BOOGIE TROUBLE GEFUR ÚT LAGIÐ „DISKÓSNJÓR“ OG BREIÐSKÍFA VÆNTANLEG 8. APRÍL

0
boogie

Hönnun plötucovers: Sveinbjörn Pálsson. Ljósmynd: Rut Sigurðardóttir. Förðun: Flóra Karítas Buenaño.

Stuðbandið Boogie Trouble hefur gefið út lagið „Diskósnjór,“ og það er að finna á fyrstu breiðskífu sveitarinnar sem er væntanleg í verslanir þann 8. apríl næstkomandi.

Stuðslagarinn „Diskósnjór“ er saminn til vinar sem átti erfitt uppdráttar um tíma og er skrifað sem hvatning til að dreifa huganum, leggja vandamálin til hliðar og reyna að gleyma sér og gleðjast um stund. Lagið mætti þannig ef til vill kalla „óð til veruleikaflóttans,“ sem er jú ágætur endrum og eins á þessum síðustu og verstu.

Ljósmynd: Halldóra Miyoko

Lagið og plötuútgáfan markar endurkomu sveitarinnar sem hefur verið fjarri góðu gamni síðastliðna mánuði á meðan söngkonan Klara Arnalds vann að því að koma einu stykki barni í heiminn. Sveitin hefur undanfarin þrjú ár stimplað sig rækilega inn sem ein besta stuðsveit Reykjavíkurborgar þótt víðar væri leitað.
Iceland Airwaves 2014, Photos by Halldora Magnusdottir and Laurent Chouard

Ljósmynd: Halldóra Miyoko

Boogie Trouble var stofnuð síðla árs 2011 og meðlimir hennar koma víðs vegar að úr íslensku tónlistarlífi, m.a. úr sveitunum Ylju, Bárujárni, Sprengjuhöllinni og Babies. Sveitin sækir innblástur sinn í diskótónlist áttunda áratugarins sem þau vefja saman í popplykkjur, húkka og fjör.
 Upptökur, hljóðvinnsla og hljóðblöndun fóru fram í E7 studio undir stjórn Janusar Rasmussen sem meðal annars hefur gert garðinn frægan með hljómsveitinni Kiasmos.

Comments are closed.