BLOODGROUP (HALLUR OG JANUS)

0

_DSC5969Það hefur verið mikið að gera hjá hljómsveitinni Bloodgroup, t.d. brúðkaup í Kína og mikið flakk út um allan heim. Hallur og Janus komu í mjög hresst viðtal hjá Albumm.


 

Hvað er Bloodgroup að bralla þessa dagana?

Hallur: Við gerðum plötu í fyrra sem heitir Tracing Echoes og fylgdum svo henni eftir en aðalega erlendis, en svo erum við búin að vera frekar róleg undanfarið. Janus og Ólafur Arnalds eru að gera plötu undir nafninu Kiasmos og svo erum við báðir að spila með bandi sem heitir Fura og ég er að spila með bandi sem heitir Lily The Kid og líka með Birtu, erum búnir að túra mjög mikið með Birtu þannig Bloodgroup fór ómeðvitað aðeins til hliðar. Bloodgroup er búin að vera til í níu ár og við erum búin að vera rosalega dugleg síðustu fjögur. Við komum aftur til baka þegar hitt fer að lægja.

Hvað eruð þið mörg í Bloodgroup?

Hallur: Það er ég (Hallur), Janus, Raggi og Sunna, en svo erum við búin að vera með fimmta meðliminn alveg í eitt og hálft ár hann heitir Þorvaldur Þór (Doddi) trommuleikari og hann er búinn að spila með okkur alla tónleika síðan 2013.

_DSC5985

Þið eruð mjög öflug live, var það alltaf planið?

Hallur: Já algjörlega, okkur hefur alltaf langað að vera tónleikaband, alveg frá upphafi. Við höfum miklu frekar verið að spila tónlistina heldur en að vera í stúdíói og búa hana til þar, þannig þetta varð miklu meira til live. Síðasta plata var mikil stúdíó plata en svo þegar hún var til þá var maður alveg „bíddu hvernig á maður að gera þetta“ en það heppnaðist allt saman mjög vel.

Spilið þið mikið erlendis?

Janus: Já við höfum gert það, 2011, 2012 og 2013. Svo túruðum við mjög mikið, vorum eiginlega úti meirihlutann af þeim tíma en ekki jafn mikið þetta árið, við höfum verið mikið í öðrum verkefnum. Það er mjög fínt að taka smá pásu frá því og gera eitthvað annað og vinna með öðrum, en þegar Bloodgroup hittist aftur þá munum við öll vera mjög fersk með fullt af nýjum hugmyndum.

Hvað er skemmtilegast við það að vera í Bloodgroup?

Hallur: Það er skemmtilegast að spila live.

Janus: Já, það er mjög skemmtilegt því það er mjög opið og við höfum aldrei skilgreint okkur sem eitthvað ákveðið band. Allar plöturnar okkar eru mjög mismunandi. Við gerum bara það sem við fílum og það sem okkur finnst skemmtilegt.

Hallur: Kannski erfiðast að eignast einhverja aðdáendur þannig (hlátur), t.d. er fullt af liði sem fílar bara fyrstu plötuna okkar og svo er kanski fólk sem fílar bara nýju plötuna.

Janus: Við vissum í alvörunni ekki hvað við vorum að gera á fyrstu plötunni. Við höfðum alltaf verið í rokk hljómsveitum en svo ákvöðum við að gera rafplötu.

Hallur: Við fórum á ebay og keyptum okkur fullt af synthum, en enginn af okkur hafði spilað á píanó (hlátur). Ég hafði bara spilað á gítar og trommur og Janus er gítarleikari og söngvari og Raggi er bassaleikari. Svo er bara fundið eitthvað töff „sound“  og tekið upp (hlátur). Ég hlustaði á þessa plötu um daginn og þá voru fjögur syntha lead í gangi í einu, alveg nóg að hafa kanski eitt en neinei hafa allt (hlátur). Svo gerðum við Dry Land sem er plata númer tvö og Ólafur Arnalds vann mikið með okkur þá, sá meðal annars um útsetningar, gerir það reyndar ennþá. Mjög mikið „creative freedom“ sem er mjög skemmtilegt.

