BRETTAFÉLAG HAFNARFJARÐAR HLÝTUR HVATNINGARVERÐLAUN FORELDRARÁÐS HAFNARFJARÐAR

0

Jóhann og Arnfríður taka við verðlaununum.

Jóhann Óskar Borgþórsson og Arnfríður Arnardóttir eru hjartað á bakvið Brettafélag Hafnarfjarðar sem er eitt flottasta íþróttafélag landsins. Félagið var stofnað árið 2012 og hófst strax mikil vinna í að koma upp innanhúsaðstöðu fyrir hjólabretti í Hafnarfirði. Innanhúsaðstaðan opnaði formlega 12. Febrúar og hefur húsið verið nánast í stanslausri notkun síðan.

verðlaun

Á dögunum tóku Jóhann og Arnfríður við Hvatningarverðlaunum Foreldraráðs Hafnarfjarðar, fyrir stofnun Brettafélags Hafnarfjarðar sem telst vægast sagt glæsilegur árangur. Mikið og gott starf er innan veggja félagsins en þar fara fram t.d. snjóbrettaæfingar, hjólabrettaæfingar og BMX æfingar svo fátt sé nefnt.

Arnfríður svaraði nokkrum spurningum fyrir Albumm.is

Var hugmyndin að innanhúsaðstöðunni búin að vera lengi í vinnslu?

Hugmyndin var ekki búin að gerjast lengi, við höfðum um nokkurt skeið keyrt strákana okkar daglega til Reykjavíkur í Loftó til að fara á hjólabretti, við vorum orðin pínu þreytt á því og okkur fannst ekki nógu skýrar reglur í húsinu og ekkert skipulagt starf í gangi. Við höfðum oft sagt það í hálfkæringi að það væri æðislegt að hafa svona aðstöðu í Hafnarfirði. Við sáum svo grein í bæjarblaðinu sem Margrét Gauja Magnúsdóttir forseti bæjarstjórnar skrifaði undir yfirskriftinni Ákall á Brettafélag Hafnarfjarðar. Jói tók upp símann og boðaði komu sína í kaffi til hennar. Eftir spjall yfir kaffibolla var ljóst að bæði við og bærinn værum til í að láta reyna á þá hugmynd að koma upp innanhússaðstöðu í Hafnarfirði. Boðað var til stofnfundar félagsins og viðræður við bæinn hófust. Aðalvandinn var að finna hentugt húsnæði.

park 2

Hver er hugmyndin með að hafa slíka aðstöðu?

Hugmyndin með aðstöðunni er að skapa aðstöðu og jákvætt umhverfi fyrir hjólabrettaiðkendur, þar sem öllum líður vel. Foreldrum verður að líða vel með að skilja börnin sín eftir hjá okkur. Það er rigning eða snjór meirihluta ársins og því hafa hjólabrettaiðkendur verið að leita sér að þurrum stöðum s.s. bílakjöllurum til að renna sér. Það hefur ekki verið vel séð og því hafa hjólabrettamenn fengið á sig ákveðinn stimpil sem við erum að vinna í að breyta. Það þarf að rífa sportið upp úr hjólförum fordóma.

Hér að neðan má sjá hinn heimsfræga hjólabrettasnilling Tony Hawk renna sér um í innanhúsaðstöðu BFH en hann kíkti við ekki fyrir svo löngu:

Comments are closed.