær hljómsveit sem gaf út frumburð sinn Cosmatos árið 2014, en fegurð meðlima og hljóðfærni er slík að hún gerir ungt fólk jafnan heyrnarlaust af eigin frygðarópum. Afsprengi þeirra má heyra hér:

 

 

Comments are closed.