_DSC6055

Hvaða plötu var skemmtilegast að gera?

Hallur: Það var mjög skemmtilegt að gera fyrstu plötuna af því að við vorum bara að leika okkur og okkur fannst allar hugmyndir sem við komum með alveg geðveikar (hlátur) enda eru lögin á plötunni rosalega ólík og sumt gengur ekkert endilega upp sem lag, en okkur fannst það geðveikt (hlátur). Mér fanns líka mjög gaman að gera nýju plötuna því við unnum hana rosalega hratt.

Janus: Við erum komin með mun meiri reynslu núna, við byrjuðum á henni vorið 2012 og hún var mixuð um haustið. Dry Land tók um tvö ár og okkur langaði ekki að gera það aftur.

Hallur: Það var mjög leiðinlegt að gera hana og við ætluðum að vera með einhverjar reglur þá og við ætluðum fyrst að gera partý plötu, vorum mikið að hringsóla með plötuna.

Janus: Við vorum búin að gera eina plötu þar sem við vissum ekkert hvað við vorum að gera en gerðum hana samt, svo var komið að plötu númer tvö en þá vorum við búin að gera plötu og þá var maður alveg „hvernig gerir maður alvöru plötu“ (hlátur).

Hallur: Á þriðju plötunni vorum við komin í góða æfingu og okkur langaði ekki að hanga yfir hlutunum of lengi.

Janus: Við unnum miklu hraðar af því við vorum miklu öruggari með það sem við vorum að gera.  

Hallur: Það var geðveikt að gera plötu númer eitt, það var geðveikt að gera plötu númer þrjú, en það var ömurlegt að gera plötu númer tvö (hlátur).

Hver er mesti dólgurinn í Bloodgroup?

Hallur: Það er klárlega Raggi, hann er eini gaurinn sem hefur næstum því hent promoter útum gluggann (hlátur).

Hver er ykkar fyrsta tónlistarminning?

Hallur: Það hefur verið rosalega mikið um tónlist í fjölskyldunni minni. Mamma spilaði á hljóðfæri en það var ekki hljóðfæri á heimilinu en ég hef alltaf hlustað á tónlist. Ég bjó í menntaskólanum á Egilsstöðum þegar ég var lítill. Fyrsta sem ég man er þegar ég var 5 ára, það voru tónleikar með Kukl í salnum á menntaskólanum á Egilsstöðum. Ég var alltaf á svamphesti á göngunum í skólanum og var oft með blokkflautu og ég man að ég lánaði Björk blokkflautuna á þessum tónleikum, mér fannst það geðveikt merkilegt. Það var rosalega mikið um tónleika í salnum í menntaskólanum, Bubbi var að koma og Megas, bara allskonar bönd og ég fór alltaf, þannig maður fékk það beint í æð. Það var mjög sterkt tónlistarlíf í menntaskólanum á Egilsstöðum og þegar ég fór í menntaskólann sjálfur þá var ég alveg í sex hljómsveitum í einu. Raggi bróðir var svo sex árum á eftir mér og svo Lilja systir sex árum á eftir honum og svo enduðum við saman í Bloodgroup fyrir 10 árum síðan.

_DSC6027

Janus: Ég hef alltaf haft áhuga á tónlist en ég byrjaði ekki að spila fyrr en ég var ellefu ára og þá var það líka það eina sem ég gerði. Það skrítna við að ég byrjaði í rokkhljómsveit og að búa til raftónlist á sama tíma. Ég og félagi minn stofnuðum hljómsveit sem var bæði rokk hljómsveit og raf hljómsveit (hlátur), vorum eiginlega að gera allt en kunnum ekki neitt og enginn í Færeyjum var að gera eitthvað, þannig maður gat ekki spurt neinn sérstaklega útí raftónlistina, af því það er engin rafsena í Færeyjum. Ég man að einu sinni spiluðu Ghostdigital í Færeyjum og ég talaði geðveikt lengi við Curver og hann sagði mér frá Ableton, eftir það byrjaði að koma vit í þetta allt. Ég var í öllum hljómsveitum, ég var í metal hljómsveit, jazz og reggí hljómsveit, allt á sama tíma (hlátur). Ástæðan fyrir því að ég kom til íslands er sú að ég var í metal hljómsveit og við túruðum um Ísland í tvær vikur.

Hallur: Við sáum þá á Airwaves og við stálum honum úr metal bandinu.

Janus: Já það er alls ekki slæmt. Það er miklu stærri sena á íslandi en í Færeyjum, það er ekki hægt að vera bara tónlistarmaður í Færeyjum.

Hefur Bloodgroup spilað í Færeyjum?

Janus: Já við höfum spilað tvisvar í Færeyjum. Við spiluðum á G festival árið 2009 og svo héldum við útgáfutónleika fyrir Dry Land árið 2010.

Hallur: Það var geðveikt gaman, en við höfum ekki spilað þar síðan, en okkur langar mikið til að spila þar aftur.

Hlustið þið mikið á tónlist fyrir utan ykkar eigin?

Hallur: Ég er alltof latur við það, en ég er að reyna að taka mig á. Ég læt systir mína svolítið mata mig á tónlist núna. Þetta er búið að snúast við, einu sinni var ég alltaf að segja henni hvað hún átti að hlusta á en nú er það öfugt (hlátur).

Janus: Einu sinni hlustaði ég bara stanslaust á tónlist en varð latur við það í nokkur ár, en núna er ég algjör fíkill og hlusta á tónlist allann daginn. Það eru mjög spennandi hlutir að gerast og sérstaklega í raftónlistinni, mér finnst tónlist mjög skemmtileg í dag.

Hvenær er ný Bloodgroup plata væntanleg?

Hallur: Við ætlum að klára plötu snemma á næsta ári, hugsanlega vorið 2015, en við erum ekki byrjuð að vinna hana ennþá, en ég og Janus höfum stundum hisst og verið að gera grunna, en það hefur ekki farið neitt lengra því við höfum ekki haft tíma en við ætlum að búa til pláss fyrir það í lok þessa árs eða byrjun næsta árs.

Janus: Í hvernig formi sú plata verður veit maður ekki, maður veit ekki hvort maður geri geisladiska eða eitthvað annað. Þetta eru svo breyttir tímar. Kanski maður geri bara nokkrar Ep plötur en það er ekkert ákveðið.

_DSC5974-2

Eigið þið ykkar uppáhalds plötu?

Hallur: Það eru tvær plötur sem ég get alltaf hlustað á, önnur þeirra er Silent Shout með The Knife og hin er Curtains með John Frusciante.

Janus: Það er Kid A með Radiohead, það er rokktónlist í bland við raftónlist en in the end þá er þetta bara tónlist sem þarf ekkert að skilgreina neitt. The Dreaming með Kate Bush finnst mér alveg frábær, hún breytti öllu.

Ef þið væruð hljóðfæri hvaða hljóðfæri mundu þið vera?

Hallur: (Hlátur), held það væri geðveikt að vera flygill.

Janus: Ég væri örugglega einhver góður trommuheili.

Hallur: Ég var einmitt að hugsa trommuheili en þá þarf maður að vera tengdur í rafmagn, það væri gott að þurfa ekki að vera tengur í rafmagn (hlátur).

Janus: Það er mjög góður punktur, ég held ég væri frekar eitthvað ógeðslega „sexy seventies“ Ludwig trommusett.

Hallur: Það verður að vera sexy, flygill er ekki mjög „sexy“ en ég ætla samt að halda mig við það, flygillinn kemur í heimsókn til „sexy“ Ludwig trommusettisins (hlátur).

_DSC5995

Hvar sjáið þið ykkur eftir tíu ár?

Janus: Það verður löngu kominn heimsendir, ég vill ekki pæla svo langt.

Hallur: Ég veit hvar við verðum eftir tólf ár, þá verður Bloodgroup að spila í fimmtugs afmælinu mínu (hlátur).

Janus: Þá er nýi mooginn þinn orðinn vintage (hlátur).

Hvar er skemmtilegast að spila?

Hallur: Við höfum átt alveg brjáluð gigg í austur Evrópu. Við höfum spilað um tuttugu og fimm sinnum bara í Póllandi.

Janus: Það er svo gaman að spila þar af því að fólkið er svo ófeimið, bara lætur allt flakka.

Eigið þið einhverjar góðar túr sögur?

Janus: Við vorum einu sinni í Bandaríkjunum að spila á South by South West og Sunna var þá bara átján ára, allavegana mikið yngri en Hallur (hlátur). Okkur langaði að fara og sjá einhver bönd spila en hún komst ekki inn neinstaðar, þannig okkar plan var að hún mundi segja við dyraverðina að hún væri ljósamaður og ég bara kenndi henni hvað hún átti að segja, eins og „hey i´m the light technician, i have to fix the dimmer“ og hún gerir það og það bara svínvirkar (hlátur) og komst allstaðar inn!

Hallur : Við vorum einu sinni í Kína og vorum á risastóru hóteli og vorum að labba á einhverjum gangi, löbbuðum inn í einhvern sal og þar var um hundrað manns í brúðkaupi. Við vorum að spá hvort við ættum að gera eitthvað og það var svona „Katwalk“ svið með svona rana út og það var einhver kínversk tónlist í gangi, Raggi bróðir labbar upp á þetta svið og það eru einhver börn þarna og hann ýtir þeim nett frá og byrjar að dansa upp á þessu sviði og enginn veit neitt (hlátur) Þessi dans var ótrúlega fallegur.

Janus: Leiðin af sviðinu og útúr salnum var svo löng að þetta var orðið mjög vandræðalegt (hlátur).

_DSC5947

Hvað er framundan?

Hallur: Það er Airwaves en við erum að spila alveg helling með hinum og þessum.

Janus: Ég er líka að spila með stelpu sem heitir Guri Hansdóttir, en hún hefur spilað fjórum sinnum á Airwaves undir eigin nafni og er búin að gefa út fjórar plötur. Við hittumst í fyrra í einhverju partýi og hún var með einhver tíu lög og hún spurði mig hvort ég væri ekki til í að kíkja á þetta. Ég gerði það og í kjölfarið ákváðum við að gera bara bullandi popp tónlist á Færeysku. Það er engin svona tónlist til í Færeyjum, þannig þegar þetta kom út þá varð þetta geðveikt hitt.

Hallur: Þetta er það heitasta í Færeyjum.

Janus: Það er rosalega gaman að gera svona ófeiðið popp, ég er algjör poppari inn við beinið. Söngurinn er allur á Færeysku en við vorum ekki viss með það, héldum að við gætum þá ekki spilað út fyrir Færeyjar en það geta allir hlustað á þetta. 🙂

_DSC5984

Hallur: Ég var að túra sem hljóðmaður með Eivöru Pálsdóttur í Noregi um daginn og hún var með eitt lag sem hún var búin að þíða yfir á norsku og hún söng það alltaf á norsku, en eftir nokkra tónleika spurði hún tónleikagesti hvort hún ætti að syngja lagið á norsku eða færeysku og það vildu allir í salnum heyra það á færeysku. Færeyska er líka fallegt tungumál.

Janus: Við getum líka bara sagt að þetta sé Íslenskt og þá eru allir mjög sáttir, ógeðslega töff (hlátur).

Hallur: Á tímabili gafst Janus upp á því að segja að hann væri frá Færeyjum, í erlendum viðtölum og svona.

Janus: Það vissi enginn neitt um Færeyjar þannig ég nennti ekki að útskýra það, sagðist bara vera frá Íslandi. Ég er ekki það stoltur Færeyingur í mér. Ég er frá Færeyjum, búið.

 

 

Comments are closed.